Þ eim sem er mest í mun að Ísland gerist fylki í Evrópusambandinu beita ýmsum röksemdum, svo sem þeirri að samningurinn sem við höfum nú við Evrópusambandið, EES-samningurinn, sé úr sér genginn og dugi ekki mikið lengur. Þó hafa þessir menn ekki enn bent á það hvaða veikleikar séu í samningnum og ekkert bendir til annars en hann lifi býsna góðu lífi. Oft er því einnig haldið fram að ef eða þegar Norðmenn gerist aðilar að Evrópusambandinu þá sé ekkert annað fyrir Íslendinga að gera en fylgja á eftir. Þetta sé einfaldlega óhjákvæmilegt. Í Sunnudagsþættinum á Skjá einum fyrir tæpri viku var Eiríkur Bergmann Einarsson einn af gestum þáttarins, en hann er fyrrverandi starfsmaður Evrópusambandsins, fyrrverandi stjórnarmaður í Evrópusamtökunum hér á landi og núverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar. Eiríkur rifjaði það upp að þegar EES-samningurinn var undirritaður hefðu allir talið að allir nema Ísland væru á leið inn í Evrópusambandið ári síðar. Niðurstaðan varð önnur og Norðmenn eru til að mynda utan Evrópusambandsins og verða enn um hríð að minnsta kosti. En hvort að þeir fara inn eða ekki skiptir engu máli fyrir Ísland eða gildi EES-samningsins eins og þessi orð Eiríks Bergmanns minna á. Það var frá undirritun gert ráð fyrir því að Ísland yrði eitt aðildarríkja samningsins utan Evrópusambandsins.
R óbert Marshall varð hlutlaus á fréttastofu Stöðvar 2 við að segja sig úr Alþýðubandalaginu eftir að hafa gegnt ábyrgðarstöðu í þeim flokki. Þetta töldu hann og aðrir fréttamenn og þeim þótti úrsögnin fullnægjandi sem sést best á því að þeir kusu hann sem formann Blaðamannafélagsins og sætta sig enn við hann sem formann þrátt fyrir ítrekuð glappaskot. Auðun Georg Ólafsson nýráðinn fréttastjóri Ríkisútvarpsins mun aldrei hafa verið félagi í stjórnmálaflokki, hvað þá gegnt ábyrgðarstarfi fyrir flokk. Fréttamenn halda því engu að síður fram að hann sé flokkspólitískur og því óhæfur til að vera fréttastjóri.
Nú veit Vefþjóðviljinn ekkert um stjórnmálaskoðanir hins nýja fréttastjóra, en sumir aðrir telja sig vita um þær þótt þeir fari ekki hátt með. Í fjölmiðlapistli Ólafs Teits Guðnasonar í Viðskiptablaðinu í gær segir frá samtali hans við tvo samfylkingarmenn á Alþingi. Eftir varaþingmanni Samfylkingarinnar hefur Ólafur Teitur: „Hann er ekki meiri framsóknarmaður en ég!“ Sá mun hafa bætt því við að hann hafi lent í rifrildi við Auðun Georg á árum áður vegna þess að Auðun hafi gert sig líklegan til að kjósa Alþýðubandalagið. Þá mun þingmaður Samfylkingarinnar hafa sagt um hinn nýja fréttastjóra: „Gott á frammarana, hann er traustur krati!“
H in ágætu Landssamtök hjartasjúklinga hafa fengið nýtt nafn, Hjartaheill. Í blaði samtakanna segir að ánægja sé með nýja nafnið en að nokkrar spurningar hafi borist um fallbeygingu þess. Á síðu 2 í blaðinu er sérstök umfjöllun um beyginguna og mun hún vera þessi: Hjartaheill í nefnifalli, þolfalli og þágufalli, en Hjartaheillar í eignarfalli. Blaðið heitir Velferð og í undirtitli þess stendur að sjálfsögðu: „Málgagn og fréttabréf Hjartaheilla“.