Um þessar mundir berast þær fréttir af viðræðum sjómanna og útvegsmanna að þeir hafi samið um kaup og kjör. Það má segja að það séu tíðindi. En um leið berast þær einkennilegu fréttir að Geir H. Haarde fjármálaráðherra hafi lýst því yfir við samningamenn að svonefndur sjómannafsláttur verði ekki afnuminn á næstunni. Sjómannaafslátturinn er ekki afsláttur af sjómönnum eins og nafnið bendir til heldur sérstakur skattaafsláttur til sjómanna sem upphaflega varð til sem ákvæði um hlífðarfatafrádrátt úr lögum nr. 41 frá 1954.
Á hálfrar aldar afmæli hans hefði verið full ástæða til að láta gott heita. Fjármálaráðherra er hins vegar á öðru máli. Svona mismunun í skattkerfinu er hvimleið og úr því ráðherrann er búinn að festa hana í sessi til næstu ára er aðeins eitt til ráða: Einhverjir þingmenn hljóta að taka sig saman um að leggja fram frumvarp um að allir landsmenn fái sjómannaafslátt. Það hlýtur að vera sjómönnum að meinalausu.
Sveitarfélögin og ríkisvaldið hafa með sér samráð um svonefnt lágmarksútsvar sem sveitarfélögunum er gert að leggja á þegna sína. Ekkert sveitarfélag má bjóða lægra útsvar og um þetta er gott samráð. Sem kunnugt er hafa sveitarfélögin í landinu einnig haft með sér verðsamráð undanfarin misseri gagnvart kennurum. Svonefnd launanefnd sveitarfélaga býður öllum sambærilegum kennurum sömu kjör fyrir hönd allra samráðssveitarfélaganna. Samráðið er ekki „víðtækt“ eins og nú er svo mjög í tísku að kalla samráð heldur er það algjörlega altækt. Kennarasamtök Íslands hafa fyrir hönd kennarar svarað í sömu mynt. Kennarar hafa nefnilega komið sér saman um að selja sveitarfélögunum vinnu sína á sama verði. Fyrr en bæði sveitarfélögin og kennarar verða sammála um hvert samráðsverðið á að vera verður ekki skrifað undir samninga. Eftir undangengna sex vikna samfellda kennslustund í samráðsfræðum hjá kennurum mætti ætla að sveitarstjórnarmenn væru orðnir fullnuma í fræðunum. En svo lengi lærir sem lifir. Fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga stendur nú sem hæst Nordica Hotel. Á heimasíðu sambandsins kemur fram að í dag klukkan 11:35 mun Þórólfur Árnason, borgarstjóri og fyrrverandi markaðsstjóri Olíufélagsins, halda erindið: Rekstur sveitarfélaga – Hvað má læra af einkageiranum?
American way of life“ gerir mörgum gramt í geði ef marka má umræður í evrópskum fjölmiðlum og jafnvel þeim bandarísku líka. Menn óttast að svo eftirsóknarverður lífsmáti ryðji öðrum úr vegi. Ekki getur Vefþjóðviljinn þó sagt að hann hafi misst svefn undanfarið vegna forsetakosninga sem fram fara í Bandaríkjunum í dag. Það hafa ýmsir aðrir gert ef marka má æsinginn. Stóryrðin og fúkyrðaflaumurinn um einn frambjóðandann verðskulda að þeim sé haldið til haga til minningar um alla þá sem áður töluðu með yfirlæti um skítkast og neikvæðan áróður í stjórnmálum. Það merkilegasta við þessar kosningar er þó að þeim, sem hvað mestar áhyggjur hafa af því að bandarísk menning, fyrirtæki og framleiðsla flæði yfir heiminn og glepji huga fólks, hefur með æsingnum og eigin geðshræringu á undanförnum misserum tekist að sannfæra heimsbyggðina um að bandarísk stjórnmál séu þau áhugaverðustu og mest spennandi í víðri veröld. Mönnum hefur verið þakkað að minna tilefni.