Nú standa yfir málaferli milli eins af prófessorum háskólans og aðila sem nefnist siðanefnd Háskóla Íslands. Prófessorinn, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hefur verið kærður til nefndarinnar vegna bókar sem hann hefur skrifað, fyrsta bindis ævisögu Halldórs Laxness, en Hannes efast hins vegar um rétt nefndarinnar til fjalla um kæruna og bendir meðal annars á að nefndin hafi ekki verið sett á fót fyrr en eftir að hann skrifaði bók sína. Þá segir Hannes að í siðareglum háskólans segi að vísa skuli frá málum, sem leitað sé til dómstóla um – og slík málshöfðun hafi einmitt verið boðuð í þessu tilfelli-, engar lagaheimildir hafi verið fyrir setningu þeirra reglna sem nefndin eigi að starfa eftir og þær reglur hafi ekki einu sinni verið réttilega birtar. Siðanefndin gerði ekkert með þessar mótbárur Hannesar og ákvað að fjalla um tvö af þeim fjórum atriðum sem komu fram í kærunni á hendur prófessornum, en hinum tveimur vísaði nefndin frá. Hannes ákvað þá að bera það undir dómstóla hvort nefndinni væri heimilt að fjalla um þau og fella um þau úrskurð, og bíður það mál nú meðferðar. Hannes óskaði eftir því að siðanefndin biði með frekari efnismeðferð þar til dómstólar hefðu kveðið upp úr um heimildir nefndarinnar, en þá bar svo við að nefndin hafnaði þeirri beiðni hans. Hann óskaði þá eftir því að lagt yrði lögbann við frekari starfi nefndarinnar þar til dómstólar hefðu skorið úr um heimildir hennar, og á dögunum féllst héraðsdómur Reykjavíkur á þá kröfu hans. Siðanefnd Háskóla Íslands ætlar hins vegar ekki að hægja á sér fyrr en í fulla hnefana og hefur nú kært þann úrskurð til Hæstaréttar.
„En hvers vegna má ekki bíða eftir því að dómstólarnir ljúki sér af? Af hverju verður endilega að ljúka málinu fyrir nefndinni áður en dómstólarnir ná að klára málið hjá sér? Þarf bara að fá úrskurð, hvort sem að heimild er fyrir honum eða ekki? Jafnvel óleyfilegur áfellisdómur gæti vissulega nýst í þeim málaferlum sem nokkrir erfingjar Halldórs Laxness hafa boðað gegn hinum óboðna ævisöguritara…“ |
Þessi ferill er nokkuð merkilegur, og þá einkum síðari hluti hans. Það er ekkert við það að athuga að nefndarmenn og prófessor greini á um heimild nefndarinnar til að fjalla um kæru sem þessa. Það er ekkert við því að segja þó nefndin telji sig hafa allar heimildir og ekkert við því að segja þó prófessorinn beri það undir dómstóla. Hitt er sérstakt, að nefndin neiti algerlega að bíða róleg þar til dómstólar hafa tekið afstöðu til heimilda hennar. Það verður sérstakara þegar horft er til þess að nefndin er nýsett á fót og ekkert liggur fyrir um það hvaða heimildir hún hefur til athafna. Staðan er hreint ekki sú að það hafi fyrir löngu verið eytt öllum vafa um það og málshöfðun prófessorsins sé bara einhver fyrirsláttur til að vinna tíma. Þvert á móti er verulegur vafi um heimildir nefndarinnar, eins og glöggt kemur fram í úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur. Þegar þetta er haft í huga verður ákafi nefndarinnar nokkuð merkilegur.
Hvers vegna liggur nefndinni svona á? Hvers vegna má ekki bíða eftir því að dómstólar kveði upp úr um heimildir hennar eða vanheimildir? „Hverra hagsmuna gætir siðanefnd“ spurði Hannes sjálfur í Morgunblaðinu á dögunum og svipaðrar spurningar spurði Birgir Tjörvi Pétursson, héraðsdómslögmaður, í grein um þetta mál í Viðskiptablaðinu. Nú má auðvitað vel vera að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að nefndin hafi réttilega verið sett á fót og að hún hafi allar heimildir til að rétta yfir kennurum vegna þess sem þeir taka sér fyrir hendur í frítíma sínum. Og þá bara gerir nefndin það og úrskurðar það sem hún vill. En hvers vegna má ekki bíða eftir því að dómstólarnir ljúki sér af? Af hverju verður endilega að ljúka málinu fyrir nefndinni áður en dómstólarnir ná að klára málið hjá sér? Þarf bara að fá úrskurð, hvort sem að heimild er fyrir honum eða ekki? Jafnvel óleyfilegur áfellisdómur gæti vissulega nýst í þeim málaferlum sem nokkrir erfingjar Halldórs Laxness hafa boðað gegn hinum óboðna ævisöguritara, en vonandi er nefndin ekki að hugsa um það sérstaklega að útvega öðrum aðilanum vopn í þeim deilum.
