Fimmtudagur 29. apríl 2004

120. tbl. 8. árg.

Í

Úr viðtali Pressunnar við Jóhannes Jónsson kaupmann í Bónus 10. janúar 1991.

gær var lagt fram á Alþingi frumvarp til breytingar á samkeppnislögum og útvarpslögum. Eins og hér var rakið í allítarlegu máli í fyrradag og svo oft áður er Vefþjóðviljinn andvígur öllum hugmyndum um að ríkið geti gert samkeppni á frjálsum markaði betri, eða „virkari“ eins og það er víst kallað, með einhvers konar handleiðslu „samkeppnisyfirvalda“. Svonefnd samkeppnislög hafa frá upphafi verið mörkuð af sérhagsmunagæslu. Bæði einstakar atvinnugreinar, fyrirtæki, starfsstéttir eða stjórnmálamenn hafa nýtt lögin til að berja á keppinautum sínum. Innlendir framleiðendur hafa notað þau til að verjast „undirboðum“ frá erlendum keppinautum. Það sama gera þeir sem fyrir eru á markaði gagnvart nýjum aðilum sem koma inn með lægra verð. Nýir aðilar saka þá sem fyrir eru um okur, samráð og/eða undirboð eftir því hvernig vindar blása. Litlir framleiðendur og kaupmenn nota þau til að lemja á þeim sem hafa stækkað. Menn eru jafnvel hættir að auglýsa, senda bara inn kvörtun eða kæru til Samkeppnisstofnunar til að vekja á sér athygli og fá ókeypis auglýsingu í fréttatímum. Stjórnmálamenn nýta þess lög óspart til að afla sér vinsælda með því að þykjast vera að taka á „hringamyndun“, „samþjöppun“ og „auðsöfnun“. Að sjálfsögðu ná blessuð samkeppnislögin ekki til geira eins  landbúnaðar eða íþrótta- og menningarstarfsemi þar sem allt er vaðandi í ríkisstyrkjum og öðrum hömlum á samkeppni.

Það er auðvitað bara mannlegt að hugsa sterkum keppinautum þegjandi þörfina. Það þarf ekki einu sinni að vera einhver sem þú hefur tapað stórkostlega fyrir heldur bara einhver sem er stærri en þú. Í viðtali við Friðrik Þór Guðmundsson sem birtist í Pressunni 10. janúar 1991 vandar Jóhannes Jónsson kaupmaður í Bónus Hagkaupum ekki kveðjuna og segir Haugkaup „stórhættulegt bákn“.  Hann bætir svo við að engu fyrirtæki sé hollt að hafa yfir 10% markaðshlutdeild en þá hafði Bónus þegar náð um 7% hlutdeild eftir tæplega tveggja ára starf. Bónus hafði því, þegar viðtalið var tekið, gengið mjög vel frá upphafi en engu að síður hugsaði Jóhannes á þeim nótum að það væri ekki æskilegt að einhver væri mikið stærri en Bónus. Hann var eins og svo margir aðrir fastur í þeirri hugsun að kaupmenn geti bundið neytendur á bás. Þó hafði hann fyrir augunum daglega að margir neytendur voru að flytja matarinnkaup sín til Bónuss frá Hagkaupum og öðrum verslunum.

Eins og menn þekkja fór verslunarkeðja Jóhannesar síðar langt yfir 10% meðal annars með því að kaupa hið stórhættulega bákn og er enn stærsta keðjan, um tíma undir nafni Baugs en nú sem Hagar. Væntanlega hefur Jóhannes skipt um skoðun á æskilegri markaðshlutdeild fyrirtækja; að minnsta kosti hefur hann unnið markvisst að því að auka umsvif fyrirtækja sinna og það skilað þessum glæsilega árangri. Vefþjóðviljinn hefur ekkert við það að athuga og er ósammála þeim Jóhannesi sem talaði árið 1991. Að minnsta kosti er Vefþjóðviljinn þeirrar skoðunar, að svo lengi sem aðgangur að starfsgrein er frjáls, öllum heimilað að keppa við þá sem fyrir eru, þá sé ekkert við því að segja þó einn verði stærri en annar. Það er eftir allt helsti kostur hins frjálsa markaðar að það eru neytendur sem eiga síðasta orðið. Þeir sem vilja setja bönd á stærð eða umsvif fyrirtækja vilja taka völdin af neytendum.

Eins og blaðið hefur oft sagt þá er ekkert við það að athuga að þeir, sem vilja ekki að einn gnæfi yfir aðra, beini þá bara viðskiptum sínum til hinna smærri, versli við „kaupmanninn á horninu“ eins og sagt er. Það eru neytendur sem gera fyrirtæki stór með því að taka ákvörðun um að skipta við þau. Þeir hafa þetta allt í hendi sér. Það sem Vefþjóðviljinn hefur hins vegar alltaf verið andvígur eru opinberar aðgerðir; samkeppnislög, samkeppnisstofnun. Af þeirri ástæðu er blaðið andvígt því að hið opinbera setji samkeppnisreglur á fjölmiðlamarkaði eins og nú er ætlunin. Vitanlega hafa aðrir rétt til að hafa aðra skoðun á slíku og þeir sem, öfugt við Vefþjóðviljann, styðja samkeppnisstofnun og samkeppnislög, þeir eru líklegir til að styðja væntanlegar fjölmiðlareglur.