Miðvikudagur 9. júní 2004

161. tbl. 8. árg.

S

Margar ríkisstjórnir allra flokka höfðu í nær tvo áratugi reynt að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Það tókst loks árið 2002. Síðan hefur því af einhverjum ástæðum verið haldið fram, að þetta hafi verið skyndihugdetta núverandi ríkisstjórnar.

tjórnarandstaðan hefur býsna oft haldið því fram að Þjóðhagsstofnun hafi verið lögð niður vegna þess að stofnunin hafi valið að „standa ekki og sitja eins og valdstjórnin vill“ eins og Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar kallaði það í grein í Morgunblaðinu í gær. Þetta hljómar náttúrlega nógu svakalega, „valdstjórnin“ er svo voðaleg að hún tekur sig til fyrirvaralaust og leggur niður stofnanir sem henni eru ekki þóknanlegar í einu og öllu. Þetta Borgarness-sjónarmið á sér þó litla stoð í raunveruleikanum og ef Jóhanna og aðrir Samfylkingarmenn mættu vera að því að kynna sér málið er rétt hugsanlegt að þeim liði illa að halda fram slíkum staðhæfingum. Í þeirri veiku von hyggst Vefþjóðviljinn útskýra aðdraganda þess að Þjóðhagsstofnun var lögð niður.

Árið 1953 var Framkvæmdabanki Íslands stofnaður og má rekja sögu Þjóðhagsstofnunar til hans og þess að efnahagsmálaráðuneyti var stofnað árið 1960, enda gegndu þessar stofnanir svipuðu hlutverki og Þjóðhagsstofnun síðar. Árið 1962 var Efnahagsstofnun svo sett á laggirnar og tók við af hinum tveimur. Líklega ber núverandi „valdstjórn“ einhverja ábyrgð á þessari breytingu, sem vafalaust var liður í aðför hennar að íslenskri alþýðu og lýðræði í landinu. Ekki er að efa að núverandi valdhafar beri einnig ábyrgð á því að Efnahagsstofnun var lögð niður árið 1972 þegar ný stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, tók við hlutverki hennar. Þetta var örugglega hefndarráðstöfun vegna þess að Efnahagsstofnun sýndi núverandi stjórnvöldum ekki næga fylgispekt. Enn var hoggið í sama knérunn tveimur árum síðar, árið 1974, þegar núverandi ríkisstjórn flutti verkefnin yfir til Þjóðhagsstofnunar og hefndi sín þannig á Framkvæmdastofnun.

Þegar Þjóðhagsstofnun hafði starfað í níu ár var samið frumvarp, vafalaust að undirlagi núverandi ríkisstjórnar sem tók við stjórnartaumunum rúmum áratug síðar, um að stór hluti starfsemi Þjóðhagsstofnunar yrði fluttur til forsætisráðuneytisins og annar hluti til Hagstofunnar. Árið 1985 fór frumvarpið fyrir Alþingi, en varð ekki að lögum. Tveimur árum síðar var aftur reynt að leggja Þjóðhagsstofnun niður með ályktun sem samþykkt var á Alþingi. Enn leið ár og þá, árið 1988, voru verkefni flutt frá Þjóðhagsstofnun til fjármálaráðuneytisins. Enginn þarf að efast um að allt þetta var að undirlagi núverandi ríkisstjórnar sem tók við stjórnartaumunum löngu eftir að þessir atburðir áttu sér stað. Og ári síðar var í kjölfar nefndarstarfs á vegum ríkisstjórnarinnar lagt fram frumvarp á Alþingi um Þjóðhagsstofnun og skyld mál. Ef tekist hefði að ljúka umræðum um það, hefði það haft í för með sér að Þjóðhagsstofnun hefði verið lögð niður.

Leikurinn endurtók sig árið 1991- og nú er Vefþjóðviljinn hættur að hafa tölu á því hversu oft var búið að reyna að leggja niður Þjóðhagsstofnun – því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem starfaði árin 1991 til 1995 ætlaði að færa hluta verkefna Þjóðhagsstofnunar til Hagstofunnar og láta hana vinna önnur verkefni í meiri tengslum við forsætisráðuneytið. Ekki tókst, frekar en oft áður, að ná fram þessum breytingum. Jóhanna Sigurðardóttir kannast auðvitað ekkert við þessi áform, enda sat hún í þessari ríkisstjórn og var þess vegna alls ókunnugt um stefnu hennar. Þessi aðför að Þjóðhagsstofnun var þess vegna án vafa einnig á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem tók við af ríkisstjórninni sem Jóhanna átti sæti í. Nokkrum árum síðar, í mars árið 2000, tilkynnti forsætisráðherra að reynt yrði að endurskipuleggja starfsemi Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar. Þessari vinnu lauk svo rúmum tveimur árum síðar með því að um mitt ár 2002 skiptu efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins og Hagstofan með sér verkefnum Þjóðhagsstofnunar, sem þá tókst loks að leggja niður eftir linnulitlar tilraunir nokkurra ríkisstjórna allra flokka í tæpa tvo áratugi.

Þeir sem lesa þessa löngu lýsingu á sögu Þjóðhagsstofnunar og forvera hennar og öllum þeim tilraunum sem gerðar voru til að leggja hana niður, má vera ljóst að það var ekki skyndiákvörðun núverandi ríkisstjórnar að leggja stofnunina niður. Staðreyndin er einfaldlega sú, eins og þingmenn og ríkisstjórnir hafa augljóslega áttað sig á um áratugaskeið, að Þjóðhagsstofnun hafði engu hlutverki að gegna sem réttlætti tilvist hennar.