S vo einkennilega vill til að á vef Alþýðusambands Íslands er í dag birt fyrsta maí ávarp alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga. Enn einkennilegra er þó að á þessum sama vef er birt fyrsta maí ávarp frá fulltrúaráði ófrjálsu verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Þessi ófrjálsu verkalýðsfélög og fleiri munu að vanda þramma niður í miðbæ eftir hádegi í dag með alls kyns kröfugerðir en þó aðallega af gömlum vana. Og ef til vill líka til að tryggja að frídagurinn haldi, því að einhverjum þykir sjálfsagt lítið gagn í að gefa frí á fyrsta maí nema til að menn geti farið í hópi niður í bæ og hlustað að því loknu á gamlar og löngu innihaldslausar tuggur á Ingólfstorgi.
Verkalýðsfélögin telja sér fátt óviðkomandi og forsvarsmenn þeirra tjá sig iðulega um mál sem fáum öðrum en þeim sem hafa lengi haft lífsviðurværi sitt af verkalýðsrekstri dettur í hug að geti tengst starfsemi verkalýðsfélaga. Verkalýðsfélög, sér í lagi það sem er undir forystu þingmanns vinstri grænna, eiga það jafnvel til að fá hingað til lands erlenda gesti til að fjalla um hin og þessi mál sem í engu tengjast kjarabaráttu launamanna, en þeim mun meira pólitískri baráttu verkalýðsrekendanna. Þessi félög fjalla um svo fjölbreytt svið mála að þegar ályktanir þeirra eru lesnar er ekki nokkur leið að greina mun á milli þeirra annars vegar og ályktana vinstri grænna eða gamalla ályktana Alþýðubandalagsins hins vegar. Ekkert bendir til að þessi félög séu eingöngu að vinna að hagsmunum félagsmannanna en ekki að almennri stjórnmálabaráttu verkalýðsrekendanna.
En þrátt fyrir að þessi félög láti sig allt varða milli himins og jarðar, hvort sem það eru alþjóðamál, efnahagsmál, umhverfismál, mannréttindamál eða hvað annað, þá er eitt mál sem þeim þykir of ómerkilegt til að gera að umtalsefni. Þetta mál er þó þess eðlis að það snertir félagsmenn þeirra með beinum hætti og kostar þá jafnvel talsverð fjárútlát um hver mánaðamót, ólíkt flestum hinna málanna sem tengjast félagsmönnunum ekki umfram það sem þau tengjast öðrum mönnum. Umrætt mál er vitaskuld frjáls aðild að félögum og sá sjálfsagði réttur manna að þurfa ekki að vera í félagi, þar með talið að þurfa ekki að greiða félagsgjöld til félags sem menn hafa ekki óskað inngöngu í. Hin ófrjálsu íslensku verkalýðsfélög telja sér sæmandi að taka verulegar fjárhæðir af hverjum launamanni hvort sem honum líkar betur eða verr. Og á sama tíma reyna verkalýðsrekendurnir, sem lifa af þessum nauðungargjöldum, að gera sig gildandi með því að fjalla um hin og þessi mál sem koma þeim sem greiðir til félagsins ekkert við umfram aðra menn. Heilög barátta verkalýðsrekendanna fyrir málum af ýmsu tagi hljómar einkennilega þegar þeir gefa ekkert fyrir grundvallarréttindi þeirra sem eru neyddir til að greiða launin þeirra.