Ágætu blaða- og fréttamenn. Mig langar að bjóða ykkur öll velkomin hingað á látlaust en þó virðulegt heimili mitt og þakka ykkur fyrir að bregðast svona skjótt við. Sérstaklega þakka ég þeim ágætu mönnum sem sáu til þess að þessum litla fundi er útvarpað beint, en það er algert nýmæli um fundi sem þessa og er okkur öllum í raun mjög dýrmætt, ekki síst þar sem mér er kunnugt um að slíkt verður ekki endurtekið. En já, til þessa fundar er boðað vegna þess að, eins og þið vitið, þá gerðist það síðastliðið haust að ég lét af formannsembætti í Alþýðubandalaginu og hef síðan verið heldur áhrifalítill stjórnarandstöðuþingmaður og í sjálfu sér ekkert sem hefur bent til að það gæti breyst með neinum afgerandi hætti. Fréttatími eftir fréttatíma líður nú hjá án þess að leitað sé eftir afstöðu minni til manna og málefna og efast ég ekki um að það sé íslenskri þjóð sama áhyggjuefni og mér og í raun meira. Verst er þetta þó fyrir stöðu mína innan íslenskrar vinstrihreyfingar en þar beinast kastljósin nú iðulega að mönnum sem minna hafa við þau að gera en ég; eru kannski ekki að starfa nema í sínum öðrum eða þriðja stjórnmálaflokki, og því ekki sama sameiningartákn vinstrimanna og ég óneitanlega er, eins og Svanur hefur bent á í grein í Þjóðlífi. Þessi staða er ekki góð, eins og allir sjá, en sem betur fer hafa nokkrir vel gerðir menn komið auga á leik sem kynni að ráða bót á þessu leiðinlega vandamáli. Einar Karl tók eftir því um daginn að viðtölunum við Ellert var farið að fjölga óvenjulega mikið, jafnvel miðað við árstíma, og þegar Svanur fór að skoða þetta þá sá hann að það er að losna embætti sem skiptir okkur ekki það miklu máli að við séum ekki til í að nota það sem props í litlu leikriti. Hún Vigdís er loksins að hætta sem forseti í sumar og það er ekki búið að ráða í djobbið svo hérna við erum búnir að ákveða að segja öllum að ég hafi hug á því, hafi hug á því. Hm. Ég get sagt frá því hér að Einar Karl sagði við mig um daginn að forsetaframboð væri sniðug hugmynd að endurkomuleið fyrir mig í pólitíkina og auk þess góð leið til til að halda saman því fólki sem hefur áhuga á því að sameina vinstri menn, og ég held að það geti verið rétt hjá honum. Mörður er líka sama sinnis. Það hefur því verið ákveðið að ég verði með í kosningasjóinu nú í vor og sumar – þeir segja strákarnir að ég verði bara að láta mig hafa það þessa þrjá mánuði – og sem frambjóðandi, ha hvað segirðu?, fyrirgefiði augnablik, já einmitt, sem meðframbjóðandi meðframbjóðenda minna get ég fengið til mín fjölda fólks sem heldur að það sé að fara á fund með forsetaefni; ég verð meira að segja boðinn velkominn á vinnustaðafundi í þeim fyrirtækjum sem ég hef hingað til aðallega beitt mér gegn, þetta verður allt í raun mjög skemmtilegt og ekki minni félagsleg upplifun en undirskrift BHMR-samninganna var á sínum tíma. Þannig get ég breytt um ímynd eins og ég er reyndar þegar farinn að gera eins og þið hafið kannski tekið eftir. Ekki það? Hafiði kannski ekki tekið eftir því að ég er búinn að lækka í mér róminn um áttund? Ekki? En gaman. En hvað um það, næstu vikurnar er það ykkar hlutverk kæru fréttamenn að gefa þá mynd af mér að ég sé í raun varfærinn og víðsýnn statesman á alþjóðamælikvarða með sambönd um allan heim. Mér þætti