Helgarsprokið 4. júlí 2004

186. tbl. 8. árg.

Í danska ríkissjónvarpinu (DR) var sýndur danskur heimildaþáttur ekki alls fyrir löngu um afleiðingar ýmissa styrkjakerfa Evrópusambandsins (ESB). Þátturinn, sem ber heitið „Den dyre støtte“, sýndi fram á ömurlegar afleiðingar landbúnaðarstyrkjakerfis ESB auk þess hvernig hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri aðhefst í ESB.

„Það er rjóminn af pólitískri elítu aðildarríkjanna sem er nánast einráður um það hver gegnir valdamesta embættinu í ESB. Um ákvörðunina og aðdraganda hennar ríkir nánast alger leynd, hún fer fram bak við luktar og læstar dyr í bakherbergjum eftir rifrildi og hrossakaup.“

Styrkir ESB til landbúnaðarins eru gífurlegir. Hefur það leitt til offramleiðslu á ýmsum landbúnaðarvörum, þar sem margir bændur framleiða ekki það sem er eftirspurn er eftir, heldur miða í miklum mæli ákvarðanir sínar við hvað fæst í styrki frá ESB. Offramleiðslan hefur, eins og þekkt er, orðið til þess að í ESB hafa myndast mjólkur-, kjöt- og smjörfjöll svo dæmi séu tekin. Vandamálið var oft leyst með því að keyra þessi fjöll á haugana. Þegar bárust af því fréttamyndir, líkaði skattgreiðendum í ESB ekki nema rétt mátulega vel að horfa á urðun niðurgreiddra afurðanna á sjónvarpskjánum og varð þessi aðferð mikill álitshnekkir fyrir landbúnaðarstefnu ESB. Borgarar ESB, sem og annarra ríkja, urðu ákaflega hneykslaðir og pirraðir á þessu. Ráðandi öfl sáu að við svo búið mátti ekki standa.

Elítan í Brussel dó ekki ráðalaus. Í stað þess að breyta kerfinu og hleypa markaðsöflunum að, svo að bændur framleiddu í auknum mæli það sem neytendur óskuðu eftir og á hagkvæmari hátt, var ákveðið að hanna nýtt styrktarkerfi til að losa sig við umframbirgðirnar. Hafist var handa við að styrkja útflutning ýmissa landbúnaðarvara, sem annars söfnuðust upp í ESB, og flytja vandamálið út til fátækari ríkja. Í þættinum var dæmi tekið og sagt frá því að dansk-sænska risafyrirtækið Arla, sem framleiðir ýmsar mjólkurvörur, hefur fengið gífurlega styrki til að flytja mjólkurduft til fátækra ríkja. Styrkirnir gera útflytjendum mjólkurduftsins kleift að selja það ódýrt í fátækum ríkjum, eins og Dóminíska lýðveldinu. Á sama tíma ver ESB bændur í aðildarríkjum sínum fyrir samkeppni utan frá, með því að reisa háa tollamúra í kringum sambandið. Því geta bændur í fátækari ríkjum ekki keppt á mörkuðum ESB. ESB kemur þannig í veg fyrir að neytendur í sambandinu geti keypt vöru ódýru verði sem öðrum tekst að framleiða hagkvæmar en bændur í ESB. Um leið kemur ESB í veg fyrir að bændur í fátækari ríkjum eigi kost á að bæta hag sinn með útflutningi vara til ESB.

