Það er skoðun Neytendasamtakanna að hér sé gengið rangt til verks og skora samtökin á stjórnvöld að hafa hóflegt gjald á díselolíu og er eðlilegt að það sé lægra en gjald á bensíni. Öll rök hníga að því hvort sem um er að ræða þjóðhagsleg eða umhverfisvæn að gjald á díselolíu ætti að vera lægra en á bensín. |
– Úr ályktun Neytendasamtakanna gegn eigendum bensínbíla 27. apríl 2005. |
Fyrir nokkrum dögum varð hér nokkurt fjölmiðlafár vegna fyrirhugaðrar breytingar á skattlagningu á Dieselolíu sem tekur gildi 1. júlí í sumar. Skattar á Diesel og bensín eru að mestu leyti fastir krónutöluskattar á hvern lítra sem er ólíkt flestum öðrum neyslusköttum sem eru gjarnan hlutfallsskattar. Eins og Vefþjóðviljinn hefur svo oft sagt er eðlilegt að allar neysluvörur, hvort sem það er áfengi, barnaföt, bækur og eldsneyti, beri sömu skatta. Ríkið á ekki að mismuna framleiðendum og neytendum með mismunun í skattlagningu. Vegna fyrrnefndrar breytingar á skattalagningu Dieselolíu stefndi í að hún hefði það í för með sér að útsöluverð lítra af Dieselolíu yrði hærra en á bensíni enda hefur heimsmarkaðsverð á Dieselolíu verið hærra en á bensíni undanfarið. Ýmsir aðilar hafa gert athugasemd við þetta þótt meginástæðurnar fyrir þessari niðurstöðu séu þessar aðstæður á heimsmarkaði. Neytendasamtökin hafa til að mynda lýst sérstökum áhyggjum af því að bensínbílar, sem flestir neytendur aka þó um á, muni líta út fyrir að vera hagstæðari í rekstri en Dieselbílar. Í tilkynningu frá Neytendasamtökunum segir að samtökin skori „á stjórnvöld að hafa hóflegt gjald á díselolíu og er eðlilegt að það sé lægra en gjald á bensíni.“ Það er auðvitað sjálfsagt að taka undir þá kröfu samtakanna að gjaldið á Dieselolíuna verði hóflegt en það er einkennilegt að þau hvetji stjórnvöld til að mismuna gegn eigendum bensínbíla. Það er athyglisvert, en kemur ekki á óvart miðað við fyrri málflutning samtakanna í ýmsum málum, að þau skuli ekki vilja lækka almennar álögur á eldsneyti heldur einungis einni tegund. Fæstir neytendur nota þar að auki þessa tegund sem Neytendasamtökin vilja hygla sérstaklega.
Í ályktun Neytendasamtakanna var því haldið fram að gjaldtaka af Dieselolíu yrði hærri en af bensíni. Þetta er rétt þegar litið er á skatt á lítra. Það ber þó að hafa í huga að þegar menn kaupa Dieselolíu og bensín eru þeir fyrst og fremst að kaupa orkugjafa. Þegar tekið er tillit til orkuinnihalds er ljóst að dæmið snýst við og skattur á Dieselolíuna hefði orðið heldur lægri en á bensínið. Það munar raunar ekki mjög miklu eins og taflan hér að neðan ber með sér en það er rangt sem Neytendasamtökin og fleiri hafa haldið fram að skatturinn hefði orðið hærri á Dieselolíuna. Skatturinn á orku (Mega Joule) hefði orðið lægri á Dieselolíuna hvort sem miðað er við hefðbundið vetrar- eða sumareldsneyti.
Eðlismassi | Orkuinnihald | Orkuinnihald | Skattur | Skattur | Skattur | |
kg/l | MJ/kg | MJ/l | kr/l | kr/kg | kr/MJ | |
Sumar | ||||||
Diesel | 0,835 | 46,11 | 38,50 | 56,0 | 67,1 | 1,45 |
Bensín | 0,750 | 47,49 | 35,62 | 52,7 | 70,3 | 1,48 |
Vetur | ||||||
Diesel | 0,820 | 46,26 | 37,93 | 56,0 | 68,3 | 1,48 |
Bensín | 0,725 | 47,55 | 34,47 | 52,7 | 72,7 | 1,53 |
Við þetta bætist svo að Dieselbílar nýta orkuna mun betur en bensínbílar og því er ljóst að eigendur þeirra munu ekki aðeins greiða heldur lægri skatta á orkueiningu heldur einnig komast lengra á hverri einingu. Neytendasamtökin eru því alveg úti að aka ef þau halda því fram að ríkið hafi viljað gera rekstur Dieselbíla óhagkvæman í samanburði við bensínbíl. Best væri auðvitað að munurinn á skattlagningu bensíns og Diesels væri enginn og sú leið sem upphaflega átti að fara komst mjög nálægt því að vera hlutlaus. Það mætti halda því fram að munurinn á skattlagningu Diesels og bensín væri innan eðlilegra skekkjumarka miðað við þá aðferð að nota fasta krónutölu á lítra. Það munar í versta falli um 3% á skattlagningunni þegar skattur á orkueiningu er skoðaður. Hvorki ríkið né Neytendasamtökin eiga að stjórna því á hvernig bíl eða hvaða eldsneyti neytendur nota. Neytendasamtökin ættu miklu fremur að hafa áhyggjur af þeirri miklu almennu skattlagningu bíla og eldsneytis sem gerir neytendum erfitt fyrir að skipta út gömlum eyðslufrekum bílum fyrir nýja. Ef að ríkið hefur svigrúm til skattalækkana á eldsneyti á að nota það svigrúm til almennrar lækkunar en ekki til niðurgreiðslu á einni tegund.
Í gær var tilkynnt að Neytendasamtökin muni hafa sitt fram og ríkið muni lækka skatt á Dieselolíu um 5 krónur á lítrann frá því sem áður var ráðgert. Þetta á raunar aðeins að gilda til áramóta og verður skoðað betur síðar. Engin lækkun verður hins vegar á bensíni sem flestir neytendur nota á fjölskyldubíla sína. Munurinn á skattlagningu hverrar orkueiningar Dieselolíu og bensíns verður því sem hér segir.
Eðlismassi | Orkuinnihald | Orkuinnihald | Skattur | Skattur | Skattur | |
kg/l | MJ/kg | MJ/l | kr/l | kr/kg | kr/MJ | |
Sumar | ||||||
Diesel | 0,835 | 46,11 | 38,50 | 51,0 | 61,1 | 1,32 |
Bensín | 0,750 | 47,49 | 35,62 | 52,7 | 70,3 | 1,48 |
Vetur | ||||||
Diesel | 0,820 | 46,26 | 37,93 | 51,0 | 62,2 | 1,34 |
Bensín | 0,725 | 47,55 | 34,47 | 52,7 | 72,7 | 1,53 |
Nái þessi breyting fram að ganga eykst munurinn á skattlagningu Diesels og bensíns í þessum dæmum úr 3 í 14% Dieselolíunni í hag. Skattlagning sem upphaflega stefndi í að vera nærri því hlutlaus mun nú halla á eigendur bensínbíla. Neytendasamtökin hafa þar með fengið því framgengt að ríkið mun refsa neytendum fyrir að eiga frekar bensínbíl en Dieselbíl. Það mun væntanlega segja til sín í endursöluverði bensínbíla á næstunni. Þegar haft er í huga að flestir neytendur eru á bensínbíl hljóta Neytendasamtökin að vera stolt af þessum árangri.