Það verður seint talið bæta meltinguna að lesa frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Í frumvarpi fyrir árið 2005 sem samþykkt var fyrir síðustu helgi og minnst á hér á síðunni á sunnudag, eru ýmsir útgjaldaliðir sem hæglega mættu falla niður hefði borgarstjórnarmeirihluti R-listans einhvern áhuga á að laga til í fjármálum borgarinnar, greiða niður skuldir eða sleppa því að hækka skatta. Sem dæmi má nefna að hefði R-listinn haft áhuga á að spara í rekstri hefði hann getað látið eiga sig að hækka framlög til reksturs borgarsjóðs um 66%, eða um rúmar fjörutíu milljónir króna, frá árinu 2003 til 2005. Þetta hefði verið möguleiki fyrir þá sem hefðu viljað sýna aðhald í rekstri, en þeir sem hafa þanið út miðstýrt báknið á síðustu tíu árum líta vitaskuld ekki þannig á málið.
Hægt er að nefna tvo stóra útgjaldaliði sérstaklega þar sem hæglega hefði mátt skera niður. Annar er menningarmál, en til þess málaflokks verður á næsta ári varið tæpum 1,6 milljörðum króna ef áætlanir ganga eftir – en að vísu eru litlar líkur á því að áætlanir gangi eftir ef marka má reynslu síðustu ára. Hinn málaflokkurinn er íþrótta- og tómstundamál, en til hans á að verja tvöfalt meiru en til menningarmála á næsta ári, eða 3,1 milljarði króna. Aukningin á framlögum skattgreiðenda í Reykjavík til íþrótta- og tómstundarmála hefur þar að auki verið gríðarleg, eða 25% frá árinu 2003 til ársins 2005 – og verður meiri þegar upp er staðið ef marka má reynslu síðustu ára. Miðað við aukninguna til íþrótta- og tómstundarmála standa menningarmálin nánast í stað, en þar er aukningin „aðeins“ áætluð 8% á tveimur árum, 2003 til 2005. Og af því að minnst var á miðstýrt bákn hér að ofan má geta þess að rekstur skrifstofu Íþrótta- og tómstundaráðs kostar á næsta ári litlar 96 milljónir króna samkvæmt fjárhagsáætlun. R-listinn telur sjálfsagt að þeim fjármunum sé vel varið og að skattgreiðendur í borginni hefðu ekki getað fundi önnur og heppilegri not fyrir þá, en ýmsum öðrum blöskrar líklega sóunin.
Loks er ekki úr vegi að nefna einn útgjaldalið sem gert er ráð fyrir að blási út um 21% milli áranna 2003 og 2005, en það eru framlög til Strætó bs. Þetta fyrirtæki fær á næsta ári 1.034 milljónir króna samkvæmt fjárhagsáætlun og fer þar með í fyrsta skipti yfir eitt þúsund milljóna múrinn, sem hlýtur að vera sérstakt fagnaðarefni hjá R-listanum. Á næsta ári verður því á hverjum degi eytt tæpum 3 milljónum króna til að niðurgreiða vonlausan rekstur þessa óvinsæla ferðamáta. Á meðan gerir R-listinn allt til að leggja hindranir, þrengingar og ljós í veg fyrir vinsælasta farartæki almennings, einkabílinn, og gætir þess vandlega að gera ekki nauðsynlegar úrbætur til að auðvelda ferðir hins almenna manns um borgina.