B ókin Dr. Valtýr, ævisaga Valtýs Guðmundssonar eftir Jón Þ. Þór sagnfræðing, kom út fyrir síðustu jól og er töluverður fengur að henni fyrir áhugamenn um sögu Íslands, einkum þó sögu sjálfstæðisbaráttunnar. Valtýr gegndi veigamiklu hlutverki í þessari baráttu á árunum um aldamótin 1900 og við hann er kennd tiltekin stjórnmálastefna þessa tímabils, valtýskan. Valtýr og þessar helstu staðreyndir um hann eru vel þekktar og þess vegna kemur nokkuð á óvart að á bakhlið bókarkápunnar segir: „Valtýr Guðmundsson er gleymdi maður Íslandssögunnar. Um aldamótin 1900 var hann einna þekktastur allra Íslendinga. Hann tókst á við Hannes Hafstein og tapaði. En engum er meira að þakka að Íslendingar fengu heimastjórn á þeim tíma sem raun bar vitni en einmitt Valtý. Þessari staðreynd hafa landar hans kosið að gleyma.“
„Um þetta verður seint hægt að fullyrða með nokkurri vissu, en þó fer ekki hjá því að barátta Valtýs sýnist til lítils í ljósi stjórnarskiptanna í Danmörku og viðhorfs-breytinganna sem þeim fylgdu.“ |
Bókin er sem betur fer ekki skrifuð í anda þessarar samsæriskenningar, þannig að líklega hafa þessi orð átt að vera auglýsingabrella og til þess hugsuð að ýta undir söluna. Ef til vill hafa þær kenningar sem heyrðust í fyrra um að hlutur Hannesar Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrans, hafi verið gerður of mikill á eitt hundrað ára heimastjórnarafmælinu átt sinn þátt í að höfundur textans á bókarkápunni missteig sig. Þessar kenningar voru hins vegar fremur sérkennilegar. Annars vegar vegna þess að vitaskuld hlaut hlutur fyrsta ráðherrans að vera mikill þegar þessara tímamóta var minnst. Hins vegar vegna þess að aðrir gleymdust ekki. Þannig var sérstakur fyrirlestur höfundar Dr. Valtýs til að mynda hluti af hátíðardagskránni í fyrra, svo ekki var dr. Valtýr með öllu gleymdur.
En nóg um það, þessi furðulega fullyrðing á bókarkápunni spillir ekki fyrir þegar lestur meginmáls bókarinnar hefst og lesandinn fer að kynnast lífshlaupi Valtýs, þrengingum hans á yngri árum, því hvernig hann braust til mennta, ráðningu hans sem prófessors við Kaupmannahafnarháskóla, framboði hans til Alþingis, baráttu hans fyrir sérstökum ráðherra Íslands auk annarrar stjórnmálabaráttu og útgáfu tímaritsins Eimreiðarinnar um áratugaskeið svo að nokkuð sé nefnt. Ekki fer fram hjá neinum sem kynnir sér ævi og störf Valtýs Guðmundssonar að þar fór mikill dugnaðarforkur sem skrifaði margt um íslenska menningu, sögu, bókmenntir og tungu í tengslum við störf sín í Kaupmannahöfn og útgáfu Eimreiðarinnar, auk þess sem hann var óþreytandi í baráttu sinni fyrir valtýskunni svo kölluðu, en hún gekk í skemmstu máli út á að Ísland fengi sérstakan ráðgjafa, eða ráðherra eins og það starf kallast nú. Skyldi hann ekki hafa önnur störf með höndum og bera ábyrgð gagnvart Alþingi en sitja í Kaupmannahöfn. Síðast nefnda atriðið, búseta ráðherrans, fór mjög fyrir brjóstið á mörgum hér á landi sem töldu þetta svik við fullveldisbaráttuna og að gera ætti kröfu um heimastjórn. Valtýr lagði frumvarp sitt um valtýskuna ítrekað fyrir Alþingi og náði það loks fram að ganga, en þá var það orðið of seint, þar sem stjórnarskipti höfðu orðið í Kaupmannahöfn og ný stjórn var tilbúin að ganga lengra en sú sem áður hafði setið. Barátta Valtýs var því í raun unnin fyrir gýg. Hann hafði ekki talið raunhæft að ganga lengra en þetta, og taldi raunar hæpið að Íslendingar gætu á þessum tíma verið sjálfstæð þjóð enda bæði fátæk og fámenn, en skömmu eftir að frumvarp hans var samþykkt og líklegt mátti telja að hann yrði ráðherra með búsetu í Kaupmannahöfn, féllust dönsk stjórnvöld á að Ísland fengi sérstakan ráðherra sem yrði íslenskur og búsettur hér á landi. Landið var vitaskuld ekki orðið sjálfstætt eða fullvalda ríki, en þetta skref var mun stærra en Valtýr hafði reiknað með að Íslendingum myndi standa til boða næstu árin.
