Í
Er það bara vitleysa sem „sumir sagnfræðingar“ hafa staðhæft, að Stalín hafi staðið fyrir fjöldamorðum í Sovétríkjunum? |
fréttum Ríkisútvarpsins er greint frá því að Jósef Stalín fyrrum harðstjóri Sovétríkjanna sé samkvæmt skoðanakönnun í ágætum metum meðal margra Rússa og að talsverður hluti þeirra hefði ekkert á móti því að fá slíkan mann aftur í Kreml. Þeim sem hafa kynnt sér verk Stalíns og annarra harðstjóra Sovétríkjanna þykja þessar fréttir vafalítið sérkennilegar, en þær eiga sér líklega ýmsar skýringar. Ein gæti verið að í Rússlandi og öðrum ríkjum sem heyrðu undir Sovétríkin er ódæðisverkum Stalíns og félaga ekki haldið til haga með sama hætti og ódæðisverka Adolfs Hitlers er minnst í Þýskalandi. Þess vegna má efast um að Rússar hafi nægilega góða þekkingu á þeim fjöldamorðum og öðrum hörmungum sem Stalín leiddi yfir Sovétríkin.
Önnur ástæða gæti verið sú að oft er reynt að gera minna úr morðum og misþyrmingum sem hafa átt sér stað í nafni kommúnismans en í nafni hinnar alræðisstefnunnar sem óð uppi á tuttugustu öldinni, þjóðernisjafnaðarstefnunnar, fasismans eða nasismans. Fáir leyfa sér nú orðið að efast um fjöldamorð Hitlers og varla er hægt að segja að deilt sé um að milljónir hafi verið myrtar í nafni þess draumaríkis sem hann vildi koma á. Í vikunni var 65 ára gömlum manni, sem fæddur er í Þýskalandi, vísað þangað frá Kanada fyrir að hafa haldið því fram að helför nasista hafi aldrei átt sér stað. Frá þessu var sagt á vef Morgunblaðsins og þar kom til að mynda ekkert fram sem benti til þess að blaðamaðurinn efaðist um hörmungar helfararinnar. Í fyrrnefndri frétt RÚV af vinsældum Stalíns í Rússlandi kvað hins vegar við annan tón og fréttamaður RÚV vill greinilega fara varlegar í að fullyrða nokkuð um illvirki Stalíns en blaðamaður mbl.is um illvirki Hitlers.
Í frétt RÚV segir: „Sumir sagnfræðingar staðhæfa að milljón manna hafi verið líflátin í hreinsunum Stalíns á fjórða áratugi aldarinnar sem leið, milljónir hafi látist þegar samyrkjubúum var komið á fót og að minnsta kosti hálf fimmta milljón veslast upp í fanga- og þrælkunarbúðum einræðisherrans, Gúlaginu.“ „Sumir sagnfræðingar“ staðhæfa þetta sem sagt. Aðrir staðhæfa þá vafalítið eitthvað allt annað. Fjöldamorð Stalíns eru þá ef til vill bara eitthvað sem sagnfræðingar deila um en ekki nokkuð sem fréttastofa RÚV treystir sér til að fullyrða að hafi átt sér stað. Er að undra þótt almenningur víða um heim eigi erfitt með að átta sig á illvirkjum Stalíns og annarra leiðtoga kommúnista í gegnum tíðina, ef fréttastofur segja frá þeim í viðtengingarhætti og gæta þess vandlega að fullyrða ekkert sjálfar um fjöldamorðin. Ríkisútvarpinu þykir þetta ef til vill vönduð fréttamennska og sér ekki ástæðu til að fullyrða um fleira en það treystir sér til að standa við. En það er vissulega áhyggjuefni ef fréttastofa RÚV treystir sér ekki til að fullyrða að Stalín hafi látið drepa milljónir manna. Vonandi er þetta þó ekki til marks um að fréttastofan hafi almennt tekið þann pól í hæðina að efast um helstu staðreyndir í sögu tuttugustu aldarinnar og muni næst þegar hún minnist á Hitler láta þess getið um leið að „sumir sagnfræðingar staðhæfi“ hitt og þetta um fjöldamorð Hitlers.