G
Repúblikanaflokkur George W. Bush virðist hafa unnið allt sem hægt var vinna í kosningunum í gær og Bush mun því áfram halda um stýrið. |
eorge W. Bush tókst í gær það sem Bill Clinton og Al Gore tókst ekki; að fá meirihluta greiddra atkvæða í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Síðasta manni til að takast þetta var karli föður hans árið 1988. Þetta skiptir í sjálfu sér engu máli fyrir endanleg úrslit kosninganna. Kjörmenn ríkjanna velja forsetann þegar upp er staðið. En þar sem margir hafa haft áhyggjur af því fram til þessa að Bush hafi ekki fengið meirihluta atkvæða fyrir fjórum árum vekur þetta athygli.
Það er einnig útlit er fyrir að Bush hafi tryggt sér nægilega marga kjörmenn til að hljóta endurkjör sem forseti. Að þessu sinni hefur hann gert án „hjálpar“ frá Ralph Nader en margir demókratar skelltu skuldinni á Nader í síðustu kosningum.
Þá er ekki allt talið.
Í fyrsta sinn um áratuga skeið eykur flokkur sitjandi forseta að öllum líkindum meirihluta sinn í báðum deildum Bandaríkjaþings. Líklega bættu repúblíkanar við sig einu sæti í fulltrúadeildinni og fjórum í öldungadeildinni, þar með talið öldungadeildarþingsætinu sem John Edwards varaforsetaefni Johns Kerrys gaf eftir í Norður-Karólínu til að fara í framboð með Kerry. Repúblikanar hafa nú tryggan meirihluta í báðum deildum þingsins. Rúsínan í pylsuendanum er svo fall Tom Daschle leiðtoga demókrata í öldungadeildinni en hann missti sæti sitt sem öldungadeildarþingmaður Suður-Dakóta. Þetta var fyrsta tap hans í kosningum á 26 ára löngum þingmannsferli.
Í kaupunum fylgja svo að öllum líkindum ein til fjórar tilnefningar í hæstarétt Bandaríkjanna á nýju kjörtímabili forsetans sem geta haft mikil áhrif á framvindu þjóðmála þar vestra næstu áratugina.
Allt gerist þetta við aukna kjörsókn en því hafði verið spáð af spekingunum að nýir kjósendur, ekki síst „unga fólkið með farsímana“ og fólk úr minnihlutahópum, myndu flykkjast á kjörstað til að kjósa gegn Bush og stríðinu í Írak. Í síðustu kosningum fékk Bush 50,5 milljónir atkvæða en nú yfir 58 milljónir atkvæða. Yfir 3,5 milljónir atkvæða skilja hann og John Kerry að.