Ég hef aldrei í pólitík farið áfram í gegnum flokksstofnanir, það er ekki það sem ég hef treyst á í pólitík. |
– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi í viðtali við fréttamann Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. |
Hefur aldrei farið áfram í pólitík gegnum flokksstofnanir ef litið er framhjá síðasta áratug. |
Flokksstofnun stillti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á lista Samfylkingarinnar fyrir þingkosningar vorið 2003. Hinn almenni Samfylkingamaður kom heldur hvergi að því að gera hana að forsætisráðherraefni flokksins. Flokksstofnanir vinstri flokkanna stilltu Ingibjörgu Sólrúnu á framboðslista R-listans vorið 2002. Já og líka vorið 1998. Að ógleymdu vorinu 1994. Það var að vísu einhvers konar prófkjör hjá Kvennalistanum fyrir þingkosningar 1991 þegar Ingibjörg komst á þing fyrir hönd listans. En þegar hún komst í borgarstjórn vorið 1982 og aftur 1986?
Ef að eitt fremur öðru einkennir pólitískan feril Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er það að hún hefur sjaldnast verið valin á framboðslista af öðrum en flokksstofnunum. Hún er réttnefndur stofnanamatur íslenskra stjórnmála. Engu að síður kýs hún að halda því fram í fréttaviðtali að hún hafi aldrei farið áfram í pólitík í gegnum flokksstofnanir. Aldrei!
Og nú hefur sú hugmynd skotið upp kollinum innan Samfylkingarinnar að menn sitji ekki lengur en átta ár í pólitískum embættum. Hvernig ætli Ingibjörgu Sólrúnu lítist á það? Fréttamaðurinn spurði hana að því í gærkvöldi og ekki stóð á svari. „Ég er almennt þeirrar þeirrar skoðunar að fólk eigi ekki að sitja mikið lengur en átta ár í embættum sem fylgir pólitískt vald.“
Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir án hiks. Hún hefur nú setið sem borgarfulltrúi í Reykjavík í að verða sautján ár. Fyrir tveimur árum hafði hún aðeins verið borgarfulltrúi í fimmtán ár og borgarstjóri í níu ár. Þá stillti flokkstofnun Samfylkingarinnar henni á framboðslista flokksins til Alþingis. Við það urðu samstarfsmenn hennar í borgarstjórn nokkuð hvumsa því einungis ári áður hafði hún hún látið svo um mælt: „Já ég fullyrði algerlega að ég er ekki að fara í þingframboð að ári. Það er alveg ljóst.“ Félagarnir vildu hana því burt úr borgarstjórastólnum fyrir að ganga bak orða sinna en Ingibjörg vildi sitja sem fastast sem borgarstjóri að minnsta kosti í 12 ár. Nú sér hún að það hefðu líklega verið mistök og telur að menn eigi ekki að sitja mikið lengur en átta ár í pólitískum embættum.
Ingibjörg er þegar búin að sitja í tæp fjögur ár á þingi, fyrst 1991 til 1994 og síðan sem afleysingamaður frá 2003. Ef henni tekst að hrinda Össuri Skarphéðinssyni út úr stjórnmálum á flokksþingi Samfylkingarinnar í vor og hirða af honum bæði formennskuna og þingsætið þá verður hún búin að sitja á þingi í tæp sex ár þegar kemur að næstu kosningum. Ef flokksstofnun stillir henni upp á framboðslista Samfylkingarinnar vorið 2007 verður það þá aðeins til tveggja ára?