Það er athyglisvert hvernig margir fjölmiðlamenn og aðrir áhugamenn um aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa brugðist við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi um nýja stjórnarskrá sambandsins. Skýringar þeirra ganga yfirleitt út á það að niðurstaðan sýni alls ekki hug Frakka til sambandsins eða þeirra samrunaþróunar sem stjórnmálamenn og embættismenn virðast ákveðnir í að knýja fram. Þvert á móti er skýringin sú að Frakkar hafi fyrst og fremst verið að lýsa óánægju sinni með forsetann og ríkisstjórnina þar í landi og láta í ljós óánægju sína með innanlandsmál á borð við atvinnumál og efnahagsástand.
Vefþjóðviljinn getur auðvitað hvorki staðfest þessa kenningu né afsannað hana. Vera kann að almenningur í Frakklandi sé bara afskaplega ánægður með Evrópusambandið og styðji þróun þess í átt til einhvers konar sambandsríkis. Hins vegar verður að segja að sú ánægja og stuðningur getur ekki rist mjög djúpt ef meirihluti kjósenda þar í landi lætur sig hafa það að fella stjórnarskrárdrögin í þjóðaratkvæðagreiðslu og notar þess í stað tækifærið til að veita eigin stjórnvöldum hirtingu fyrir vanmáttuga stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum. Hin mikla hugsjón um sameinaða Evrópu virðist þá vera frekar aftarlega á forgangslistanum hjá meirihluta franskra kjósenda.
Skýringin um að þjóðaratkvæðagreiðslan í Frakklandi hafi í raun ekki snúist um stjórnarskrá Evrópusambandsins er hins vegar áhugaverð í sjálfu sér. Hún samræmist vel þeirri kenningu, sem stundum hefur verið orðuð en erfitt er bæði að sanna og afsanna, um að þjóðaratkvæðagreiðslur snúist oftar en ekki um einhver allt önnur mál heldur en kjósendum er beinlínis ætlað að taka afstöðu til. Þetta ætti að vera sérstakt umhugsunarefni fyrir þá stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn, sem telja það meðal brýnustu þjóðþrifamála hér á Íslandi, að almenningur fái með beinum hætti að taka afstöðu til sem flestra álitamála í stjórnmálum. Eðlilegt er að spurt sé hvort slíkar hugmyndir um beina þátttöku almennings í ákvarðanatöku nái tilgangi sínum ef reynsla manna um allan heim er á þá leið, að þjóðaratkvæðagreiðslur snúist í mörgum, eða jafnvel flestum tilvikum um afstöðu fólks til annarra spurninga en getið er um á kjörseðlunum. Er líklegt að atkvæðagreiðslur af þessu tagi auki raunveruleg áhrif kjósenda í löndunum á niðurstöðu einstakra mála, ef úrslit þeirra endurspegla bara fyrst og fremst stemninguna meðal kjósenda gagnvart sitjandi ríkisstjórn þá og þá stundina, svona eins og einhvers konar fokdýr risaskoðanakönnun?