Miðvikudagur 2. júní 2004

154. tbl. 8. árg.

Ef marka mætti upplýsingar frá fylgjendum þess að reykingar verði með öllu bannaðar á veitingastöðum, þá mætti ætla að fátt væri vænlegra til að fjölga gestum veitingastaðanna en einmitt að banna þar reykingar. Þetta hefur væntanlega komið veitingamönnum í opna skjöldu, enda má gera ráð fyrir að hefðu þeir talið reykingabann svo vinsælt meðal gesta sinna þá hefðu fleiri þeirra tekið upp á því hjálparlaust að banna reykingar, því svo sérkennilegt sem það kann að hljóma í eyrum ákafra stuðningsmanna bannsins þá er veitingamönnum heimilt að banna reykingar. En hvort ætli fylgjendur bannsins haldi þessu nú fram í góðri trú eða gegn betri vitund í því skyni að neyða sjónarmið sín upp á annað fólk? Svarið liggur í augum uppi, en lítum aðeins til reynslunnar á Írlandi.

Nú hafa reykingar verið með öllu bannaðar á veitingastöðum á Írlandi í tvo mánuði og árangurinn lætur ekki á sér standa. Samkvæmt upplýsingum frá samtökum sem 700 krár í Dublin eiga aðild að hafa viðskiptin minnkað um 12% til 15% á þessum tveimur mánuðum og ástandið hefur ekkert batnað með tímanum. Nú má vel vera að fylgjendur bannsins kæri sig kollótta þó að kráarrekstur verði erfiður og fjöldi kráa verði gjaldþrota, en er eðlilegt að menn sem þannig eru gerðir fái að ráða því hvort að krár lifa eða deyja? Og dettur einhverjum í hug að veitingahúsin hér á landi, sem mörg hver berjast í bökkum og sum verða reglulega gjaldþrota, þurfi á því að halda að missa allt að 15% tekna sinna? Vera má að einhverjum sé ósárt þótt veitingahúsunum fækki, en eigendur og gestir veitingahúsanna eru vafalítið ósammála og þeir ættu í friði að fá að ráða því hvort að rekstrargrundvöllur er fyrir veitingahúsunum eða ekki.

Þeir sem eingöngu vilja drekka kaffi eða bjór á reyklausum stöðum geta beint viðskiptum sínum á slíka staði. Séu nægilega margir í raun þeirrar skoðunar að ekki eigi að reykja á veitingastöðum mun slíkum stöðum fjölga. Þannig má leysa þetta „vandamál“ án nokkurrar kúgunar.

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins var frétt um fylgi við ríkisstjórnina og stjórnmálaflokkana og var niðurstaðan eins og við mátti búast eftir þann fréttaflutning sem boðið hefur verið upp á síðustu vikur. Niðurstaðan var þess vegna ekki athyglisverð, en athygli vakti hins vegar að Ríkissjónvarpið kaus að ræða niðurstöðuna við varaþingmann Samfylkingarinnar, en ekki til dæmis formann flokksins, formann þingflokksins eða jafnvel bara óbreyttan þingmann. Og það sem meira er, varaþingmaðurinn hafði ekkert fram að færa sem hvaða þingmaður flokksins sem er hefði ekki getað komið á framfæri. Eða jafnvel bara hver sem er annar, svo lítilfjörleg voru svör varaþingmannsins. En hver skyldi þá ástæðan vera fyrir því að hið hlutlausa Ríkissjónvarp kaus að sniðganga helstu forystumenn flokksins á þingi og ræða þess í stað við varaþingmann flokksins? Það er ekki gott að segja, en varaþingmenn annarra flokka voru í það minnsta ekki leitaðir uppi til að gefa álit á könnuninni. Og einhverjum hefði vafalaust þótt sérkennilegt að sjá Ríkissjónvarpið ræða skoðanakönnunina við Álfheiði Ingadóttur, Steinunni K. Pétursdóttur, Láru Margréti Ragnarsdóttur eða Ísólf Gylfa Pálmason. Líkt og varaþingmaður Samfylkingarinnar hafa þau öll tekið sæti á nýloknu þingi, en þau hafa það að vísu á móti sér að þau eru ekki á námskeiði í London með varaþingmennskunni.