En hvað, er Hannes með svona slæman málstað að hann þori ekki í efnislegar umræður fyrir siðanefndinni, spyr kannski einhver. Þarf hann að hengja sig í formsatriði og hefur þá kannski engar efnislegar varnir? Nú veit Vefþjóðviljinn það ekki, en hitt má vera flestum kunnugt, að Hannes hefur misjafna reynslu af andrúmsloftinu gagnvart sér á háskólalóðinni, allt frá því að reynt var með öllum ráðum að hindra að hann yrði ráðinn til kennslu við háskólann. Hefur óvildin í hans garð gengið svo langt að lögfræðingur Háskólans gaf það álit að tiltekinn samkennari Hannesar væri slíkur hatursmaður hans að hann væri óhæfur til að taka þátt í afgreiðslu mála sem vörðuðu Hannes. Sá samkennari er hins vegar mikið eftirlæti fréttamanna þegar kemur að því að útlista íslensk stjórnmál, en það er annað mál.
Í sumar skrifaði einn þekktasti rithöfundur landsins grein í Fréttablaðið um kæruna á hendur Hannesi. Sagði hann – sem út af fyrir sig væri raunar ekki nema mátuleg réttlæting á því að stela frá Halldóri Laxness ef Hannes, eða aðrir, hefðu gert það – að Halldór Laxness hefði sjálfur verið nýtinn á annarra verk og minnti jafnframt á að á sínum tíma tóku háskólamenn því ekki vel þegar maður nokkur vildi verja doktorsritgerð um það efni hvaðan Halldór Laxness hefði sótt efnið í sínar bækur. Nú hins vegar ætlaði siðanefnd háskólans að setja á réttarhöld yfir Hannesi. Grein þessa rithöfundar er forvitnileg, og hvort sem menn eru sammála honum eða ekki um einstök atriði, þá verður því vart haldið fram að þar tali pólitískur samherji Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Hvað um það, í grein sinni, „Íslensk siðvæðing“, sagði Guðbergur Bergsson meðal annars:
Því var ekki laust við að margt snerist við í höfðinu … og þó … við fréttina að siðanefnd Háskólans ætli að dæma um hvort Hannes Hólmsteinn hafi stolið einhverju varðandi Laxness, skáldi sem stal öllu sögusteini léttara og skellti í bækur sínar. Meira að segja Garðar Hólm er þýfi frá Gunnari Gunnarssyni. Þar var hann misheppnaður fiðluleikari en Laxness sneri honum jafn snilldarlega við og Duchamp hlandskálinni. En varð ekki eins frægur, enda eitt að taka fiðlara frá Gunnari á Íslandi og breyta í söngvara, annað að rífa skál úr karlapisseríi í París og breyta í þvílíkt verk að fólk fer ekki á sýningu án þess að hafa kopp til að pissa ekki á sig af hrifningu. |
Fyrir nokkru þótti ósiðlegt í Háskólanum að bera fram doktorsritgerð um hvaðan efnið kæmi í bækur Laxness. Og ei hefur siðsemin minnkað eftir að heimspekingur siðfræðinnar varð rektor. En rétt er að setja upp rökdæmi fyrir núverandi siðanefnd skólans og spyrja: Hví má H. ekki stela frá K., ef K. mátti stela frá G.? Það þótti siðfræðilega rétt og ritgerð vísað frá? Leysið nú hnútinn á siðalögmáli ykkar með þjóðlegri aðferð, listinni að kunna að kjafta sig í hring. Úthúðið Hannesi af vægðarleysi, segið hann kunni ekki að skrifa, sé enginn fræðimaður, þjófur, íhaldsblesi og alltaf í rassgatinu á Davíð Oddssyni. |
Takið ykkur málhvíld meðan álitið fær tóm til að snúast við. Rekið þá rökin í öfuga átt uns kemur að góðmennskunni í ykkur og þið sláið fram: Annars er Hannes ágætis strákur! Þá er stutt í nýja sannfæringu: Annað eins siðferðiströll hefur aldrei fæðst á íslenskri grund – að Laxness frátöldum. |
Nú má ekki skilja Vefþjóðviljann svo að hann sé á móti því að erfingjar Halldórs Laxness efni til málaferla við Hannes Gissurarson. Ef fólkið telur að Hannes hafi brotið á sér, þá er ofureðlilegt að það leiti réttar síns. Málið hefur svo sinn gang, Hannes fær tækifæri til að verja sig og sína bók og svo framvegis. Það sem er óeðlilegt er æðibunugangurinn í siðanefndinni og hinn sérkennilegi ákafi hennar að halda áfram þrátt fyrir að spurningin um heimildir hennar sé nú á leið fyrir dómstóla.