Laugardagur 5. febrúar 2005

36. tbl. 9. árg.

H elmingi fleiri nefna Ingibjörgu Sólrúnu“, sagði í uppsláttarfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins í fyrradag. Skilaboðin voru skýr: Stuðningur við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur er mun meiri en við Össur Skarphéðinsson í þeim slag sem nú stendur um formannssæti Samfylkingarinnar. En þegar lesið var lengra, sem sumir gera alls ekki á leiðinni frá bréfalúgunni í ruslafötuna, kom í ljós að það var bara alls ekki svo samkvæmt könnuninni að stuðningur væri meiri við annan frambjóðandann en hinn. Spurningin sem notuð var til uppsláttar á forsíðunni er raunar nýjung í skoðanakönnunum, því að spurt var: Hver telur þú að verði formaður Samfylkingarinnar að loknu flokksþingi? Það sem hingað til hefur þótt eðlilegt að spyrja um þegar verið er að kanna stuðning við einstaka frambjóðendur eða flokka er hins vegar „hvern styður þú“, „hvern myndirðu kjósa“eða eitthvað þvíumlíkt. Skoðanakannanir hafa ekki gengið út á það hingað til að biðja fólk um að spá fyrir um hvernig það telji að tilteknar kosningar fari.

Nú hljóta margir að velta því fyrir sér hvort að Fréttablaðið spurði virkilega bara þessarar einkennilegu spurningar um formannsslaginn í Samfylkingunni eða hvort að einnig var spurt með hefðbundnum hætti um stuðning við frambjóðendur. Ekki veit Vefþjóðviljinn um það hvort að Fréttablaðið lúrir á fleiri svörum en birt hafa verið, en það er svo sem ekki ólíklegt að spunameistarar Fréttablaðsins hafi áttað sig á því fyrirfram að sú spurning sem þeir birtu kæmi betur út fyrir Ingibjörgu Sólrúnu en Össur og þess vegna hafi hún orðið ofan á. Það hefur svo sem varla farið leynt að blaðið virðist mjög áhugasamt um að koma Ingibjörgu Sólrúnu í formannsstólinn. Eitt dæmi um það birtist sama dag og könnunin undarlega. Í leiðara blaðsins var ritstjóri þess strax farinn að ræða það hvort að Össur myndi „berjast áfram eða hreinlega afhenda Ingibjörgu Sólrúnu formannsstólinn.“ Könnun, sem ekki sagði neitt um stuðning þeirra sem spurðir voru við frambjóðendur, var þannig notuð til að hefja umræður um það að Össur þyrfti að íhuga að hætta baráttulaust.

Og Fréttablaðið fann líka prófessor í stjórnmálafræði sem blaðið segir í forsíðufréttinni um könnunina furðulegu, að hafi sagt að „hann telji Össur enga möguleika eiga á sigri“. Bara alls enga möguleika, takk fyrir, að mati hins hlutlausa fræðimanns Fréttablaðsins. Samkvæmt spunavefnum er óhugsandi að formaður Samfylkingarinnar, nokkrum mánuðum fyrir kosningar um formannsstólinn, ætti minni möguleika á sigri. Ef Davíð Oddsson eða Halldór Ásgrímsson gengju í Samfylkinguna á næstunni og byðu sig fram til formanns, ættu þeir samkvæmt þessu ekki minni möguleika en Össur á stuðningi flokksbundinna samfylkingarmanna.