Mánudagur 9. maí 2005

129. tbl. 9. árg.

Menntastofnun ein, Viðskiptaháskólinn á Bifröst, auglýsti í gær eftir starfskrafti, „kennara við lagadeild“. Þó ekki virðist um að ræða prófessorsstöðu eða slíkt, gerir skólinn ýmsar kröfur. Umsækjandi skal „uppfylla lektorshæfi hið minnsta“. Meistarapróf eða sambærileg menntun er lágmarksskilyrði og auk þess æskilegt að kennarinn hafi sérþekkingu og/eða reynslu í einhverri þriggja greina sem eru taldar upp; kröfurétti – sem er auðvitað mjög mikilvæg grein í lögfræði -, félagarétti – sem mun minna reynir vitaskuld á – eða verðbréfa- og kauphallarrétti – sem er vitaskuld jaðargrein. Í auglýsingunni er tekið fram, að „sérskipuð dómnefnd við skólann metur akademískt hæfi viðkomandi á grundvelli 7. gr. háskólalaga nr. 136/1997.“

Þetta er nokkuð meiri fyrirhöfn en síðast þegar þurfti að ráða starfskraft við lagadeildina á Bifröst. En þá var auðvitað verið að ráða prófessor. Þá var ekki auglýst. Heyrði einhver talað um sérskipaða dómnefnd? Þá var ráðinn lögfræðingur sem ekkert framhaldsnám hafði og enga gráðu utan hið almenna próf sem allir lögfræðingar hafa. Starfsferillinn við lögfræði var sá að viðkomandi hafði unnið í tæp þrjú ár á skrifstofu ASÍ og svo sest á þing fyrir Alþýðubandalagið og situr nú fyrir Samfylkinguna. Og þessi merki lögfræðingur var sóttur auglýsingarlaust og gerður að forseta lagadeildar Viðskiptaháskólans á Bifröst.

Nú ætlar Vefþjóðviljinn ekki að segja, að þessi lögfræðingur hljóti að vera verri en aðrir, þó hann hafi á pappírunum lítið við sig umfram aðra lögfræðinga. Vefþjóðviljinn hefur aldrei verið þeirrar skoðunar að hæfni fólks sannist af því sem það getur talið upp af því tagi, svo sem setu á skólabekk og fræðiskrif, þó allt megi slíkt hjálpa og þá ekki síður heldur enn frekar góð starfsreynsla. En blaðinu hafði skilist að einmitt þessi lögfræðingur, sem hér um ræðir, væri mikið fyrir að meta hæfni fólks eftir slíkum atriðum. Sömuleiðis félagar lögfræðingsins, þessir sem í einum kór fögnuðu hinni óvæntu ráðningu, þeir væru líka mjög mikið fyrir slíkar hæfniskröfur. Og innan háskóla hefur lengi verið lagt geysilega mikið upp úr slíku hæfnismati, einhvers konar útreikningum eftir menntunargráðum, fræðiskrifum og öðru slíku. En skyndilega virtist engin þörf á því. Og það einmitt þegar ráðning varð til þess að greiða leið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur inn á þing. Og spurð um ráðninguna benti Ingibjörg umhugsunarlaust á að nú væri það frá sem sagt hefði verið gegn sér í formannsslagnum, að hún sæti ekki á þingi.

Rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst er Runólfur Ágústsson. Hann er kunnur Samfylkingarmaður, kom úr Alþýðubandalaginu, leiddi lista Þjóðvaka til Alþingis í Vesturlandskjördæmi á sínum tíma, sat í stjórn „Borgarfjarðarlistans“ og sat svo á framboðslistanum sjálfum við sveitarstjórnarkosningar. Aðstoðarrektor er Magnús Árni Magnússon. Hann sat nú á þingi fyrir Alþýðuflokkinn þegar Alþýðuflokkurinn hvarf þaðan en Samfylkingin tók við. Núverandi forseti lagadeildar, sem ákvað að láta af starfi, er Ingibjörg Þorsteinsdóttir. Hún er einn af öflugustu liðsmönnum framtíðarhóps Samfylkingarinnar, sem starfar við einróma lof jarðarbúa undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur varaþingmanns og formannsefnis. Hvernig heldur fólk að látið hefði verið, ef óvænt ráðning af þessum toga, hefði orðið til þess að bæta verulega hag formannsefnis í öðrum stjórnmálaflokki og helstu ráðamenn háskólans væru einmitt forkólfar í þessum sama flokki? Ætli þá hefði ekki verið spurt eitthvað frekar um hæfni hins nýja deildarforseta, um vinnubrögð háskólans og hvernig hann liti á sjálfan sig og sín embætti? En nú á Samfylkingin og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í hlut og þá draga fjölmiðlar sig í hlé. Þá kemur ekkert tal um orðspor háskóla, akademísk vinnubrögð eða hvað það nú er sem alltaf er verið að gapa um.

Auðvitað er á vissan hátt ágætt að enginn spyrji neins um hæfnina, vinnubrögðin eða það hvort skólinn hafi fremur verið að hugsa um að fá góðan deildarforseta eða leggja sjálfan sig inn í fléttu í stjórnmálaflokki. Tortryggnin sem fjölmiðlar og álitsgjafar eru sífellt að reyna að ala á, hún er hreint ekki geðfelld. Og ekki heldur þessi endalausa áhersla á menntun og fræðimennsku. En ímyndi menn sér hvernig fjölmiðlar og álitsgjafar hefðu látið ef einhver annar flokkur hefði átt hér í hlut. Ætli þá hefði verið hætt að tala um þetta mál samdægurs?