Ý msir pólitískir spekúlantar af vinstri væng stjórnmálanna reyna nú eftir áramót að sannfæra fólk um að það séu mikil tíðindi að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi ritað áramótagrein í Morgunblaðið á gamlársdag þrátt fyrir að vera ekki forsætisráðherra. Þeir láta í það skína að þetta sé til marks um stefnubreytingu blaðsins. Einn starfsmaður Framsóknarflokksins fór til að mynda mikinn af þessu tilefni í gær og ákveðnir fjölmiðlar tóku málflutning hans upp athugasemdalaust og – eins og svo oft áður því miður – án þess að kanna málið nánar. Þeir sem komnir eru nokkuð á legg og hafa lesið dagblöð lengur en í rúman áratug eða svo, hefðu þó hæglega átt að geta rifjað það upp að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur áður ritað grein í miðopnu Morgunblaðsins við áramót þó að hann hafi þá ekki verið forsætisráðherra. Raunar er það svo að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur áratugum saman – að minnsta kosti frá því fyrir miðja 20. öldina – ritað slíka grein í Morgunblaðið við áramót og því óhætt að segja að rík hefð sé fyrir þessum skrifum. Einhverjum kann að þykja að hefðir og venjur hafi lítið gildi, en þó er vandséð að þeir geti með rökum amast við því að Morgunblaðið haldi í einhverjar af ríkustu hefðum blaðsins.
S
Margs konar baðhús og líkamsræktarstöðvar hafa löngum þótt bjóða upp á notalegar samverustundir. Það réttlætir þó ekki að hið opinbera standi straum af kostnaði starfseminnar. |
íðast liðinn sunnudag var tekin í notkun ný 50 metra innisundlaug í Laugardalnum, sem mun verða lögleg fyrir flest allar tegundir sundmóta. Eitt mót verður þó því miður ekki hægt að halda hér á landi vegna annmarka þessarar annars ágætu laugar, en það eru Ólympíuleikarnir. Stúkurnar í kringum laugina taka nefnilega ekki nægilega marga gesti í sæti til að fullnægja þeim kröfum sem Ólympíuleikarnir gera og hlýtur það að teljast mjög miður. Væntanlega verður bætt úr hið fyrsta svo að hér megi halda Ólympíuleikana. Íslendingar verða að geta tekið fullan þátt í alþjóðlegu samstarfi á öllum sviðum og verða því að geta haldið þessa leika ekki síður en aðrar þjóðir. Íslenskar sundlaugastúkur verða að vera á heimsmælikvarða, ekki nægir að sundlaugarnar sjálfar séu það.
Jæja, það er víst rétt að draga þessa vitleysu til baka áður en einhver fer að trúa því að Vefþjóðviljinn hafi tapað áttum. Íslendingar þurfa vitaskuld alls ekkert að eiga sundlaug sem hægt er að nota á Ólympíuleikunum. Ekki frekar en svo margt annað sem aðrar og margfalt fjölmennari þjóðir geta státað af. Fullvaxið tónlistarhús er til að mynda nokkuð sem Ísland hefur ekki efni á miðað við þann verðmiða sem settur hefur verið á þá framkvæmd og hringleikahús fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð er ekki heldur meðal þess sem Ísland þarfnast þegar horft er til kostnaðar og fjölda áhorfenda á knattspyrnuleikjum. Og það er raunar ekki aðeins svo að Ísland hafi ekkert við sundlaugastúku að gera sem fullnægir kröfum Ólympíuleikanna, Ísland hefur yfirleitt ekkert að gera við þá 50 metra löngu innisundlaug sem nú hefur verið tekin til notkunar. Þetta má best sjá á því að ekki er gert ráð fyrir að sundlaugin geti borið sig, enda kostnaðurinn ekki í lægri kantinum, litlar 1.130 milljónir króna.
Af einhverjum ástæðum hefur sumum þótt eðlilegt að hið opinbera reki sundlaugar hér á landi og verður að telja erfitt að sjá hvernig sú starfsemi getur flokkast undir þjónustu sem alls ekki má missa sín og hið opinbera verður að tryggja að boðið sé upp á. Þá má nefna að sundlaugar hins opinbera eru reknar í beinni samkeppni við ýmis konar starfsemi einkaaðila, einkum svo kallaðar líkamsræktarstöðvar. Hafi einhvern tímann verið ástæða fyrir hið opinbera að reka bað- og sundhús má fullyrða að sá tími sé að minnsta kosti löngu liðinn. Rétt væri að hið opinbera hætti þessum rekstri og fólk stæði hér eftir sjálft straum af kostnaði við hvers konar baðferðir og líkamsþjálfun.