Ekki nóg með það. Í þættinum var sýnt fram á að styrkir ESB bæði til framleiðslu og útflutnings hafa aðrar, minna þekktar, alvarlegar afleiðingar. Með styrkjakerfinu grefur ESB undan lífsviðurværi fjölda bænda og framleiðenda í fátækari ríkjum, sem hin styrkta vara er flutt út til. Og eins og það sé ekki nóg, þá voru í þættinum sýnd dæmi þess að bændur í fátækari ríkjunum, sem notið höfðu stuðnings ESB til að byggja upp framleiðslu sína, færu í hrönnum á höfuðið vegna samkeppninnar við vöru sem framleidd væri í ESB og notið hefði mikilla styrkja sambandsins. Þannig hafði einn framkvæmdastjóri ESB dælt peningum skattgreiðenda ESB í að aðstoða bændur í fátækari ríkjum við að byggja upp framleiðslugetu sína en annar framkvæmdastjóri ESB hafði á sama tíma dælt peningum í útflutningsstyrki landbúnaðarvara frá ESB til fátækari ríkja, sem hefur skekkt samkeppnistöðu innlendra bænda gífurlega og haft í för með sér að margir þeirra hafa farið á höfuðið. Því vaknar sú spurning hvort hægri hendinni sé í raun ekki nákvæmlega sama hvað sú vinstri gerir, eins og einn viðmælandi þáttarins gat sér til um. Í Dóminíska lýðveldinu er ein ömurleg afleiðing alls þessa sú að víða hefur mjólkursala snarminnkað og neyta menn í hennar stað innflutts niðurgreidds mjólkurdufts sem framleitt er í ESB. Næringarfræðingar halda því hins vegar margir fram að æskilegra væri að menn neyttu frekar mjólkur en mjólkurdufts. Og eins ótrúlegt og það kann að hljóma, þá var sýnt fram á það í þættinum, að sælgætisframleiðendur í Suður-Afríku eiga erfitt með að keppa við innflutt sælgæti frá ESB, af því að sykurinn sem framleiddur er í ESB og er uppistaðan í sælgætinu, er niðurgreiddur í svo miklum mæli.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Með siðlausu landbúnaðarstyrkjakerfi sínu skapar ESB örbirgð í fátækari ríkjum. (Mynd: Husdyrfoto/Vera Gjersøe)

Með undarlegu, flóknu, rándýru og nánast óskiljanlegu styrkjakerfi sínu, sem minnir meira á áætlunarbúskap en markaðshagkerfi, stuðlar ESB þannig að því að mikið af þeim landbúnaðarvörum sem þar eru framleiddar, eru framleiddar þó ekki sé eftirspurn eftir þeim og á óhagkvæmari og dýrari hátt en ella. Þannig kemur ESB líka í veg fyrir að bændur, sem framleiða vörur, sem ekki er eftirspurn eftir, framleiði það sem eftirspurn er eftir. Auk þess að vera skattgreiðendum í ESB rándýrt, safnast fyrir birgðir offramleiddra vara í ESB. Þar sem borgararnir kunna ekki við að því sé öllu ekið á hauganna, veitir ESB frekari styrki svo hægt sé að flytja vandamálið út úr ESB. Þar með hverfur það vitanlega ekki, heldur skapar það nýtt vandamál í öðrum ríkjum.

Í þættinum var þannig rifjað upp, það sem flestir vissu, að ESB dælir ótrúlegum fjárhæðum í styrki til evrópskra bænda og hefur sett á háa verndartolla til að koma í veg fyrir samkeppni utan frá. Í þættinum var jafnframt sagt frá því, sem færri vita, að til að koma í veg fyrir smjör- og kjötfjöll í ESB, styrkir sambandið útflutning landbúnaðarvara frá ESB til fátækra ríkja, en það kemur ákaflega hart niður á bændum þeirra ríkja, sem eiga erfitt með að keppa við svo niðurgreidda vöru.

Þessi hneisa ofbýður réttlætiskennd og skynsemi flestra og er algerlega óviðunandi. En þar sem langt er á milli borgara og þeirra sem ákvarðanirnar taka í ESB og þar sem kerfið er svo ógegnsætt, eins og Vefþjóðviljinn benti á hér, veit almenningur í aðildarríkjunum ekki af þessu.

Þar sem Helgarsprok er að þessu sinni tileinkað ESB, verður ekki hjá því komist að ræða darraðardansinn sem verið hefur í kringum valið á forseta framkvæmdastjórnar ESB undanfarnar vikur. Það er svo sem ekkert skrýtið að í kringum val á svo valdamiklum einstaklingi verði nokkur valdabarátta. Hið athyglisverða er hins vegar hvernig valið fer fram. Það voru engir formlegir frambjóðendur heldur voru ýmis nöfn nefnd til sögunnar, og ekki endilega þau sömu í öllum aðildarríkjunum. Oftast var um getgátur fjölmiðla að ræða.

Með ólýðræðislegu vali sínu á Jose Manuel Durao Barroso í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar, valdamesta embætti ESB, hefur leiðtogaráðið enn og aftur sannað að ESB uppfyllir ekki eigin skilyrði um lýðræðislega stjórnarhætti sem umsóknarríkjum eru sett.

