Það liggur í augum uppi að ritstjórn Science vill frekar birta greinar sem styðja kenningar um hlýnun af völdum gróðurhúsaáhrifa. Fréttagildið ræður för. |
– Roy Spencer prófessor við Alabamaháskóla í viðtali við The Daily Telegraph í fyrradag. |
T
Blaðið með greininni umdeildu um að kenningin um aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum sé óumdeild. |
he Daily Telegraph fjallaði í fyrradag um deilur nokkurra vísindamanna við tímaritin Science og Nature. Upphaf deilunnar má rekja til greinar sem doktor Naomi Oreskes við Kaliforníuháskóla birti í Science í desember. Í greininni hélt Oreskes því fram að af þeim tæplega 1.000 greinum um gróðurhúsaáhrifin sem hún skoðaði hefðu 75% tekið undir hina viðteknu kenningu með beinum eða óbeinum hætti en engin hafnað henni. Þessi niðurstaða Oreskes hefur síðan að sjálfsögðu verið nefnd til sanninda um að kenningin um hlýnun af völdum gróðurhúsaáhrifa af manna völdum sé almennt viðurkennd.
Doktor Benny Peiser við John Moores háskólann ákvað hins vegar að skoða þessar 1.000 greinar upp á eigin spýtur. Hann komst að allt annarri niðurstöðu en Oreskes. Peiser telur að aðeins þriðjungur greinanna renni stoðum undir kenninguna og aðeins 1% geri það skilyrðislaust. Peiser sendi Science niðurstöðurnar í janúar og var beðinn að búa grein til útgáfu. Blaðið hefur hins vegar snúið við blaðinu og afþakkað greinina með þeim orðum að niðurstöður hennar hafi þegar verið dreift á netinu. Peiser segir að hann hafi gætt fyllsta trúnaðar.
Peiser er ekki eini vísindamaðurinn sem lent hefur í erfiðleikum með að fá birtar niðurstöður rannsókna sem ganga gegn niðurstöðum Oreskes. Dennis Bray prófessor við GKSS rannsóknamiðstöðina í Þýskalandi komst að þeirri niðurstöðu að innan við 10 loftslagsfræðingar telji að loftslagsbreytingar séu fyrst og fremst af manna völdum. Science neitaði að birta niðurstöðurnar.
Roy Spencer, sem vitnað er til hér að ofan, er leiðandi sérfræðingur í mælingum á hita andrúmsloftsins með gervitunglamælum. Hann segir að eftir að hann og samstarfsmenn hans hafi farið að lýsa efasemdum um gróðurhúsakenninguna hafi þeir hætt að fá greinar ætlaðar til birtingar í Science og Nature til yfirlestrar.
Það fer auðvitað ekki alltaf saman að selja blöð og segja nákvæmlega rétt frá, þótt óvönduð vinnubrögð borgi sig ekki til lengri tíma litið. Fréttamenn eru auðvitað sjaldnast að segja vísvitandi rangt frá en hvað þeir velja að gera að frétt skiptir auðvitað miklu máli. Það er alltaf tilhneiging til að „slá upp“ vondum tíðindum enda er sú frétt óneitanlega safaríkari að heimsendir sé í nánd en allt sé í sóma.
Fram til þessa hafa menn þó einkum þóst sjá æsinginn og sölumennskuna ryðja staðreyndum út af forsíðum dagblaða en það er nokkur nýlunda að það eigi einnig við um tímarit sem kenna sig við vísindi.