Föstudagur 30. apríl 2004

121. tbl. 8. árg.

F

Blaðamaðurinn Carrie Bradshaw mundar lykaborðið á þann hátt sem væri bannað að gera fyrir einn áhorfanda í Reykjavík.  Í gærkvöldi upplýsti íslenska ríkið með sjónvarpsútsendingu til þegna sinna að Carrie hefði flutt til Parísar. Hefði nokkur einkarekin stöð sinnt því  menningar- og öryggishlutverki?

yrir tveimur árum tæpum gerðist það að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í broddi fylkingar, ákvað með einfaldri breytingu á lögreglusamþykkt Reykjavíkur að gera fólki óheimilt að starfa við svokallaðan einkadans á skemmtistöðum borgarinnar. Kippti þetta í einni skyndingu rekstrargrundvellinum undan sumum þessara staða og olli öðrum verulegum búsifjum. Mikill fjöldi fólks hafði lífsviðurværi sitt af þessari starfsemi og varð nú af þeim möguleika. Ýmsir höfðu fjárfest í veitingastöðum sem skyndilega urðu nær verðlausir. Þessari aðgerð Reykjavíkurborgar var hins vegar fagnað víða; fjölmiðlamenn og vinstri sinnaðir stjórnmálamenn réðu sér vart fyrir fögnuði og fáir tóku undir með veitingahúsaeigendum eða starfsfólki þeirra sem urðu skyndilega fyrir verulegu tjóni.

Einn aðili sem þetta blað þekkir til leyfði sér að mótmæla þessari framgöngu borgaryfirvalda, mótmæla því þegar dómsmálaráðherra staðfesti hina nýju lögreglusamþykkt og loks að rífa kjaft við Hæstarétt þegar rétturinn staðfesti svo allt saman í fyrra. Það verður hins vegar að segjast eins og er, að þeir voru ekki sérstaklega margir sem tóku undir það sjónarmið að atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár stæðu í vegi fyrir aðgerð eins og þarna fór fram. Það voru engar þingræður haldnar eða stóryrðaleiðarar skrifaðir um að regla eins og þessi mætti ekki taka til þeirra sem hefðu „hafið starfsemi í góðri trú eftir gildandi reglum“. Engin hóf rógsherferð á hendur neinum sem barðist fyrir breyttri lögreglusamþykkt. Það sagði enginn orð um það að veitingahúsaeigendur gætu átt „bótarétt“ vegna tapaðra tekna, hagnaðarmissis eða nokkurs slíks. Ekki nokkur maður, nema kannski einhver vefrit sem enginn tekur mark á, sá ástæðu til þess að tala um atvinnufrelsi, inngrip í atvinnurekstur, skaðabætur eða neitt. Enginn af þeim sem nú öskrar sig hásan yfir væntanlegu fjölmiðlafrumvarpi sá neitt í principinu að banninu við einkadansi.

Að vísu er það svo, að á þessu tvennu er talsverður munur, en hann er í þá átt að ætti að mæla með því að menn mótmæltu mun frekar einkadansbanninu en fjölmiðlafrumvarpinu. Fyrir tveimur árum var eitt tiltekið atriði rauður þráður í gagnrýni Vefþjóðviljans á einkadansbannið. Það er það lykilatriði atvinnufrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar, að ekki verði lögð bönd á atvinnufrelsi manna nema lagaheimild komi til Vefþjóðviljinn leit og lítur svo á, að sveitarstjórn hafi ekki heimild til að skerða atvinnufrelsi með þeim hætti sem gert var þegar fólki var bannað að stunda einkadans. Hitt er svo allt annað, að löggjafanum er það heimilt ef hann telur almannaheill kalla á það. Menn gætu verið ósamþykkir slíku banni – og það væri Vefþjóðviljinn – en löggjafanum væri það fyllilega heimilt hvort sem Vefþjóðviljanum eða öðrum líkar það betur eða verr. Einkadansbannið, sem sveitarstjórnir lögðu á við mikinn fögnuð, er svo þar að auki mun yfirgripsmeira en fjölmiðlafrumvarpið mun vera á sínu sviði; það er að segja, lögreglusamþykktin bannar öllum að sinna eða standa fyrir þessu starfi en fjölmiðlafrumvarpinu er ætlað að setja svokölluðum markaðsráðandi fyrirtækjum stól fyrir dyrnar, auk nokkurra annarra samkeppnisreglna eins og flestir munu þekkja. Það er einfaldlega þannig að þeir sem í raun eru af principástæðum á móti fjölmiðlafrumvarpinu, þeir hefðu átt að láta enn hærra yfir einkadansbanninu. Það bannið var ýtarlegra og ekki sett með lögum heldur samþykkt sveitarstjórnar. En flestir þeirra sem nú eru við vitfirringarmörk vegna fjölmiðlafrumvarpsins voru hæstánægðir fyrir tveimur árum og töldu það ekki vonum fyrr sem þessi fjárans einkadans væri bannaður.

Nú segir kannski einhver að ekki sé hægt að líkja þessum tveimur starfsgreinum saman, einkadans sé engin starfsgrein, bara einhver sóðaskapur ef ekki glæpur. Það væri hins vegar algerlega óframbærileg afstaða. Það vill meira að segja svo til, að löggjafinn hefur sérstaklega tekið af öll tvímæli um það atriði, hvað sem hver segir. Til eru lög sem bera númerið 67/1985, „lög um veitinga- og gististaði“. Í 9. grein laganna er fjallað um flokkun veitingastaða og eru mismunandi flokkar taldir upp í mörgum liðum. Fyrir nokkrum árum bætti löggjafinn nokkrum flokkum sérstaklega inn á þennan lista, og meðal annars kom þá inn ný tegund veitingastaða: „Næturklúbbur. Veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og sýningu á nektardansi í atvinnuskyni.“ Alþingi hefur þannig tekið af tvímæli um það að nektardans er atvinnugrein sem heimilt er að stunda á svokölluðum næturklúbbum. Sveitarstjórnir landsins, einkum þær sem eru undir stjórn Samfylkingarinnar og svipaðra flokka, hafa hins vegar reynt að koma þessum löglegu veitingahúsum á kné með einföldum samþykktum í sveitarstjórn, og því hafa fagnað fjölmargir þeir sem skyndilega reyna að telja fólki trú um að andstaða þeirra við lög um samkeppnisreglur á fjölmiðlamarkaði snúist í raun um princip og atvinnufrelsi en ekki einhverjar aðrar ástæður.