Þriðjudagur 7. september 2004

251. tbl. 8. árg.

Kynlífsiðnaðurinn er til umfjöllunar í nýjasta tölublaði The Economist og þar kemur fram – og svo sem ekki í fyrsta sinn – að tímaritið telur rangt að setja lög sem banna þennan iðnað eða atvinnugrein. Ýmis rök eru færð fyrir þessari skoðun, meðal annars svipuð rök og Vefþjóðviljinn hefur haldið fram, að viðskipti tveggja einstaklinga, sem ganga af fúsum og frjálsum vilja til viðskiptanna, séu þeirra mál og einskis annars. Það að verið er að selja aðgang að líkama annars breytir engu, enda selja menn oft aðgang að líkama sínum með einum eða öðrum hætti. Mönnum er jafnvel heimilt að selja afnot af líkama sínum til rannsókna á lyfjum eða ýmiss konar fæðu eða fæðubótarefnum. Og menn geta selt afnot af líkama sínum til ýmiss konar erfiðrar og jafnvel hættulegrar líkamlegrar vinnu. Raunar má segja að í hvert sinn sem menn selja vinnu sína séu þeir að selja aðgang að líkama sínum og þess vegna eru slík rök þeirra sem vilja banna starfsemi á kynlífsmarkaði afar veik.

The Economist segir að frá vinstri mönnum heyrist þau rök gegn kynslífsiðnaðinum að allir sem stundi vændi séu fórnarlömb. Talsmenn þessa sjónarmiðs vísa í rannsóknir sem sýni að þeir sem stundi vændi verði oft fyrir kynferðislegri misnotkun og neyti oft fíkniefna. Við þessu segir tímaritið að séu tvenns konar svör. Annars vegar séu rannsóknirnar bjagaðar, því að þeir sem framkvæmi þær séu yfirleitt starfsmenn hjá meðferðarhælum eða lögreglunni og þeir verði eðli málsins samkvæmt varir við þá sem eigi í mestum erfiðleikum. Að líta á þennan hóp sem rétt úrtak fyrir þá sem stunda vændi sé svipað og að leggja mat á hjónabönd með því að styðjast við þann hóp sem kemur í kvennaathvörf. Hins vegar þýði tengslin á milli vændis og neyslu fíkniefna ekki að vændi leiði til fíkniefnaneyslu. Ef til vill sæki fíkniefnaneytendur í vændi þar sem það sé góð aðferð við að afla sér góðra tekna ef fólk sé ekki með kollinn alveg skýran.

Þá nefnir tímaritið að stundum séu notuð þau rök gegn kynlífsmarkaðnum að á honum þrífist alls konar óþverri, svo sem misnotkun á börnum og að fólk sé neytt út í vændi þvert á vilja sinn. Þessu hafnar The Economist og bendir á að bann við vændi ýti því undir yfirborðið en lögleyfing myndi gera yfirvöldum auðveldara að uppræta misnotkun og nauðung. Þess háttar glæpi ætti að meðhöndla sem slíka – það er að segja sem þá glæpi sem þeir eru – í stað þess að fjalla um þá eins og þeir séu aðeins öfgafull útgáfa af kynlífsiðnaðinum.

Fleiri en Trinity treysta á „grunnnetið“ í baráttunni.

Nei hættiði nú alveg. Þingmenn og varaþingmenn Samfylkingarinnar, þeirra á meðal Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fara nú milli bæja og reyna að bregða fæti fyrir einkavæðingu Símans með því að segja fólki tröllasögur af því sem gerist ef „grunnnetið“ verður selt. Fyrir daga uppfinningar Al Gore, gervitungla og örbylgjusendinga trúðu einstaka Framsóknarmenn því að lýðræðið, byggð í landinu og landrekskenningin fengju ekki staðist nema ríkið ætti „grunnnetið“. En það er orðið nokkuð langt síðan þeir nefndu þetta og þeir virðast ætla að gera aðra tilraun með Sjálfstæðisflokknum til að einkavæða fyrirtækið á næstunni. Samfylkingin ætlar hins vegar að sitja uppi með að hafa reynt að þvælast fyrir enn einni einkavæðingunni. Það er auðvitað hægt að ganga að því vísu að jafnaðarmenn eru andsnúnir einkavæðingu af einhverri einkennilegri ástæðu. Það er ekki rétti tíminn, ekki rétta aðferðin, ekki forgangsverkefni, ekki rétta verðið, ekki réttu kaupendurnir. En þetta með „grunnnetið“ hlýtur að vera met í þessari grein.