Ígær boðaði svonefnd Þjóðarhreyfing til útifundar „til að mótmæla því að svipta á þjóðina stjórnarskrárvörðum kosningarrétti“ eins og sagði í fundarboði sem lesið var í síbylju af öllum fréttastofum fyrir fundinn. Ef þetta er rétt sem segir í fundarboðinu hefði mátt ætla að hinn almenni maður léti ekki bjóða sér að kosningarrétturinn væri afnuminn og léti ekkert aftra sér frá því að mæta á fundinn. Að fundi loknum sagði á Bylgjunni að „hið minnsta 1.000 manns“ hefðu mætt á fundinn og á Stöð 2 var því haldið fram að bekkurinn hefði verið þéttsetinn út í allar hliðargötur. Á heimasíðu Þjóðarhreyfingarinnar var bætt um betur og sagt að „gríðarlegur mannfjöldi“ eða „um 3.000 manns“ hafi verið á fundinum. Á myndinni hér að neðan sem tekin var þegar fundurinn stóð sem hæst er augljóst að aðeins er um nokkur hundruð manns að ræða, líklega um 500, og bekkurinn ekki þéttsetnari en svo út í hliðargötur að jafnvel Austurvöllurinn sjálfur er hálftómur. Það hafa sumsé allir mætt á fund Þjóðarhreyfingarinnar nema þjóðin.
Þjóðin sat heima þegar fámenn hirðin kom saman í litlu rjóðri á Austurvelli. |
H var á að draga línuna? Þessi spurning kemur upp í hugann þegar fréttir eru fluttar af því að sú hugmynd hafi skotið upp kollinum – og þyki jafnvel koma til álita meðal þeirra sem nokkru fá um ráðið – að setja njósnakubb í alla bíla landsmanna. Vefþjóðviljinn hefur iðulega bent á það þegar nýjar hugmyndir um aukið eftirlit hins opinbera með borgurunum skjóta upp kollinum, að verði hugmyndirnar samþykktar líði ekki að löngu þar til næsta og enn meira íþyngjandi hugmynd verði viðruð og nái fram að ganga. Það blasti við þegar lögreglan tók að mynda almenning á götum úti að þar yrði ekki látið staðar numið og nú hefur lögreglustjórinn í Reykjavík lýst þeirri skoðun sinni að hann vilji „fjölga mjög“ þessum myndavélum. En þetta er ekki allt, og í raun það minnsta. Hann hefur líka viðrað þá hugmynd að setja tölvukubb í hvern einasta bíl þannig að lögreglan gæti stöðvað menn „og séð aksturslag bifreiðarinnar bæði þann dag sem athugaður er og líka það sem áður hefur gengið á,“ eins og haft er eftir honum í Morgunblaðinu í gær.
Fyrst voru eftirlitsmyndavélar leyfðar til að fylgjast með borgurunum, en nú er það ekki nóg. Nú þarf að setja tölvukubb í bíla borgaranna til að hægt sé að skoða hvað þeir voru að gera. Og ekki aðeins á næstu mínútum áður en lesið er af tölvukubbnum, nei, „líka það sem áður hefur gengið á“. Við þetta vakna ýmsar spurningar. Er hugmyndin sú að tölvukubburinn geti sagt yfirvöldum hvar bíllinn var og hvenær, auk þess að segja til um hraðann? Það gæti komið sér vel við að upplýsa hin ýmsu brot, þannig að ef það er ekki hugmyndin í dag verður það vafalaust hugmynd morgundagsins. Og ef það þykir í lagi að fylgjast með ferðum manna, hvers vegna þá að einskorða það við bíla? Er ekki hægt að koma í veg fyrir alls kyns brot – eða að minnsta kosti upplýsa þau – með því að láta alla ganga um með tölvukubb í sér eða á? Er ekki tilvalið að lögreglan geti lesið af tölvukubbum borgaranna og séð hvar þeir voru og hvenær? Þeir sem ekkert brjóta af sér geta varla haft neitt á móti þessu, svo vísað sé til vinsællar röksemdar fylgismanna aukins opinbers eftirlits. Svo er engin ástæða til að láta staðar numið við varnir gegn afbrotum, það er svo margt annað sem er skaðlegt. Sú geðfellda stofnun Lýðheilsustofnun gæti til að mynda fengið heimild til að skikka landsmenn til að setja tölvukubba í ísskápa sína þannig að hægt væri að fylgjast með neysluvenjum og grípa inn í ef þær væru þess eðlis að heilsu manna væri stefnt í voða að mati stofnunarinnar. Þetta væri öllum fyrir bestu, því að með þessu móti væri hægt að grípa inn í áður en borgararnir misstu heilsuna af ofáti, vanáti eða óhollustu.
Það er alveg sama hversu langt er gengið í eftirliti ríkisins með borgurunum, sumir munu alltaf vilja taka eitt skref enn. Þeir sem hafa áhuga á að geta um frjálst höfuð strokið í framtíðinni ættu hins vegar að hafa þau ágætu orð í huga, að frelsið glatast sjaldan allt í einu.