reyndar vænt um að þið færuð ekkert nákvæmlega yfir það hver þau sambönd hafa verið, enda skiptir það ekki svo miklu máli í breyttu þjóðfélagi tuttugustuogfyrstu aldarinnar. Aðalverkefnið er að næstu vikurnar skilji eftir þá mynd í huga fólks að nú sé loksins kominn fram maður sem ólík öfl geti með einum eða öðrum hætti sameinast um í væntanlegum sameinuðum vinstriflokki. Ég veit að slíkur flokkur er mörgum ykkar ekki minna kappsmál en mér, þó þið hafið kannski ekki eins skýra hugmynd og ég um það hver eigi að leiða þann flokk. En það er bara betra. Áður en þið farið heim nú á eftir, þá mun Gunnar Steinn dreifa til ykkar nýjum myndum af mér og endurskoðuðu æviágripi þar sem ýmsar villur eru hraktar með svo skýrum hætti að ekki þarf annað að segja um fortíð mína. Ég treysti því að þið látið alveg vera sjálfir að segja nokkuð um hana og ef einhver annar verður til þess, þá væri mér í raun dýrmætt að þið fjölluðuð ekki efnislega um það sem þar kæmi fram en hugsuðuð um það eitt hverjir væru að tala og hvers vegna. Þegar þessari vitleysu er lokið undir lok júní þá hef ég náð fyrri styrk og jafnvel meiri og þá tökum við upp þráðinn að nýju. En þangað til, þá verður þessi nýi Ólafur að duga ykkur en ég efast ekki um að hann mun venjast eins vel og hinir. Ég þakka ykkur kærlega fyrir komuna, en nú þarf ég að fara út í símaklefa að skipta um föt. |
– Ávarp Ólafs Ragnars Grímssonar á blaðamannafundi 28. mars 1996. |
ÍMorgunblaðinu dagsettu í dag sunnudag var fjallað um forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar fyrrvernandi fjármálaráðherra og aðdraganda þess að Ólafur var kjörinn forseti. Kom þar meðal annars fram að framboð hans var hugsað sem liður í pólitískri leikfléttu til að styrkja stöðu hans á kostnað keppinauta Ólafs innan þess sameinaða vinstriflokks sem menn héldu að væri í burðarliðnum. Í Morgunblaðinu ef haft eftir Einari Karli Haraldssyni, núverandi varaþingmanni Samfylkingarinnar, að hann, Svanur Kristjánsson og Mörður Árnason hafi með forsetaframboði séð „grundvöll undir nýja innkomu í stjórnmálin“ og þeir nefnt við Ólaf að „kannski væri sniðugt, þegar hann hefði stigið til hliðar og fengið vissa fjarlægð á sig, að fara að huga að framhaldinu“ og bætir Einar Karl því við að framboð til forseta hafi verið talin „góð leið til að halda saman því fólki sem hafði áhuga á að sameina vinstri menn. Við litum svo á að Ólafur Ragnar hlyti að verða einn af burðarásunum í þeirri framtíðarsýn. Og sjálfur leit hann á það sem sitt hlutverk.“
Það er bara þannig. Maðurinn ætlaði sér ekkert að verða forseti, varðaði ekkert um forsetaembættið. Þetta var bara liður í einhverju innanflokksleikriti. Og fólkið, til dæmis eldra fólkið um landið sem klæddi sig uppá til að fara á fund hjá forsetaefni, eða fólkið sem á kjördag mætti í sparifötunum og kaus manninn sem kvöldið áður hafði látið bera heim til þess stóra litmynd af sjálfum sér og eiginkonu sinni, hvað ætli það hefði hugsað ef það hefði vitað að frambjóðandinn hefði ekki meiri tilfinningu fyrir forsetaembættinu en svo að hann sæi ekkert að því að nota framboð til þess sem tól í valdabaráttu sinni við einhverja menn í Alþýðubandalaginu?
Og þeir sem gagnrýna þennan mann, svo eru þeir sakaðir um að „sýna forsetaembættinu óvirðingu“.