Ílaugardagsblað DV skrifaði hinn vinsæli sjónvarpsmaður, Egill Helgason, grein um eitt og annað. Einn kafli greinarinnar hófst á spurningunni „Komu vinstri menn með frelsið?“ og virtist Egill telja að nokkuð kynni að vera til í því. Egill nefndi dæmi og sagði meðal annars: „Opnunartími skemmtistaða var lengdur til klukkan þrjú þegar Steingrímur Hermannsson var dómsmálaráðherra í stjórn Gunnars Thoroddsen. Bjórinn var leyfður 1989, þá sat vinstri stjórn Steingríms. Hún beitti sér kannski ekki fyrir þessu – en stöðvaði málið ekki heldur.“
Auðvitað má deila um margt og hafa ýmsar skoðanir á gangi málanna. En svo er annað sem til lítils er að deila um. Menn geta deilt um afgreiðslutíma skemmtistaða og hverjir hafi lagt mest af mörkum til að rýmka hann, en það er hins vegar til lítils að ætla að deila um það hver var dómsmálaráðherra í stjórn Gunnars Thoroddsens. Það var ekki framsóknarmaðurinn Steingrímur Hermannsson heldur sjálfstæðismaðurinn Friðjón Þórðarson. Og hið sama má segja um lögin sem afnámu bjórbannið. Menn geta haft sínar skoðanir á þeim, en bjórfrumvarpið svonefnda varð að lögum 10. maí 1988. Þá sat ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar en ekki Steingríms Hermannssonar. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar gat ekki „stöðvað málið“ enda var það orðið að lögum. Lögin sem samþykkt voru vorið 1988 leyfðu bjórinn frá og með 1. mars 1989. En málið var úr höndum alþingis og ríkisstjórnar í maí árið 1988.
Vefþjóðviljanum dettur ekki í hug að Egill Helgason hafi skrifað þetta eða annað í grein sinni gegn betri vitund. Hann hefur vafalaust minnt þetta og ekki haft tök á að skoða þetta frekar. En sú hugmynd að vinstri menn komi með frelsið, er einfaldlega hreinn misskilningur. Helstu forystumenn vinstrimanna eru almennt hörðustu andstæðingar þess að losað sé um hömlur hins opinbera á daglegu lífi borgaranna, hvort sem reynt er að afnema bönn eða þá auka ráðstöfunartekjur með lækkun skatta. „Ég hef ævinlega reynt að leggjast gegn því að menn fjölluðu um þetta mál í svarthvítum litum, hlypu ofan í skotgrafirnar og væru annaðhvort 100% með eða 100% á móti….Fyrir mér hefur þetta mál tvær hliðar, eins og öll önnur, aðra slæma og hina sem ekki er eins slæm“, sagði Steingrímur J. Sigfússon á alþingi þegar greidd voru atkvæði um bjórfrumvarpið vorið 1988, og bætti við: „Ég hef til viðbótar pólitískar ástæður fyrir því að ég vil ekki standa að breytingum í áfengismálum né annars staðar sem gera fólkið óvirkara og sljórra gagnvart umhverfi sínu. Það tel ég að stóraukin neysla bjórs, jafnvel þó að eitthvað dragi úr neyslu annarra áfengistegunda, mundi gera.“. – „Verði bjórfrumvarpið samþykkt erum við Íslendingar að gera öðruvísi en allar aðrar þjóðir sem vilja færa sig nær betra mannlífi, betra umhverfi“, sagði Karl Steinar Guðnason, þingmaður Alþýðuflokksins þegar hann gerði grein fyrir sínu atkvæði. „Ég er móðir tveggja unglinga og segi þess vegna nei“, sagði Margrét Frímannsdóttir.
Sumir halda að vinstri menn hafi í borgarstjórn verið riddarar frelsisins, en það er nú ekki mikið betri misskilningur. „Ástæðan fyrir því að ég hafnaði því, er að ég er ekki sannfærð um að þetta sé spor í rétta átt að taka þessa reglugerð upp og rýmka verslunartímann“, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í borgarstjórn Reykjavíkur, þegar hún sat þar í minnihluta og verið var að rýmka leyfðan afgreiðslutíma verslana. Og ári síðar, þegar afgreiðslutíminn var enn rýmkaður, var Ingibjörg Sólrún sama sinnis: „Ég ætla þá að vera kannski þriðja röddin í þessum neytendakór, en ætla ekki að syngja það sama vers og þeir, því ég ætla núna, sem í þau tvö skipti á þeim fimm árum sem ég hef setið hér í borgarstjórn áður að leggjast gegn þessari rýmkun.“ Og Ingibjörgu Sólrúnu þótti sem óþarfi væri að rýmka reglunar, fólk þyrfti bara að skipuleggja sig betur: „Ég verð að segja það að mér finnst að þessi tími hann ætti að duga bæði kaupmönnum og neytendum til þess að gera þessi viðskipti sem þarna fara fram. Það er með innkaup eins og svo margt annað í lífi manns, að maður verður bara að skipuleggja þau og það er alveg hægt að skipuleggja þau þannig að þau falli innan þessara 70 klukkustunda.“ Og þannig mætti áfram telja. Vinstrimenn voru einfaldlega ekki hlynntir frjálsum viðskiptum, þó þeir hafi eftir því sem tíminn líður látið meira og meira undan í von um fylgi. Í borgarstjórn Reykjavíkur talaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hreinlega gegn samkeppni. „Nú menn talandi um einkavæðingu, þá er hún mjög lofuð og prísuð vegna þess að samkeppnin sé svo góð, það sé í eðli sínu gott að standa í samkeppni. Ég held að samkeppni sé í eðli sínu dýr og almennt til leiðinda.“ Nú eru viðhorf eins og þessi aldrei látin heyrast. En Samfylkingarmenn styðja aldrei skattalækkanir eða einkavæðingu þegar til á að taka. Bara þess á milli. Og þegar leikritin hafa verið leikin nógu lengi og þá taka menn að halda að það séu vinstri menn sem koma með frelsið. Sennilega þá eins og þjófar á nóttu, því fá merki skilja þeir eftir um ferðir sínar í þágu frelsisins.