Fimmtudagur 3. febrúar 2005

34. tbl. 9. árg.
Hversu ferskt og gott sem lambið er þá fylgir því ávallt gamla óbragðið af stuðningnum sem sauðfjárbændur fá í gegnum skattpeningana okkar allra. Hvenær ætla menn að hætta þessari endemis vitleysu og láta neytendur um að ákveða hvað þeir vilji borga í reynd fyrir þjóðlega framleiðslu?
Víkverji Morgunblaðsins, 31. janúar 2005.

E

Víkverji er harður í landbúnaðarmálunum.

kki veit Vefþjóðviljinn mikið um stjórnmálaskoðanir þessa Víkverja. Blaðið getur því ekki útilokað fyrirfram að þarna skrifi sannfærður anarkisti, harður, ósáttfús og erfiður í umgengni. Það er þó heldur ólíklegt, sérstaklega ef miðað er við annað það sem lesa má eftir blaðamenn Morgunblaðsins. Ef hann er í skoðunum svipaður dæmigerðum blaðamanni þess ágæta blaðs, þá er hann ekki almennur andstæðingur opinberra útgjalda, þó skoðanir hans á landbúnaðarmálum séu eins og hann lýsir. En þetta má auðvitað segja um marga, og er í raun en helsta skýring þess að opinber útgjöld aukast og aukast. Þeir eru nefnilega of fáir sem eru í grundvallaratriðum á móti opinberri eyðslu og krefjast góðra og gildra raka fyrir hverri nýrri útgjaldahugmynd. Margir hafa hins vegar svipaða afstöðu og víkverji mánudagsins lýsir, en bara til einhvers ákveðins sviðs. Margir eru æfir yfir opinberum stuðningi við bændur og búalið. Aðrir telja framlög til íþróttamála allt of mikil. Hinir þriðju telja frekjuna í menningaráhugamönnum komna út fyrir öll þolanleg mörk. Eða kröfugerðir þeirra sem vilja endalausar vegaframkvæmdir í sinni heimabyggð. Enn aðrir styðja svo að því er virðist öll hugsanleg ríkisútgjöld nema laun og eftirlaun þingmanna. Allt of fáir, að mati Vefþjóðviljans, taka hins vegar sömu meginafstöðu til allra þessara og annarra mála.

Það má með góðum rökum spyrja eins og víkverjinn, hvenær mega neytendur sjálfir ráða því hvað þeir borga í reynd fyrir þjóðlega framleiðslu? En sömu spurningar má með svipuðum rökum og hreint ekki síðri spyrja á öðrum sviðum. Hvenær á fólk sjálft að fá að ráða hvað það leggur stóran hluta tekna sinna til að byggja stúkur við íþróttavelli, halda tónleika, grafa göng, flytja út popptónlist og kenna skák? Vefþjóðviljinn er ekki andvígur niðurgreiðslum til landbúnaðar vegna þess að hann telji íslenskan landbúnað slæman, eða afurðirnar ekki gómsætar. Blaðið er einfaldlega andvígt opinberum styrkjum af þeirri grundvallarástæðu að óeðlilegt sé að taka eigur Péturs af honum með valdi til þess að kosta starfsemi Páls, ef svo mætti segja. Vefþjóðviljinn er fjarri því að vera andvígur menningu, þó blaðið vilji ekki neyða neinn til að niðurgreiða menningarneyslu annars. Ekki fremur en aðra neyslu. Hvernig eiga menn líka, ef út í það er hugsað, að vera harðir á móti til dæmis niðurgreiðslu á lambakjöti en hlynntir stórfelldum niðurgreiðslum á leikhúsmiðum? Eiga þeir bara að segja að jú það hátti sko þannig til, að persónulega þyki þeim kjúklingur bara ekkert síðri en þetta endalausa lamb – en hins vegar þyki þeim svo dæmalaust gaman í leikhúsi að þeir geti bara ekki án þess verið? Þeir vilji með öðrum orðum sjálfir fá að neita því að styrkja það sem þeir ætla sér ekki að nota, en vilji hins vegar ekki bjóða samskattgreiðendum sínum sömu kjör. En sá sem telur réttlætanlegt að konan í næsta húsi verði skattlögð svo hann sjálfur komist ódýrar á tónleika á föstudagskvöldið og á völlinn á laugardaginn, með hvaða sanngirni ætlar hann að biðjast undan því að niðurgreiða lambalærið hennar á sunnudaginn?