Föstudagur 3. júní 2005

154. tbl. 9. árg.
Ríkistjórnin hefur við þessar aðstæður sýnt litla ábyrgð. Aðhaldsleysi í ríkisfjármálum, illa tímasettar skattalækkanir og breytingar á íbúðalánamarkaði hafa aukið á ójafnvægið í hagkerfinu.
– Úr inngangi vorskýrslu hagdeildar Alþýðusambands Íslands 2005.
Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, segir að ekki komi til álita að bregðast við ofhitnun hagkerfisins vegna slælegrar efnahagsstjórnar stjórnvalda með því að lækka vaxtabætur sem láglaunafólk njóti og fella þær niður til að koma til móts við þá þenslu sem verði vegna skattalækkana hátekjufólks, en Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, segir í Morgunblaðinu í sl. fimmtudag að til greina komi að endurskoða vaxtabótakerfið frá grunni.
– Úr frétt Morgunblaðsins 29. maí 2005 af viðbrögðum ASÍ við hugmyndum fjármálaráðherra um aðhald í ríkisfjármálum.

Það er sjálfsagt að taka undir það með hagdeild Alþýðusambands Íslands að það mætti vera meira aðhald í fjármálum ríkisins. Raunar á þessi aðhaldskrafa ekki síður við sveitarfélögin sem mörg hafa hækkað skatta, aukið útgjöld og safnað skuldum á meðan ríkið hefur þó verið að greiða upp skuldir og lækka ýmis skatthlutföll. Það kemur því nokkuð á óvart að ASÍ skuli ekki fagna þeim hugmyndum sem fjármálaráðherra hefur viðrað um aðhald í ríkisfjármálum með því að breyta vaxtabótakerfinu. Vaxtabótakerfið hvetur menn mjög til skuldsetningar við íbúðakaup. ASÍ hefur bæði áhyggjur af þenslu á íbúðalánamarkaði og litlu aðhaldi í ríkisfjármálum. Það væri hægt að koma til móts við þessar áhyggjur ASÍ með því að lækka vaxtabæturnar. Lækkun vaxtabóta væri bæði aðhald í ríkisfjármálum og minnkaði þensluna á íbúðalánamarkaði.

Hitt er ekki síður undrunarefni að hagdeild ASÍ telji skattalækkanir og aðhald í ríkisfjármálum vera andstæður. Skattalækkanir eru þvert á móti mikilvægar til að draga úr svigrúmi stjórnmálamanna til eyðslu. Það er lítil von til að stjórnmálamenn endurgreiði skatta sem þegar eru komnir í ríkiskassann. Öllu líklegra er að þeir nýti „svigrúmið“ og finni einhver „góð mál“ til að eyða í. Þannig komst hagdeild ASÍ til dæmis á fjárlög hér um árið og ekki rekur Vefþjóðviljann minni til þess að þá hafi hún gert athugasemdir við það „aðhaldsleysi í ríkisfjármálum“.

En hvar á að spara? Þau eru auðvitað mörg verkefnin sem ríkið sinnir nú þegar að ástæðulausu. Það mætti þó kannski byrja á því að segja hingað og ekki lengra. Ný eyðsluverkefni eins og tónlistar- og ráðstefnuhús og Héðinsfjarðargöng, svo tvær framkvæmdir upp á yfir 10 milljarða króna hvor, hljóta að verða slegnar af ef menn hafa í alvöru áhuga á aðhaldi í ríkisfjármálum.