Í ESB búa um 450 milljónir manna. Hvað ætli margir þeirra hafi fyrir tveimur vikum heyrt forsætisráðherra Portúgals, Jose Manuel Durao Barroso, nefndan? Og hvað ætli margir borgara ESB þekki til verka mannsins, fyrir utan íbúa Portúgals sem eru um það bil 10 milljónir? Ástæða þess að á þetta er minnst er sú að leiðtogaráð ESB, sem í sitja ríkisstjórnarleiðtogar allra aðildarríkjanna, hefur, eftir mikinn vandræðagang, ákveðið að tilnefna hann sem næsta forseta framkvæmdastjórnar ESB eftir að núverandi forseti, Romano Prodi, hættir. Þess ber að geta að forseti framkvæmdastjórnar ESB er langvaldamesti maður sambandsins. Vefþjóðviljinn leyfir sér að halda því fram að pínulítill minnihluti borgara ESB hafi nokkurn tíma heyrt á manninn minnst áður en hann var valinn. Ekki hefur verið staðið fyrir mikilli kynningu á honum eða verkum hans undanfarna mánuði, eins og við mætti búast þegar velja á valdamesta mann ríkis eða ríkjalíkis. Leiðtogaráð ESB hefur náðarsamlegast tilkynnt að Jose Manuel Durao Barroso verði næsti forseti framkvæmdastjórnarinnar og í kjölfarið hefur nafn hans birst á síðum dagblaða. Fram að því var hann nánast eingöngu til umræðu í portúgölskum fjölmiðlum.

Aðkoma borgaranna í ESB er enginn. Valdamesti maður ESB er ekki valinn af kjósendum aðildarríkjanna, kosnum fulltrúum þeirra á Evrópuþinginu eða þjóðþingunum. Nei, hann er valinn af örfáum einstaklingum, leiðtogum ríkisstjórna aðildarríkjanna, og er því vegurinn langur fyrir kjósendur vilji þeir refsa eða hampa stjórnmálamönnunum fyrir val sem fellur þeim vel eða illa. Að vísu fær Evrópuþingið að yfirheyra hann, áður en þingið samþykkir hann. Nú þarf nefnilega samþykki þingsins til að tilnefning leiðtogaráðs ESB um forseta framkvæmdastjórnarinnar öðlist gildi. Það er þó nánast óhugsandi að þingið hafni tilnefningu leiðtogaráðsins. Einungis við sérstakar aðstæður mun Evrópuþingið fara í slagsmál við leiðtogaráð ESB. Því er nánast um formsatriði að ræða. Valið á því lítið skylt við lýðræði eins og það þekkist frá flestum vestrænum ríkjum.

Það er rjóminn af pólitískri elítu aðildarríkjanna sem er nánast einráð um það hver gegnir valdamesta embættinu í ESB. Um ákvörðunina og aðdraganda hennar ríkir nánast alger leynd, hún fer fram bak við luktar og læstar dyr í bakherbergjum eftir rifrildi og hrossakaup. Spurningunni um það, hvort besti kosturinn hafi verið valinn, er augljóslega vandsvarað enda hefur almenningur aðeins óljósa hugmynd um milli hverra valið stóð og enn síður er hægt að vera með vangaveltur um það hverjir hefðu gefið kost á sér ef um hefði verið að ræða ferli eins og þekkist í sambærilegu vali í flestum lýðræðisríkjum þar sem menn gefa kost á sér, kynna sig og málefni sín, og eru valdir eða þeim hafnað í lýðræðislegu ferli. Það virðist ekki einu sinni liggja almennilega fyrir af hverju hin pólitíska elíta valdi einmitt Jose Manuel Durao Barroso en ekki einhvern annan. Það er að minnsta kosti eitt best varðveitta leyndarmálið í ferlinu.

Í ljósi þess sem hér hefur verið reifað skal því engan undra að Vefþjóðviljinn endurtekur þá skoðun sína að aðild Íslands að Evrópusambandinu kemur ekki undir nokkrum kringumstæðum til greina eins og málum er háttað. Nokkrir hafa viðrað þá skoðun að nauðsynlegt sé að athuga hvaða samningar náist við ESB um aðild Íslands til að hægt sé að eiga vitrænar rökræður og til að hægt sé að taka skynsamlega ákvörðun um aðild landsins. Nú síðast ályktaði landsþing Sambands ungra framsóknarmanna á þessa leið. Vefþjóðviljinn telur þetta af og frá. Slíkir grundvallarþættir eru í ólagi í sambandinu, þættir sem meðal annars snúa að siðferðilegum, skynsömum og lýðræðislegum stjórnarháttum, að efnahagslega hagkvæmir samningar um aðild landsins geta engan veginn réttlætt aðild Íslands. Fyrst yrði sambandið að breytast í grundvallaratriðum en fátt bendir til að svo fari.