H<!––> ugmyndir R-listans um að leikskólar borgarinnar verði í framtíðinni alfarið á framfæri skattgreiðenda hafa ekki mætt mikilli andstöðu. Líklega þorir enginn að vera á móti slíkum hugmyndum þegar prófkjör og kosningabarátta vegna sveitarstjórnarkosninga eru á næsta leiti. Aðdragandi kosninga er jafnan hátíð þeirra sem vilja vera góðmenni á kostnað annarra.
Fréttablaðið ákvað því í gær að leita álits þriggja einstaklinga á förnum vegi á þessu máli svo lesendur blaðsins fengju ef til vill að kynnast fleiri sjónarmiðum en einróma lofi um hugmyndina. Til að upplýsa lesendur um allar hliðar málsins tók blaðamaður Fréttablaðsins handahófsúrtak úr hópi Reykvíkinga – sem eiga það sameiginlegt að vera foreldrar barna á leikskóla í borginni.
Hvaða líkur ætli hafi verið á því svona fyrirfram að blaðinu tækist að finna foreldri leikskólabarns sem teldi það alveg fullnægjandi að borgin niðurgreiði leikskólann „aðeins“ um 70 – 80%, það sé þakkarvert og kannski ekki sanngjarnt að fara fram á mikið meira? Auðvitað voru þær sáralitlar. Blaðið birti því myndir af foreldrunum – með börnin til að auka á áhrifamáttinn – þar sem þeir einum rómi ausa borgina lofi fyrir að ætla að velta öllum kostnaði af rekstri leikskólanna yfir á skattgreiðendur.
Það er auðvitað erfitt að segja nei takk sama og þegið þegar stjórnmálamenn bjóðast til að greiða reikninga fyrir mann með fjármunum annarra. Greiðslan kemur úr einhverjum sameiginlegum sjóði sem menn eru hvort eð er alltaf að nota í einhverja vitleysu. Það hefur nú verið eytt í annað eins, ha.
Það bætir auðvitað ekki úr að R-listinn hefur enga grein gert fyrir því hvað það mun kosta skattgreiðendur að þeir niðurgreiði rekstur leikskólanna að öllu leyti og heldur ekki hvað það kostar að efna kosningaloforð frá því fyrir síðustu og næst síðustu kosningar um leikskólapláss fyrir börn niður að eins árs aldri. Er kostnaðurinn 500 milljónir, 1.000 milljónir eða kannski 2.000 milljónir til viðbótar á ári? Ef síðasta talan er rétt er í raun verið að tala um að leggja 80 þúsund króna viðbótarskatt á hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni.
Hvernig væri að með tilvísun til samráðs-, samræðu- og lýðræðisstjórnmála myndi R-listinn kannski upplýsa borgarbúa um þennan kostnað áður en hann tekur ákvörðun í málinu?