H versu oft hefur fólki verið sagt undanfarnar vikur frá frumvarpi eins nafngreinds þingmanns um afnám fyrningarfrests vegna tiltekinna brota á almennum hegningarlögum? Svona tuttugumilljón sinnum? Hversu oft hefur fólki verið sagt að flutningsmenn þessa frumvarps séu í raun ekki einn þingmaður heldur þrettán, þessi eini sem alltaf er nefndur og svo tólf aðrir sem aldrei nokkurn tíma eru nefndir? Aldrei?
Við þessar spurningar er svo að bæta þeirri athugasemd, að sjálfsagt er að hafa í huga, þegar ákveðinn er fyrningarfrestur vegna þessara brota, að fórnarlömbin eiga oft ekki kost að leita sér hjálpar og átta sig jafnvel ekki á að brotið hafi verið gegn þeim, fyrr en svo og svo langur tími er liðinn frá því brotin fyrst áttu sér stað. Af þeim ástæðum má vel vera eðlilegt að ákveða að fyrningarfrestur byrji ekki að líða fyrr en kærandinn hefur náð einhverjum tilteknum aldri, hvort sem hann er svo ákveðinn 16 ár, 18 ár, 20 ár eða hvað fólk vill miða við. En með því er ekki sagt að enginn fyrningarfrestur eigi að vera á þessum brotum. Það eru ýmis góð og gild sjónarmið sem mæla með því að brot fyrnist ef þau eru ekki rannsökuð um langan tíma. Þau rök eiga við í þessum málum eins og öðrum, jafnvel þó réttlætanlegt geti verið, af þeim ástæðum sem nefndar voru, að láta fyrningarfrestinn ekki byrja að líða á þeim tíma sem talið er brotið sé framið, eins og almennt er regla, heldur þegar ætla má að fórnarlambið geti leitað réttar síns.
Í vikunni fór fram einkavæðing án þess að mikið bæri á þegar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra seldi hlut ríkisins í Flugskóla Íslands. Skólinn var stofnaður í júlí árið 1998 en fram að þeim tíma var öll kennsla til bóklegra atvinnuflugmannsréttinda á hendi Flugmálastjórnar, það er að segja ríkisins. Með lögum um skólann, sem samþykkt voru árið 1997, var Flugskóli Íslands stofnaður með fjórðungsþátttöku ríkisins á móti nokkrum einkafyrirtækjum á flugsviðinu.
Þessi einkavæðing er vissulega ekki stór en hún er engu að síður einkennandi fyrir þá jákvæðu þróun sem að þessu leyti hefur átt sér stað hér á landi á síðustu árum. Ríkið sinnti áður eitt því verkefni að kenna til bóklegra atvinnuflugmannsréttinda og vafalaust hafa margir trúað því að ríkið eitt gæti sinnt þessu verki. Rétt eins og sumir trúa því enn í dag að enginn nema hið opinbera geti rekið grunnskóla eða framhaldsskóla. Staðreyndin er hins vegar sú, eins og kemur í ljós í hvert sinn sem ríkisfyrirtæki er einkavætt, að einkaaðilar geta hæglega sinnt þeim verkum sem hið opinbera sinnir nú. Eina „hættan“ við einkavæðinguna er að oft kemur í ljós að hið opinbera hefur staðið illa að rekstrinum og að einkaaðilar eru almennt betur til rekstrar fallnir en hið opinbera.