Þess er nú beðið að menntamálaráðherra skipi nýjan þjóðleikhússtjóra og sjálfsagt margir spenntir að vita hver verður fyrir valinu. Í gær spurði DV fimm einstaklinga hver umsækjenda þeir vildu að fengi starfið. Einn þessara manna var Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður og hann óskaði ekki eftir sérstökum áherslum, reynslu eða færni, heldur er meginkrafa hans önnur: „Ég vil sjá flinka hæfileikaríka konu í stól Þjóðleikhússtjóra. Það eru margar góðar konur á þessum lista.“
Það er svo skemmtileg tilviljun, þó það sé vafalaust ekkert meira en tilviljun, að meðal umsækjenda er kona sem hefur talsverða reynslu úr leikhúsi og kemur væntanlega til greina í starfið, Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður. Sá galli yrði vitaskuld á skipun hennar að þar með hyrfi hún af þingi og frjálslynd viðhorf misstu traustan talsmann. En sú bót yrði í máli að inn kæmi á þing varamaður hennar, Atli Gíslason, hæstaréttarlögmaður, ekki síðri talsmaður frjálslyndra viðhorfa.
Fyrst vitnað er hér í svar við spurningunni um næsta þjóðleikhússtjóra, þá er rétt að vekja hér athygli á svari Bryndísar Loftsdóttur, starfsmanns Pennans, en Vefþjóðviljanum þykir svar hennar töluvert skynsamlegra en svar hæstaréttarlögmannsins: „Fyrst og fremst vonast ég nú til þess að Þorgerður Katrín láti ekki leiða sig út í einhver kynjakvótamál við þessa stöðuveitingu. Mín vegna má Þjóðleikhússtjóri alveg vera karlmaður næstu 100 árin í viðbót, mestu máli skiptir að ráða hæfasta einstaklinginn.“
Vorið 1999 keyptu þrír íslenskir ríkisbankar stóran hlut af erlendum fjárfestum í íslensku erfðarannsóknafyrirtæki. Vefþjóðviljinn leyfði sér að gagnrýna þessa ráðstöfun þótt enginn sem gagnrýndi hlutabréfakaup á þessum tíma þætti með réttu ráði. Með kaupum ríkisbankanna á þessum hlut var verið að færa samsvarandi áhættu af þessum atvinnurekstri frá fjárfestum til skattgreiðenda. Kaupin gengu einnig gegn því markmiði að fá útlendinga til að fjárfesta hér. Útlendingar sem lagt höfðu fé í íslenskt atvinnulíf voru keyptir út. Jafnframt benti flest til þess að bankarnir yrðu einkavæddir innan tíðar og engin ástæða til að taka fram fyrir hendurnar á nýjum eigendum með svo áhættusamri fjárfestingu.
Kaup Símans á hlut í Skjá 1 í gær eru sama marki brennd. Þau færa áhættuna af því að pranga enska boltanum og öðru efni Skjás 1 inn á landsmenn frá fjárfestum til ríkisins. Ekkert bendir svo til annars en að Síminn verði seldur á næstunni, jafnvel á næstu vikum. Það ætti að bíða nýrra eigenda að bæta nýjum þáttum við rekstur fyrirtækisins.