Það birtist margt í Morgunblaðinu, misjafnlega skynsamlegt. Þó það blað flytji vissulega meira af gagnlegum fréttum og fróðleik en mörg önnur, þá ber það öðru hverju einnig furðulegar staðhæfingar inn um lúgur áskrifenda sinna; einkum í aðsendum greinum spekinga utan úr bæ. Þegar efnt er til æsings í þjóðfélaginu út af einhverjum deilumálum, þá ágerist þruglið sem haldið er fram opinberlega, gjarnan án þess að nokkur nenni að mótmæla og reyndar eru hrifnæmir menn stundum þá þegar búnir að kalla höfundana hugsuði og snillinga. Kjörið dæmi um staðhæfingar undanfarinna daga er grein Hans Kristjáns Árnasonar í Morgunblaðinu í dag. Greinin hefst á fróðlegri reynslusögu höfundar:
Kvöldið 13. júní 1985 sat ég á áhorfendapöllum Alþingis og fylgdist með atkvæðagreiðslu þingmanna um ný útvarpslög. Þegar atkvæði voru talin mátti ekki miklu muna, því frumvarpið rétt skreið í gegnum þingið með eins atkvæðis meirihluta.
Þessu sama hélt Hans Kristján fram í kastljóss-þætti Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi og hvorki stjórnandinn né hinn gesturinn, sem nú við að skipuleggja meistaranám í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands, gerðu nokkra minnstu athugasemd. Ekki frekar en venjulega þegar bara einhverju er haldið fram í opinberri umræðu. Útvarpslögin – sem að vísu voru samþykkt með einu atkvæði að Hans Kristjáni Árnasyni ásjáandi – voru samþykkt á Alþingi með 28 atkvæðum gegn 17. Í kastljóss-þættinum hélt Hans Kristján því svo einnig fram að afnám einkaleyfis ríkisins til útvarpssendinga hefði verið „þverpólitískt mál“ og er sú kenning vitaskuld í hæpnara lagi. Það var einn stjórnmálaflokkur sem klofnaði í þrennt í málinu; fjórir þingmenn Framsóknarflokksins studdu frumvarpið, þrír voru á móti en sjö sátu hjá. Enginn annar flokkur riðlaðist milli stuðnings og andstöðu. Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins studdu frumvarpið en enginn þingmaður þeirra flokka sem síðar runnu saman í Samfylkinguna, Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins eða Kvennalistans, studdi það. Fjórir úr þeim hópi sátu hjá en allir hinir voru á móti frjálsu útvarpi. Það er nú þverpólitíkin í því.
Fjórir þingmenn, sem sátu á þingi þegar einokun ríkisins var afnumin, sitja þar enn. Halldór Blöndal er sá eini þeirra sem studdi frjálst útvarp. Hinir, Steingrímur J. Sigfússon, Halldór Ásgrímsson og Jóhanna Sigurðardóttir gerðu það ekki. Ekki fremur en til dæmis Jón Baldvin Hannibalsson sem ungir kratar nútímans halda að hafi innleitt frelsi á Íslandi.
Önnur áhugaverð fullyrðing kom Morgunblaðinu á dögunum. Ólafur Hannibalsson skrifaði þar um forsetakosningar og var þar meðal annars eftirfarandi fróðleikur: „Hingað til hafa kosningar um sitjandi forseta þýtt dræma kosningaþátttöku, svo að jaðrað hefur við þjóðarskömm.“ Hvernig á að skilja þetta? „Hingað til hafa kosningar þýtt…“? Þær hafa þá væntanlega verið þónokkrar? Eða á kannski að skilja þetta svo að einungis einu sinni í sögunni, árið 1988, hafi verið kosið milli sitjandi forseta og annars frambjóðanda og þátttaka þá hafi verið 73 %? Tæplega 127.000 manns hafi gert sér ferð á kjörstað. Eða ætli Ólafur Hannibalsson þekki fleiri dæmi um slíkar kosningar og þá hafi þjóðin orðið sér til skammar með lélegri þátttöku? En á móti kemur, að ef að enginn nema Ólafur vissi af kosningunum þá er ekki von að ekki hafi fleiri en hann mætt á kjörstað og kannski hastarlegt að saka þjóðina um sinnuleysi vegna þeirra kosninga allra.