Það verður að segjast alveg eins og er að ég er mjög ósátt við hina ríkisreknu jafnréttisbaráttu sem fram fer á vegum Jafnréttisráðs. |
… |
Um sjálf jafnréttislögin væri ýmislegt hægt að segja en eitt atriði vil ég nefna sérstaklega. |
… |
Nýgenginn úrskurður kærunefndar um kennarastöðu við grunnskólann í Skógum sýnir að það er ástæða til að óttast þessa þróun. |
– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þingmaður Kvennalistans í Veru, október 1993. |
Það er ekki sama hver segir hlutina. Fyrir nokkrum misserum ætlaði allt um koll að keyra vegna þeirra ummæla Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra að huga mætti að breytingum á jafnréttislögunum. Sagði ráðherrann lögin vera barn síns tíma. Fjaðrafokið sem fylgdi þessum ummælum er eitt skýrasta dæmið frá síðustu árum um það hvernig pólitískur rétttrúnaður getur farið með umræðuna. Í stað þess að ræða jafnréttislögin efnislega var klifað á því að ráðherrann hlyti að hafa rangt fyrir sér því hann hefði eitthvað við jafnréttislögin að athuga. Lögin sjálf voru orðin ósnertanleg og öll gangrýni á þau bannfærð. Sérstaka athygli vakti að þeir stjórnmálamenn sem mest tala um „umræðustjórnmál“ og „samræðupólitík“ vildu alls ekki efnislega umræðu um jafnréttislögin.
En það er ekkert nýtt að jafnréttislögin séu umdeild þótt það sé nýlunda að ekki megi ræða þau. Í tímariti Samtaka um kvennalista, Veru, í október árið 1993 var lögð spurning fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þingmann Kvennalistans. „Gegnir jafnréttisráð hlutverki sínu?“ Í svari hennar kemur skýrt fram að hún var mjög ósátt við hina ríkisreknu jafnréttisbaráttu ráðsins. Í fyrsta lagi fannst henni staða ráðsins í stjórnkerfinu „veik og óljós“. Í öðru lagi væri ráðið „rangt“ skipað því þar væru meðal annarra fulltrúar frá atvinnurekendum og verkalýðsfélögum. Í þriðja lagi fannst Ingibjörgu ráðið skorta „ákveðinn metnað og frumkvæði“. Fyrrnefndu tvö atriðin sem Ingibjörg nefndi lutu auðvitað beint að jafnréttislögunum sjálfum þar sem mælt var fyrir um stöðu ráðsins í stjórnkerfinu og skipun þess í lögunum.
En þótt hún hafi ekki verið spurð beint um jafnréttislögin gat hún ekki stillt sig um að gagnrýna þau sérstaklega enda væri ýmislegt hægt að segja um þau. Nefndi hún eina grein laganna „hortitt“ sem hún gæti ekki séð að bætti stöðu kvenna á vinnumarkaði. Og ekki var allt búið enn því Ingibjörg lét það fljóta með nýgenginn úrskurður kærunefndar um kennarastöðu við grunnskólann í Skógum væri ekki til fyrirmyndar.
Þarna fékk sumsé allur jafnréttisiðnaðurinn, lögin, ráðið, kærunefndin, að Kvennalistanum undaskildum, það óþvegið. Nú, rúmum áratug síðar, má ekki lengur ræða þessi mál. Að minnsta kosti virðist ekki hver sem er mega það. Kannski þarf að bæta ákvæði í jafnréttislögin um að fleiri miðaldra karlmenn en Ingólfur V. Gíslason megi ræða jafnréttismál. Og eru vinstrisinnaðar konur ekki löngu búnar með kynjakvótann sinn í þessari umræðu?