N ú hefur því verið lýst yfir að ríkið hyggist selja 99% hlut sinn í Landssíma Íslands. Einhverjum finnst salan sjálfsagt löngu tímabær og fagna henni, en öðrum mun aldrei þykja tími til að selja þetta ríkisfyrirtæki því að þeir eru alfarið á móti sölunni. Þingmenn vinstri grænna eru í hópi þeirra sem eru alfarið á móti sölunni og hafa ekkert á móti því að lýsa þeirri skoðun sinni hvar og hvenær sem er. Og þeir reyna það sem þeir geta til að koma í veg fyrir söluna eða að minnsta kosti að tefja hana. Þeir reyna líka það sem þeir geta til að slá sér upp á þessari andstöðu sinni, meðal annars með stórfurðulegri þingsályktunartillögu um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um söluna. Afstaða vinstri grænna til sölu Landssímans er eins lítið óvænt og hugsast getur. Þeir eru jafnan á móti sölu ríkisfyrirtækja og þeir leitast ævinlega við að slá sér upp með hvers kyns lýðskrumi. Þetta er allt þekkt.
Annað er því miður líka þekkt, og það er afstaða Samfylkingarinnar. Þar á bæ er viðkvæðið ævinlega hið sama þegar til stendur að einkavæða ríkisfyrirtæki eða auka frjálsræði á einhverju sviði. Samfylkingin segist vera fylgjandi breytingunni, en geti því miður ekki stutt hana því að útfærslan sé ekki rétt. Í tilviki Símans er rangt að selja fyrirtækið í heilu lagi, betra væri að skipta því upp í svo kallað grunnnet annars vegar og afganginn af fyrirtækinu hins vegar. Það má með öðrum orðum ekki einkavæða að fullu heldur aðeins að hluta, annars er Samfylkingin á móti. Hvað ætli hefði gerst ef ríkisstjórnin hefði ákveðið að skipta fyrirtækinu upp og selja svo annan hluta þess? Má Vefþjóðviljinn leyfa sér að giska á að þá hefði Samfylkingin talið alveg nauðsynlegt að selja fyrirtækið í heilu lagi?
M
Er „faglegt“ hjá fréttastofu Og Vodafone að geta ekki um tengsl sín við fyrirtækið? |
eira af Símanum. Stöð 2 hefur nú fréttatíma sína reglulega á neikvæðum athugasemdum, vangaveltum og fréttum af undirbúningi einkavæðingar Símans. Hugsum nú um eitt. Fjölmiðlamenn eru iðulega mjög áhugasamir um vanhæfi. Vanhæfi annarra. En nú er Stöð 2 er ekki bara einhver sjónvarpsstöð, heldur líka sjónvarpsstöð í eigu samkeppnisaðila Símans. Blasir ekki við að eigandi Stöðvar 2, hefur hagsmuni af því hvernig tekst með einkavæðingu Símans, og þá ekki síður hver ímynd og yfirbragð þess fyrirtækis verður? Ef að þjónusta og verð sem tvö fyrirtæki bjóða upp á, eru svipuð, þá má ætla að fólk láti viðskipti sín ráðast af verulegu leyti á þeim hug sem það almennt ber til fyrirtækjanna. Er ekki augljóst, að það skiptir verulegu máli fyrir keppinautinn hvaða hug fólk ber til Símans? Skiptir það engu máli, þegar fréttastofa Og Vodafone tekur að fjalla um Símann? Hvað þá þegar fréttirnar ganga ekki síst út á tískuaðfinnsluna að einhverjum þyki einhver „blær“ á einhverju. Þegar fjölmiðlar taka að gerast farvegur fyrir „borgarnes-fréttir“, þá er nú væntanlega talsverð ástæða til að vera enn meira vakandi en ella fyrir tengslum eigenda fjölmiðilsins við málefnið.
Fjölmiðlar eru alltaf með hugann við vanhæfi annarra. Hvað væri nú að því að ljúka hinum daglegu fréttum Stöðvar 2 á athugasemd eins og þessari: Athygli áhorfenda er vakin á því, að fréttastofan sem vann og sendi út þessa frétt, er í eigu samkeppnisaðila Símans, þess fyrirtækis sem fréttin fjallaði um.
Með því væri ekki sagt að fréttin væri röng eða að fréttamaðurinn hallaði réttu máli, vitandi eða óvitandi. En þetta er engu að síður atriði sem skiptir máli. Eða er það ekki? Hafa fjölmiðlar kannski engan áhuga á hugsanlegu vanhæfi sjálfra sín? Segja fjölmiðlamenn bara að þeir sjálfir vinni af heilindum þrátt fyrir tengsl? Eru það bara allir aðrir sem geta látið aðstöðu hafa áhrif á sig
En auðvitað tapa fjölmiðlar á hlutdrægni til lengri tíma litið; missa áhorfendur, áskrifendur og auglýsendur. Það er að segja allir fjölmiðlar nema Ríkisútvarpið sem heldur sínum tekjum af afnotagjöldum á hverju sem dynur.