Helgarsprokið 16. maí 2004

137. tbl. 8. árg.

Í nýlegri athyglisverðri bók, The Trouble With Islam, er fjallað um þau vandamál sem fylgja íslam nú um stundir og hvernig vinna megi bug á þeim. Höfundurinn, Irshad Manji, er ung íslömsk kona, eða múslimi, en var svo lánsöm að flytjast með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna á unga aldri og alast þar upp. Hún á ættir að rekja til Suðaustur-Asíu og er fædd í Úganda, en líkt og fjöldi trúbræðra hennar hraktist hún á brott þegar harðstjórinn Idi Amin náði völdum. Hún hefur starfað við fjölmiðla og meðal annars fjallað um múslima og samkynhneigða, en hún er sjálf samkynhneigð. Í bókinni lýsir Manji muninum á ríkjum múslima annars vegar, sérstaklega þar sem rétttrúnaðurinn ríkir, og Vesturlöndum og Ísrael hins vegar, en það kemur ef til vill á óvart að hún telur ástand mannréttinda þar í landi allgott, sér í lagi í samanburði við nágrannaríkin.

„Manji gagnrýnir viðbrögðin við hryðjuverka-árásunum á Bandaríkin 11. september 2001 sem hafi oft falist í því að benda á að allir múslimar séu ekki hryðjuverkamenn. Með þessu séu menn að forðast að fjalla um stóra vandamálið.“

Manji segir vandamálið við múslima-ríkin að verulegu leyti vera skort á umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra og rétttrúnað þar sem tiltekinn hópur múslima – eyðimerkur-múslimar eins og hún kallar þá – hafi náð að þvinga fram vafasama túlkun á Kóraninum. Hún tekur dæmi af því að þegar hún hafi komið til Bandaríkjanna hafi faðir hennar, sem sé múslimi af gamla skólanum en ekki frjálslyndur og hlynntur breytingum eins og hún, fundið út að hægt væri að fá endurgjaldslausa barnapössun í baptistakirkju í nágrenninu og þangað hafi hann sent Manji þegar móðir hennar var að vinna á kvöldin. Þar hafi meðal annars farið fram kennsla í kristinfræðum og Manji segist hafa spurt margs og því hafi öllu verið vel tekið. Þegar faðir hennar sá að hún hafði sýnt kristinfræðináminu áhuga hafi hann hætt að láta passa hana hjá þessum kristna söfnuði en þess í stað farið með hana í múslimaskóla sem var nýbúið að reisa í bænum. Þar var hún hvern laugardag í nokkur ár uns hún á unglingsaldri hraktist á brott. Ástæðan var sú að ólíkt því sem tíðkaðist í kristna skólanum voru spurningar og efasemdir ekki vel séðar í múslimaskólanum, en af bók Manji má sjá að hún hefur alltaf verið spurul, fróðleiksfús og reiðubúin til að efast um viðteknar skoðanir meirihlutans. Þær efasemdir sem á endanum urðu til að hún gat ekki lengur sótt múslimaskólann voru efasemdir hennar um áróðurinn gegn Gyðingum, en þeir voru vægast sagt ekki hátt skrifaðir í kennslustundum múslimanna.

Manji telur sig lánsama að búa á Vesturlöndum en ekki í ríkjum múslima þar sem hún hefði ekki fengið þá menntun og önnur tækifæri sem henni buðust í Bandaríkjunum. Og hún er ánægð að búa í heimshluta þar sem hún hafi frelsi til að hugsa, leita, tala, skiptast á skoðunum, ögra, vera ögrað og endurskoða afstöðu sína. Hún hafi ekki verið knúin til að velja á milli íslam og Vesturlanda, þvert á móti hafi Vesturlönd gert henni kleift að velja íslam, þó að hún efist reyndar enn um það val sitt. Manji vill breyta þjóðfélögum múslima og losna við rétttrúnaðinn sem þar ræður ríkjum. Hún segir hann hættulegan og auk þess ranga túlkun á Kóraninum. Ekki verður farið út í þá sálma hér né útskýringar á sögulegum ástæðum þessarar röngu túlkunar og þeirrar kreddu sem múslimar lifa eftir í dag, en um þetta hvort tveggja fjallar Manji. Hún skrifar bók sína sem bréf til annarra múslima og vill að þeir taki sig á, færi sig inn í nútímann og hafni kreddunum, en hún er einnig þeirrar skoðunar að þeir sem eru annarrar trúar eigi að lýsa efasemdum sínum um þjóðfélög múslima. Manji gagnrýnir viðbrögðin við hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin 11. september 2001 sem hafi oft falist í því að benda á að ekki séu allir múslimar hryðjuverkamenn. Með þessu séu menn að forðast að fjalla um stóra vandamálið. Hún spyr hvort að Mohamed Atta, leiðtogi hryðjuverkahópsins sem stýrði flugvélunum á turnana tvo í New York, hefði ef til vill ekki verið reiðubúinn til slíks verks hefði hann fengið annars konar trúarbragðafræðslu en þá einstrengingslegu túlkun Kóransins sem múslimum sé boðið upp á.

