V ísindin eru skemmtileg fyrir þá sem hafa gaman af að leita sannleikans. Engu að síður er vafasamt að túlka allar niðurstöður vísindamanna sem sannleika. Iðulega er þó stokkið til þegar vísindamenn birta niðurstöður sínar og sagðar fréttir af þeim þar sem oftar en ekki er látið undir höfuð leggjast að benda á óvissuna og ónákvæmnina í niðurstöðunum. Afleiðingin af slíkum fréttaflutningi er svo gjarnan sú að stjórnmálamenn finna fyrir þrýstingi um að grípa til aðgerða og bregðast við niðurstöðunum, og þá er voðinn vís. Dæmi um þetta má finna á ýmsum sviðum mannlífsins, en hér skulu tekin tvö nýleg dæmi sem sýna að nauðsynlegt er að taka vísindaniðurstöðum með fyrirvara.
Suðurskautið í heild sinni kólnar þótt Suðurskautsskaginn hlýni. |
Í gær var sagt frá því í fréttum að ný rannsókn sýndi að skriðjöklar á stærsta skaga Suðurskautslandsins hefðu hopað á síðustu áratugum. Ef reynslan kennir nokkuð er víst að margir munu misskilja þessa frétt og telja að hún feli í sér að íshellan á Suðurskautslandinu sé að bráðna og þar með muni sjávarborð hækka og strandbyggðir vera í hættu. Því verður án efa haldið fram að hlýnun jarðar valdi bráðnuninni og að maðurinn sé orsakavaldurinn. Sumar þeirra frétta sem þegar hafa birst um rannsóknina benda að minnsta kosti til að umræðan verði á þessa leið, en hverjar eru staðreyndir málsins?
Í fyrsta lagi má nefna að rannsóknin sýnir ekki að allir skriðjöklar Suðurskautsskagans hopi, aðeins að flestir þeirra geri það. Þetta skiptir máli, en er þó ekki úrslitaatriði. Annað sem skiptir mun meira máli, en er ekki nefnt nema afar óbeint í tilkynningu um rannsóknarniðurstöðuna, er að Suðurskautslandið sjálft, það er að segja stóri ísmassinn, hefur farið kólnandi en ekki hlýnandi eins og skaginn. Þriðja atriði sem ástæða er til að nefna, en stundum gleymist, er að óvissan er mikil um hvaða ályktanir á að draga af þessum niðurstöðum. Í tilkynningunni um rannsóknina er haft eftir einum af vísindamönnunum sem gerðu hana að skaginn sé mjög viðkvæmur fyrir hlýnuninni sem þar hefur orðið að undanförnu, en að ekki liggi fyrir hvort að þessi hlýnun eigi rætur að rekja til hlýnunar jarðarinnar sem maðurinn hafi áhrif á. Þá hefur BBC eftir þessum vísindamanni, dr. David Vaughan, að það sé „afar óvíst“ að hlýnunin á skaganum gefi vísbendingu um þróun hitastigs á Suðurskautslandinu í heild, sem þarf ekki að undra þar sem íshellan stóra hefur kólnað eins og áður sagði.
Síðara dæmið er af umfjöllun The New York Times í gær. Þar segir frá því að nýleg rannsókn sýni að hófleg yfirvigt kunni að vera heilsusamleg og að það kunni að vera hættulegt heilsunni að vera of grannur. Þessi rannsókn er birt í „virtu bandarísku tímariti“, Journal of the American Medical Association, og svipaðan frasa má nota um ýmsar aðrar vísindarannsóknir sem menn hafa stutt sig við í seinni tíð, því að stuðning við flest sjónarmið virðist mega finna í virtum bandarískum tímaritum. Hingað til hafa þessi tímarit yfirleitt birt greinar þar sem yfirvigt er tengd ótímabærum dauðsföllum, en nú snýst dæmið sem sagt við, að minnsta kosti þegar um er að ræða hóflega yfirvigt.
Mismunandi sjónarmið um kosti og galla yfirvigtar sýna vel hversu hæpið er að ríkið grípi inn í hegðun fólks og reyni að beina því að „hollu“ líferni. Og þetta má enn betur sjá á deilum vísindamanna um það hvaða matur er hollur og hvaða matur óhollur. Það sem var hollt í gær er óhollt í dag, en verður ef til vill orðið hollt aftur á morgun. Ef ríkið gerir mistök og fer að ýta undir ákveðið mataræði eða ákveðna kjörþyngd geta mistökin orðið alvarleg ef ríkið tekur skakkan pól í hæðina. Margir halda því einmitt fram að ríkið hafi með áróðri sínum um tiltekið mataræði beint mönnum inn á ranga braut og valdið skaða. Ekki verður mælt með því hér að menn taki nýjustu rannsóknarniðurstöðunni þannig að þeim sé óhætt að hlaða utan á sig aukakílóum. Hún er hins vegar ágæt áminning um það að hollast er að taka vísindaniðurstöðum með hæfilegum fyrirvara.