Fimmtudagur 8. júlí 2004

190. tbl. 8. árg.

Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi var sagt frá Íra nokkrum sem hefur leyft reykingar í húsnæði sínu og sætir af þeim sökum rannsókn og hættir á að verða refsað. Hann gæti jafnvel lent í því að þurfa að hætta rekstri fyrirtækis síns vegna þess eins að hann hefur leyft reykingar. Og hver er skýringin á því að írskur maður getur lent í hremmingum ef hann leyfir gestum sínum að reykja í húsnæði sínu, jú skýringin er vitaskuld lög sem banna reykingar á veitingastöðum þar í landi. Írinn rekur krá og í sjónvarpsviðtali kom skýrt fram að hann vildi endilega að fólk mætti reykja á kránni. Hann sagði að eftir að reykingar voru bannaðar hafi viðskiptin hrunið um meira en helming og að hann hafi þurft að segja stórum hluta starfsmanna upp. Enginn rekstrargrundvöllur væri lengur fyrir kránni og hann skýrði uppátæki sitt með því að hann væri að taka afstöðu. Maðurinn er að mótmæla því að fá ekki að ráða því sjálfur hvort hann leyfir reykingar í húsnæði sínu eða ekki.

En hvað með gestina, eiga þeir ekki rétt á hreinu lofti, eins og baráttumenn gegn reykingum á veitingastöðum halda fram? Þeir gestir sem rætt var við í fréttinni höfðu ekki þær áhyggjur. Þeir voru mættir til að fá sér að reykja og taka þátt í mótmælum gegn banninu. Þeir töldu sér greiða gerðan með því að leyfa sér að fara á krá og fá sér reyk með drykknum. Og það þarf reyndar ekki að fara til Írlands til að sjá að margir kjósa einmitt frekar að fá sér reyk með kaffibollanum eða bjórglasinu en að sitja í reyklausu húsnæði. Svo eru hinir auðvitað líka til sem vilja miklu frekar drekka í reyklausu umhverfi. Og það munu líka vera til veitingahúsaeigendur sem vilja frekar reka reyklausa veitingastaði.

Hvert er þá vandamálið? Svarið er að vandamálið er ekki fyrir hendi. Eða, það var að minnsta kosti ekki fyrir hendi fyrr en löggjafinn gaf eftir vegna yfirgangs þeirra sem vilja hafa vit fyrir öðrum og bannaði reykingar. Fram að þeim tíma gátu menn valið sjálfir hvort þeir vildu reyk eða ekki. Veitingamenn gátu valið hvort þeir rækju staði þar sem reykingar væru leyfðar eða ekki og gestir staðanna gátu ákveðið hvort þeir sæktu reyklausa staði eða ekki. Á Írlandi gátu allir unað sáttir við sitt, en þá fannst einhverjum að þeir hefðu rétt til að segja öðrum fyrir verkum og fengu löggjafann í lið með sér með þeim afleiðingum fótunum var kippt undan rekstri fjölda kráa og þar með atvinnu fjölda manna.

Í umræðum um fjölmiðlalögin svokölluðu hafa ýmsir sem hingað til hafa ekki verið sérstaklega áhugasamir um réttindi annarra skyndilega orðið mjög áhugasamir um réttindi sumra. Einn þessara manna er Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, sem er gegn lögunum meðal annars vegna þess að þau skerði tiltekið frelsi manna. Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig hann og fleiri skoðanabræður hans – ef menn sem skipta mjög ört um skoðun geta þá nokkurn tímann verið skoðanabræður – munu bregðast við ef tillögur um frekari skerðingu á atvinnufrelsi veitingamanna verða lagðar fyrir Alþingi.