Tveir múslimar sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum rétttrúnaðarins. Irshad Manji og Salman Rushdie.

Vegna þess áróðurs gegn Ísrael sem haldið er að múslimum – og öðrum einnig – fjallar Manji talsvert um þetta ríki og segir meðal annars frá kynnisferð sem henni bauðst að fara þangað. Þar kom henni ýmislegt á óvart, til að mynda að arabíska væri opinbert tungumál í landinu. Hverjum hefði dottið það í hug, spyr hún. Og hún nefnir einnig að í Ísrael sé málfrelsi tryggt og að þar fari meira að segja fram umræður um það hvort landið eigi að vera áfram ríki Gyðinga eða hvort aðskilja eigi ríki og trú með öllu. Og hún lýsir harðri gagnrýni helstu fjölmiðla á stjórnvöld og stefnu þeirra, sem sé býsna frábrugðið því sem þekkist meðal nágrannaríkjanna. Hún nefnir til að mynda dæmi um að sjónvarpsstöðin Al-Jazeera hafi verið rekin út úr nokkrum múslimaríkjanna fyrir óæskilegan fréttaflutning. Og enn eitt sem vekur athygli hennar og undrun er að ísraelskir hermenn skuli vera látnir læra um trúarbrögð og hefðir annarra og að jafnvel hermönnum og yfirmönnum í hernum líðist að gagnrýna stefnu stjórnvalda í varnarmálum. Þegar hún fer yfir á Vesturbakkann er henni sagt að það sem Palestínumenn þurfi sé réttarríki eins og í Ísrael og henni er sagt að samkvæmt skoðanakönnunum sé Ísraelsríki það lýðræðisríki sem Palestínumenn vilji helst taka sér til fyrirmyndar. Það er ekki að undra, því að í Ísrael eru nokkrir arabískir stjórnmálaflokkar og minnihluti Araba í landinu, um fimmtungur landsmanna, hefur kosningarétt eins og aðrir borgarar. Það er nokkuð sem þeir fara á mis við í flestum ríkjum í nágrenninu. Umburðarlyndið í Ísrael gagnvart skoðunum annarra er jafnvel svo mikið að sögn Manji, að hæstiréttur landsins hefur heimilað tveimur arabískum stjórnmálaflokkum að bjóða fram, þrátt fyrir að áður hefði verið reynt að meina flokkunum þátttöku í kosningum þar sem þeir styddu hryðjuverk gegn Ísrael. Manji bendir einnig á að Ísrael hafi ekki einungis tekið við hundruðum þúsunda Gyðinga sem Arabaríkin í nágrenninu hafi rekið úr landi, heldur einnig um 100.000 Palestínumönnum til að leyfa þeim að sameinast fjölskyldum sínum í Ísrael. Nágrannaríkin hafi hins vegar ekki verið fús til að taka við palestínskum flóttamönnum og hafi meira að segja hrakið þá úr landi. En þegar kemur að ríkisborgararétti þá er það engu að síður svo, segir Manji, að Ísrael mismunar. Hún segir að Ísrael beiti jákvæðri mismunun í þágu tiltekins minnihluta sem hafi þurft að þola sögulegt ranglæti. Þeir vinstri menn sem gjarnan gagnrýni Ísrael ættu að vera mjög hlynntir þessu, segir hún. En hún bendir á að þrátt fyrir mismununina gæti hún, músliminn, fengið ríkisborgararétt í Ísrael.

Bók Irshad Manji kemur á óvart, ekki síður en margt í Ísrael hefur komið Manji á óvart. Menn eiga því ekki að venjast að múslimar – eða aðrir ef út í það er farið – stígi fram og gagnrýni það hvernig kennisetning íslam er túlkuð. Og menn eiga því alls ekki að venjast að múslimi gagnrýni múslimsku Arabaríkin harðlega en fjalli með jákvæðum hætti um Vesturlönd og jafnvel Ísrael. Þetta gerir bókina áhugaverða, en einnig það hvernig sagnfræði, trúarbragðafræði og persónulegri reynslu er fléttað saman í nokkurs konar sendibréf til annarra múslima. Manji heldur í þá von að hægt verði að opna fyrir umræður um iðkun íslam og að bæði trúarbrögðin og ríkin sem á þeim byggja muni taka jákvæðum breytingum og koma út úr myrkum miðöldum og inn í nútímann. Á vef Manji má kynna sér skoðanir hennar nánar.