Helgarsprokið 6. febrúar 2005

37. tbl. 9. árg.

Síðastliðinn sunnudag sýndi Ríkissjónvarpið myndina Lilja 4ever eftir Lukas Moodysson. Þetta er að sönnu afar áhrifamikil mynd, svo áhrifamikil reyndar að ekki er hægt að ímynda sér annað en að hún hreyfi við hverri ærlegri manneskju. Og áhrifin eru fyrst og fremst reiði og sorg, sorg yfir ömurlegum örlögum Lilju og reiði í garð þeirra sem svíkja hana, reiði yfir því hversu ofbeldið gegn henni viðgengst nær viðnámslaust þegar hún er komin til Svíþjóðar og síðast en ekki síst reiði yfir því að horfa upp á þetta án þess að fá rönd við reist. Horfa upp á að dauðinn verði 16 ára stúlku illskárri kostur en það ömurlega líf sem henni er búið og að geta í raun ekki annað en samsinnt því, yfir því er reiðin kannski mest.

„…ef í myndinni eru einhver sérstök skilaboð til þingmanna þá eru þau ekki að banna vændi, ekki að banna nektardansstaði, ekki að banna austurevrópskum konum að ferðast til vesturlanda því ef marka má myndina þá hefði ekkert af þessu dugað til að bjarga Lilju.“

Það er sannarlega hægt að mæla með þessari mynd, það er að öllu leyti svo vel að henni staðið að hún nær að lýsa því sem áreiðanlega hefði virst ótrúlegt ef það hefði ekki veri sett fram með svo trúverðugum hætti sem raunin ber vitni. Enda hafa margir mælt með þessari mynd eins og Vefþjóðviljinn gerir líka, hér og nú. Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður gekk öllu lengra, þegar myndin var sýnd hér í kvikmyndahúsi fyrir nokkrum misserum og sagði að skylda ætti alla þingmenn til að sjá myndina.

En hvers vegna þingmenn? Ef horft er framhjá þessu tali um að skylda þingmenn til að fara í bíó, á þessi mynd þá meira erindi til þingmanna en annarra manna? Og eins skrýtið og það nú er þá geta Kolbrún Halldórsdóttir og Vefþjóðviljinn svarað þessari spurningu á sama veg, játandi. Í öllu falli er óhætt að segja að myndin eigi ekki síður erindi til þingmanna en annarra. Spurningin er bara, hvaða erindi.

Í myndinni er Lilja blekkt til að flytja frá heimili sínu einhvers staðar í fyrrum Sovétríkjunum – ef heimili skyldi kalla – til Svíþjóðar og áhorfendur eru í raun líka blekktir því þegar þar er komið sögu er erfitt að ímynda sér að aðstæður hennar geti versnað. Þær eiga samt eftir að versna svo um munar því við komuna til Svíþjóðar er hún hneppt í ánauð, misþyrmt og þvinguð til að stunda vændi.

Sagan af Danguole Rasalaite, 16 ára gamalli stúlku frá Litháen, varð Lukasi Moodysson kveikjan að myndinni um Lilju. Danguole kom til Svíþjóðar um haustið 1999, í von um betra líf. Í stað þess var hún læst inni í íbúð í Arlöv, skammt fyrir utan Malmö og neydd til að stunda vændi. Örfáum mánuðum seinna eða í janúar árið 2000, fyrirfór hún sér með því að stökkva fram af brú yfir veg í miðborg Malmö.

Með mynd sinni hefur Lukasi tekist að vekja fólk til umhugsunar um þau örlög sem bíða Liljum þessa heims og það er einmitt erindið sem þessi mynd á til fólks, þingmanna jafnt sem annarra, að vekja til umhugsunar og ekki síst að varpa ljósi á Liljurnar, sýna að þær séu til. Ef enginn veit af þeim er engin von til þess að þeim verði hjálpað.

En ef í myndinni eru einhver sérstök skilaboð til þingmanna þá eru þau ekki að banna vændi, ekki að banna nektardansstaði, ekki að banna austurevrópskum konum að ferðast til vesturlanda því ef marka má myndina þá hefði ekkert af þessu dugað til að bjarga Lilju. Það er til dæmis vandséð hvernig nýleg lög í Svíþjóð um bann við kaupum á vændi hefðu komið henni til hjálpar. Þeim mun fleiri lög sem sett eru gegn vændi þeim mun lengra er vændi ýtt í áttina að skipulögðum glæpamönnum. Ef vændi er hinsvegar leyft með lögum þá er það síður á færi þeirra sem starfa utan ramma laganna.

Það eru engar líkur til þess að vændi verði nokkurn tíma stöðvað með lögum og heldur engin ástæða til ef frjálsir og fullveðja einstaklingar eiga í hlut. Það eru hinsvegar verulegar líkur til þess að hægt sé að hafa á það áhrif með lögum hvort fólk sé hneppt í ánauð til að stunda vændi eða ekki og það er best gert með því að vændi sé tryggilega innan ramma laganna.

Í myndinni Lilja 4ever er sýnt hvar Lilja byrjar að stunda vændi til að sjá fyrir sér áður en hún er blekkt til Svíþjóðarfararinnar. Það er að sönnu ömurlegt líf sem þar er lýst en þrátt fyrir allan ömurleikann þá bliknar hann í samanburði við það víti sem tekur við í Malmö. Áður en hún fer til Svíþjóðar er hún frjáls og ákveður sjálf hvort, hvenær og hverjum hún selur þjónustu sína. Eftir komuna til Svíþjóðar ræður hún engu lengur. Er þetta ekki í hnotskurn munurinn á því leyfa vændi eða banna það?