Fasteignir og náttúruauðæfi hér á landi skulu Íslendingar einir eiga eða stofnanir, sem Íslendingar eiga einir. Veita má sendiráðum, alþjóðastofnunum og erlendum mönnum, sem hér eiga lögheimili, undanþágu frá þessu ákvæði með lögum. Engir nema Íslendingar mega taka á leigu atvinnutæki eða íslensk náttúruauðæfi. Undanþegin þessu ákvæði eru þó flutningaskip og flugvélar. Að því er snertir erlenda menn búsetta hérlendis skal mæla fyrir um þessi atriði með lögum. Enginn útlendingur getur fengið ríkisborgararétt nema með lögum. |
– Tillaga alþýðubandalagsmannanna Ólafs Ragnars Grímssonar og Ragnars Arnalds um stjórnarskrárákvæði, lögð fram í stjórnarskrárnefnd 1983. |
S
Ólafur Ragnar ávarpar viðskiptaráðstefnu í Kína. Mynd: forseti.is. |
tjórnarskrá lýðveldisins Íslands er stutt og að mörgu leyti gott plagg. Að minnsta kosti þegar hún er borin saman við langlokuna sem Evrópusambandið vill setja þegnum aðildarríkja sinna sem stjórnarskrá Evrópu um þessar mundir.
Eiginlega má segja að það sé viðbúið að ráðist menn í breytingar á stjórnarskránni verði þær til hins verra. Þess vegna voru það vonbrigði að nefnd skyldi skipuð í ársbyrjun sem vinna á tillögur um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Nefndinni er ætlað að skila tillögum á næsta ári svo gera megi reka að því að breyta stjórnarskránni við næstu kosningar.
Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að breyta stjórnarskránni. Að frumkvæði Alþingis var til dæmis skipuð nefnd til þess arna haustið 1978. Meðal nefndarmanna var dr. Ólafur Ragnar Grímsson. Hann lagði í félagi við Ragnar Arnalds fram ofangreinda tillögu til breytingar á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Frá þessu er sagt í riti Hannesar H. Gissurarsonar, Stjórnarskrármálinu, sem kom út 1987.
Það segir sína sögu um hve langt menn vilja seilast í að hengja alls kyns óþarfa á stjórnarskrána að þarna var á ferðinni tillaga um að það verði bundið í stjórnarskrá lýðveldisins hvernig eignarhaldi á skipum og flugvélum skuli háttað. Útlendingar mega eiga eða leigja flutningaskip en ekki hvalaskoðunarbát eða fjársjóðsleitarskútu.
Þessar takmarkanir á fjárfestingum og eignarréttindum útlendinga sem Ólafur Ragnar lagði til að yrð bundnar í stjórnarskrá er svo athyglisvert að skoða í samhengi við ferð hans, með fríðu föruneyti manna úr viðskiptalífinu, til Kína um þessar mundir. Þar fer Ólafur Ragnar fyrir stórum hópi manna sem vill fjárfesta í Kína – og ekki bara í flutningaskipum og flugvélum. Á vef forsetans má fylgjast með þessari heimsókn sem meira og minna virðist snúast um að finna útlendingunum, það er Íslendingunum, fjárfestingartækifæri í Kína.
Kommúnistaríkið Kína virðist með öðrum orðum ekki hafa leitt í lög jafn miklar takmarkanir á fjárfestingum útlendinga og Ólafur Ragnar Grímsson lagði til að bundnar yrðu í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.