Föstudagur 14. maí 2004

135. tbl. 8. árg.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa lengi haft með sér félag er þeir nefna Vörð, og það eflaust verið þeim geysihaglegt félag. Meðal starfa félagsins hefur lengi verið að standa fyrir skemmtiferð flokksmanna upp í sveit, svonefndum Varðarferðum. Aðrir en sjálfstæðismenn hafa væntanlega haft minna gagn af þessu félagi, en þó kom það einum slíkum eitt sinn til hjálpar. Því var nefnilega einu sinni haldið fram við Jóhann S. Hannesson, þann mæta skólamann og hagyrðing, að honum myndi reynast ómögulegt að ríma við orðið „jarðarför“. Hann var fljótur að afsanna það:

Í veglegri Önundarfjarðarför
eins flokksbrotsins, svonefndri Varðarför,
féll aurskriða á hóp
af afturhaldsglóp-
um, og það þurfti enga jarðarför.

Limrur geta verið sniðugar og eru það raunar oftar en siðugar. Fleiri bragarhættir geta verið skemmtilegir og ein útgáfa er stundum nefnd slitruháttur, en þar eru orð tekin í sundur og verður vísan þá oft undarleg tilsýndar. Stefán Jónsson, fréttamaður og þingmaður Alþýðubandalagsins, faðir hins óumdeilda læknis, Kára, orti stundum undir þessu lagi. Í kosningunum árið 1978 fór fylgi Framsóknar niður úr öllu valdi og eftir að þau úrslit lágu fyrir, settust Alþýðubandalagsmenn niður og mátu stöðuna. Var þar deilt um hvort setjast skyldi í stjórn með hinum hrunda Framsóknarflokki en Lúðvík Jósepsson flokksformaður mælti gegn því. Stefán sagði um það:

Fram- er sóknar liðið lík
luk- er tur sá kjaftur.
Lúð- mun ekki vilja vík
vek- það ja upp aftur.

Menn eru alltaf að reyna að minnka opinber útgjöld til heilbrigðismála og það hefur gengið svo vel að þau hafa aukist frá ári til árs, þrátt fyrir að flestir fréttatímar séu fullir af staðhæfingum um hið gagnstæða. Um tíma var sú trú uppi að Sighvatur Björgvinsson, sem þá var heilbrigðisráðherra, væri grimmur niðurskurðarmaður og um hann orti Árni Johnsen:

Hefði ‘hann sér í höndum ljá
höggva mundi glaður
alla menn sem þrautir þjá.
Þetta er vitlaus maður.

Steingrímur J. Sigfússon er prýðilega hagmæltur þó ekki jafnist hann á við Jóhannes bróður sinn. Hann benti strax á að þarna væru stjórnarliðar teknir að deila, en á þessum tíma sat ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks:

Innan búðar er þar stríð
og að því get ég hlegið
að Árni Johnsen yrkir níð
um hann Sighvat greyið.

Sighvatur getur sjálfur ort. Þegar Jón Baldvin Hannibalsson fór til samningsgerðar vegna evrópska efnahagssvæðisins bar hann hatt nokkurn og varð hinn virðulegasti. Nokkru eftir að samningurinn var í höfn voru Jón Baldvin og Bryndís kona hans heiðursgestir á herrakvöldi norður í landi. Lauk borðhaldi á uppboði til styrktar þarfamálum í sveitinni og lagði Jón hattinn fram til uppboðsins og bauð einnig falan einn dans við konu sína. Sighvatur orti í orðastað formanns síns:

Ógnarstuð er á mér núna,
yfirbragðið glæst.
Ég seldi hattinn, síðan frúna,
svo sel ég landið næst.

Séra Hjálmar Jónsson, sem á sinni tíð var hagmæltastur þingmanna, sagði um sama uppboð:

Til að forða fjárhagstjóni
flest var leyft.
Ofan af og undan Jóni
allt var keypt.

Utanþingsmenn yrkja ekki síðri stjórnmálavísur en þeir sem slysast inn á þing. Jón Thor Haraldsson sagnfræðingur var ákaflega hagmæltur en beindi sjónum sínum reyndar oftar að göllum manna en kostum. Árið 1987 var efnt til formannskjörs í Alþýðubandalaginu og buðu sig fram þau Sigríður Stefánsdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri og Ólafur Ragnar Grímsson sem þá var varaþingmaður flokksins. Jón Thor fór og kaus, en var greinilega ekki spenntur:

Af fornri tryggð ég fer og kýs
í flokksins tignarsæti,
en að eiga að velja um gæs og grís
eru grátleg fíflalæti.

Blaðið hefur kannski verið á óvenjulegum nótum í dag. En dagurinn í dag er auðvitað nokkuð sérstakur. Í dag gengur í hjónaband ríkisarfi hinnar fornu sambandsþjóðar Íslendinga og í ljósi hinnar löngu sameiginlegu sögu er sjálfsagt að gera eitthvað til hátíðarbrigða. Danir flagga í dag því sem danskt er og hvað eiga Íslendingar íslenskara en ferskeytluna og ljóðstafasetninguna? Og hvað ætti blað eins og Vefþjóðviljinn þá frekar að fjalla um en vísur um stjórnmál og stjórnmálamenn? Ætli ekki fari best á því að ljúka þessari umfjöllun á limru sem blaðið rak augun í nú í vikunni og þarfnast tæplega skýringa:

Hver einasti fjölmiðill fjallar
um forsetans heimsreisur allar:
Hann forðum á tíðum
var fjarri á skíðum
en fer heim þegar Baugurinn kallar.

En yfir í allt aðra sálma. Í dag á afmæli forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Vef-Þjóðviljinn óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi.