Föstudagur 21. maí 2004

142. tbl. 8. árg.

Útvarp Saga heldur úti óvenjulegum íþróttaþætti upp úr hádeginu virka daga. Þótt þetta sé íþróttaþáttur þá hika þáttarstjórnendur ekki við að tala íslensku, og það með eðlilegum raddstyrk, sem hingað til hefur ekki þótt gargandi snilld þegar íþróttafréttamenn vinna útsendingarvinnuna sína, svona útsendingarlega séð. Á dögunum var rætt við einhvern landsliðsþjálfarann í þessum þætti og taldi hann mikilvægt að hið opinbera greiddi kostnað við keppnisferðir landsliðsins. Hann bætti jafnframt við að það ætti að vera jafnsjálfsagt að ríkið styðji íþróttalið til keppnisferða og að ríkið greiði listamönnum svonefnd listamannalaun.

Í Örfirisey starfar Tónlistarþróunarmiðstöðin. Aðstandendur hennar eru Daniel Pollock og Gylfi Blöndal. Í miðstöðinni geta hljómsveitir leigt aðstöðu til æfinga sem þurfa þá ekki að hrella viðkvæma borgarbúa með því að hrista bílskúra og hjólageymslur með bassaplokki. Vesturbæjarblaðið, sem borið var í hús sama dag og fyrrnefnt viðtal við landsliðsþjálfarann fór fram, gerði þessari starfsemi nokkur skil og ræddi við þá félaga. Blaðamaður spyr þá meðal annars hvort ekki hafi allt gengið vel. Danny svarar: „Jú, engin stór vandamál nema helst peningaleysi. Sumar hljómsveitirnar, sérstaklega sem yngri krakkarnir eru í hafa hætt því þeir hafa ekki næga peninga til að borga fyrir afnotin af rýminu sínu. Það kostar 25 þúsund á mánuði er í því er innifalin rafmagnsnotkun og vöktun á nóttunni og allt, en það er samt dýrt að vera í hljómsveit. Stofnkostnaðurinn er allt frá 300 og upp í 700 þúsund, og ungir krakkar eiga ekkert svona mikla peninga. Það væri náttúrulega eðlilegast að sjá einhver konar niðurgreiðslu fyrir þetta, eins og gert er í ýmsum öðrum áhugamálum eins og íþróttum og öðru slíku.“ Og Gylfi bætir við: „Ríkið hefur eytt miklum peningum í að byggja upp myndarlega aðstöðu fyrir íþróttafólk út um allt, og að byggja íþróttamiðstöðvar. Það á líka fullkomlega rétt á sér og íþróttir eru holl og góð tómstundariðja. Það sama á við um það sem er að gerast hér í húsinu. Eins og Danny segir, það er ekki verið að leika sér með bolta, heldur hljóðfæri.“

Það er alveg rétt hjá þjálfaranum og tónlistarmönnunum að hið opinbera á ekki að gera upp á milli tómstundastarfs með mismunandi fjárstuðningi. Má Vefþjóðviljinn því leggja til að listastarfsemi og íþróttir fái sama stuðning frá hinu opinbera; engan?