Ætli þeir séu margir sem þykir sem stjórnvöld hafi á undanförnum árum vanrækt Austurland og uppbyggingu þar? Sennilega er „sveitarstjórn Austurbyggðar“ þó í þeim hópi, en aðili með þessu nafni hefur sent frá sér ályktun, þar sem það er tekið fram að úr því að stjórnvöld hafi ekki sett „flýtifé til að flýta endanlegri opnun Fáskrúðsfjarðarganga“, þá sé þess „krafist“ að vegurinn milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar verði endurbættur „nú þegar“. Það er með öðrum orðum ekki nóg að ríkið sé á fullu að bora göng milli bæjanna tveggja. Fyrst menn setja ekki „flýtifé“ í framkvæmdina og bora líka á nóttunni, þá krefst sveitarstjórn Austurbyggðar þess að gamli vegurinn verði endurbættur nú þegar. Sennilega þykir þessum ágætu mönnum að Reyðarfjörður hafi orðið svo útundan upp á síðkastið að þetta sé nú það minnsta sem hægt sé að gera fyrir menn þar.
Nú má auðvitað vera að vegurinn milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar myndi þola endurbætur. Raunar hefur hann töluvert verið endurbættur á síðustu árum ef Vefþjóðviljinn man rétt, en sjálfsagt mætti gera hann betri. Krafa þeirra í Austurbyggð er vafalaust ekki versta krafan sem beint er að skattgreiðendum. En það er annað mál. Hún er ágætis áminning fyrir stjórnmálamenn um að þrýstihópum mun aldrei þykja nóg fyrir sig gert. Ef stjórnmálamenn fara til dæmis í að reyna að knýja það í gegn að byggt verði tónlistarhús fyrir gríðarlegt opinbert fé, þá munu tónlistarmenn ekki slaka á og jafnvel þakka fyrir. Nei, þá upphefst ógurleg deila um það hvar óperan á að vera. Svo mun þurfa að reka húsið fyrir stórfé. „Til hvers er verið að byggja húsið ef það er svo ekki nýtt af reisn?“, verður spurt. Ef byggð er risastór bókhlaða og háskólastúdentum meira að segja fengin þar mikil lesaðstaða, þá munu þeir auðvitað ekki þakka fyrir hana heldur blána af reiði yfir því að hún sé ekki opin fram á nótt. Ef íþróttafélagi er fengin rándýr lóð og þar lagður völlur, þá er skammt í að krafist verði stúku. Og æfingavalla. Og afreksstyrkja. Fyrir nú utan „þjóðarleikvanginn“ sem einhver ætti að auglýsa í Jyllandsposten að er ekki í nafni íslensku þjóðarinnar.
Meira að segja Fischer. Það var ekki nóg að bjóða honum hingað. Nú vill hann fá ríkisborgararétt.