Auk þessarar baráttu Valtýs hafði hann einnig mikinn áhuga á ýmsu sem hann taldi horfa til framfara fyrir landið og átti töluverðan þátt í þróun nokkurra stórra mála, svo sem lagningu síma til landsins og stofnun Íslandsbanka hins eldri. Um baráttumál Valtýs af þessu tagi er nokkuð fjallað í bók Jóns Þ. Þórs, en langmest rúm fer þó í frásagnir af valtýskunni og þeirri baráttu sem henni tengdist. Þetta er ekki að undra, því að höfundurinn hóf að vinna að gerð bóka um þessi mál fyrir rúmum þremur áratugum. Bók með bréfaskriftum þeirra Valtýs og Björns Jónssonar, Launráð og landsfeður, kom út árið 1974. Björn Jónsson var atkvæðamikill í stjórnmálum og atvinnulífi á þessum árum og tók við sem ráðherra af Hannesi Hafstein árið 1909. Önnur bók sem Jón Þ. Þór tók saman um svipað efni voru bréfaskriftir milli Valtýs og Jóhannesar Jóhannessonar, mágs Valtýs, sem meðal annars var sýslumaður á Seyðisfirði, bæjarfógeti í Reykjavík og þingmaður um árabil. Sú bók, Aldamót og endurreisn, kom út árið 1999 og fyllir að ýmsu leyti vel inn í þær eyður sem finna má í frásögninni í ævisögunni.
Í bókinni eru nokkrar myndasíður og þar er meðal annars að finna mynd frá sumarhúsi Valtýs í Ordrup árið 1916. Efst eru Valtýr og ráðskona hans, þá vinur hans Stefán Stefánsson ásamt Kristínu Jónsdóttur tengdadóttur sinni, eiginkonu Valtýs Stefánssonar ritstjóra Morgunblaðsins. Fremstar standa dóttir Stefáns, Hulda, og Anna Jóhannesdóttir. Anna var alnafna og bróðurdóttir eiginkonu Valtýs, sem lést langt um aldur fram. |
Eitt af því sem helst má finna að bókinni Dr. Valtýr, sem annars er ágætlega fróðleg og lipurlega skrifuð bók, er hve mikil áhersla er lögð á stóra málið í lífshlaupi Valtýs og lítið á smærri mál, en þó einkum persónuleg mál. Lesandinn kynnist manninum Valtý Guðmundssyni ekki mjög vel og er það vafalítið meðal annars því um að kenna að Valtýr virðist hafa verið fámáll um persónuleg málefni í einkabréfum sínum. Ekki er víst að allir álíti þetta mikinn galla á bókinni, en þeim sem vilja kynnast persónu Valtýs nánar má þó benda á bókina Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, eftir Jakob F. Ásgeirsson, sem kom út árið 2003. Valtýr Stefánsson var sonur náins vinar Valtýs Guðmundssonar og var skírður í höfuðið á honum. Hann bjó um hríð í Kaupmannahöfn, meðal annars hjá nafna sínum, og í ævisögu hans má hér og þar sjá glitta með öðrum og jafnvel nánari hætti í persónuleika Valtýs Guðmundssonar en í bókinni Dr. Valtýr.
Hér að ofan var þess getið að eins og mál þróuðust í Danmörku hafi barátta dr. Valtýs í raun verið unnin fyrir gýg. Hægt er að halda því fram að þetta sé of mikil einföldun og jafnvel ósanngjarnt gagnvart Valtý. Því má halda fram, eins og gert er í bókinni Dr. Valtýr, að Valtýr hafi þokað málum áleiðis og átt drjúgan þátt í því að Íslendingar fengu aukið sjálfsforræði upp úr aldamótum en ekki einhvern tímann síðar. Um þetta verður seint hægt að fullyrða með nokkurri vissu, en þó fer ekki hjá því að barátta Valtýs sýnist til lítils í ljósi stjórnarskiptanna í Danmörku og viðhorfsbreytinganna sem þeim fylgdu. Með þessu er þó alls ekki verið að kasta rýrð á baráttu Valtýs Guðmundssonar. Hann gat ekki vitað hvernig mál myndu þróast í Kaupmannahöfn og líklegt má telja að ef ekki hefði komið til stjórnarskiptanna í Kaupmannahöfn þá hefði barátta Valtýs skilað Íslendingum sérstökum ráðherra og meira sjálfsforræði fyrr en ella hefði orðið. Hitt er annað mál, og um það er ekki heldur hægt að fullyrða, að ef til vill hefði þjóðin þá setið lengur uppi með stjórn frá Kaupmannahöfn en ef harðari afstaða hefði allan tímann verið ofan á hér á landi og stjórnin í Kaupmannahöfn verið óbreytt. Vangaveltur af þessu tagi hafa hins vegar ekki mikla þýðingu þó að þær geti verið ágæt dægradvöl. Staðreyndin er sú að heimastjórn varð ofan á upp úr aldamótum. Í framhaldi af því fjaraði tiltölulega hratt undan stjórnmálabaráttu Valtýs Guðmundssonar. Segja má að með heimastjórninni hafi hlutverki hans í íslenskum stjórnmálum verið lokið. Helsta baráttumál hans hafði enga þýðingu lengur. Stjórnin var komin heim en hann var í Kaupmannahöfn og datt fljótlega úr tengslum við stjórnmálin hér á landi, ekki síst þar sem hann hafði misst það forskot á aðra þingmenn að vera í návígi við ráðgjafa Íslandsmála. Segja má að þrátt fyrir mikinn dugnað og baráttuþrek, hafi það verið örlögin sem höguðu því þannig, að Valtýr Guðmundsson náði aldrei þeirri stöðu sem hann barðist svo lengi fyrir. Í stjórnmálasögu Íslands verður hans þess vegna frekar minnst fyrir baráttuna sjálfa en þann árangur sem barátta hans hefði getað skilað eða kann að hafa skilað.