Miðvikudagur 28. apríl 2004

119. tbl. 8. árg.

B

Einn af kostum valfrelsis og ávísanakerfis í skólamálum er að það bætir opinberu skólana og gagnast þannig einnig þeim sem ekki fara í einkaskólana.

regðast skólar hins opinbera með jákvæðum hætti við samkeppni frá einkaskólum þegar valfrelsi er aukið í skólamálum með ávísanakerfi? Batnar árangur nemenda þegar þeir fara í einkaskóla? Fá einkaskólar til sín betri nemendur en opinberir skólar? Að sögn Caroline M. Hoxby, prófessors við Harvard-háskóla eru þetta meðal algengustu spurninga um valfrelsi í skólamálum og um þær fjallar hún í nýlegri grein í Sænska hagfræðiritinu, Swedish Economic Policy Review. Með ávísanakerfi er átt við að hið opinbera greiðir fyrir menntun nemenda, en nemendur þurfa ekki að fara í opinberan skóla, heldur geta þeir valið sér skóla, hvort sem er í opinberum rekstri eða einkarekstri. Talsverð reynsla er komin á slíkt kerfi í Bandaríkjunum og á því byggir Hoxby rannsóknir sínar.

Fyrstu spurningunni svarar Hoxby játandi; opinberir skólar batni þegar þeir standi frammi fyrir þeirri samkeppni sem verði til við að taka upp ávísanakerfi. Hún segir að samkvæmt kenningu stuðningsmanna valfrelsis í skólamálum muni þeir skólar sem ekki standa sig missa nemendur til hinna með þeirri afleiðingu annaðhvort að verri skólarnir hverfi eða að þeir batni. Gögn sýni, að gæði opinberu skólanna að teknu tilliti til fjármagns, geti aukist um 50% til 69%. Óhætt er að segja að þessar tölur gefi tilefni til bjartsýni um að árangur megi auka verulega án aukinna útgjalda, ef frelsi og samkeppni fá að njóta sín á þessu sviði.

Önnur spurningin, það er að segja um það hvort árangur batni hjá nemendum sem fari í einkaskóla, segir Hoxby að sé óheppileg af að minnsta kosti tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að ekki eigi að spyrja um árangur án tillits til fjármagns sem sett sé í námið og hins vegar vegna þess að gögnin sýni að valfrelsi í skólamálum bæti þá opinberu skóla sem verði að keppa við einkaskóla undir ávísanakerfi. En þrátt fyrir að spurningin sé gölluð kýs Hoxby að svara henni og hún segir að gögnin sýni að árangur hins almenna nemanda batni við að fara í einkaskóla.

Þriðja spurningin tengist spurningu númer tvö og snýst um það hvort að einkaskólar fái til sín betri nemendur en hinir skólarnir, og þar með hvort að það skýri ef til vill betri árangur. Hoxby segir að raunin sé sú að einkaskólarnir laði ekki til sín betri nemendurna. Ef eitthvað sé fái þessir skólar hlutfallslega mikið af nemendum sem séu álitnir síður eftirsóknarverðir eða eigi í erfiðleikum í námi.