Þ að er ekki ónýtt að hafa harðsnúinn minnihluta í borgarstjórn sem veitir vinstri meirihlutanum markvisst aðhald frá hægri. Dæmi um harðfylgni borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins má til að mynda finna í því að þeir hafa spurt meirihlutann um það hvort einhver áform séu uppi um breytingar á störfum íþróttafulltrúa einstakra íþróttafélaga eða stuðningi borgarinnar við þá starfsemi. Þar sem borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ættu að teljast heldur til hægri við fulltrúa R-listans hefði mátt ætla að þeir væru með spurningunni að þrýsta á um að þær breytingar yrðu gerðar á störfum íþróttafulltrúa að borgin hætti stuðningi sínum við þá. Svo var þó aldeilis ekki.
Í svari R-listamanna kom fram að fyrir þremur árum hefðu verið gerðir samningar við þrjú íþróttafélög vegna tilraunaverkefna með ráðningu íþróttafulltrúa hjá félögunum. Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar styrkti félögin en þau réðu í staðinn hina svokölluðu íþróttafulltrúa. Nú hefðu borist umsóknir frá átta íþróttafélögum um styrk af sama tilefni, en áætlaður rekstrarkostnaður vegna þessa væri ekki í fjárhagsramma Íþrótta- og tómstundaráðs, hvorki fyrir árið í ár né áætlanir næstu ára. Fyrir lægi að tryggja þyrfti auknar fjárveitingar í fjárhagsramma 2005 ef hægt ætti að vera að verða við óskum allra félaganna.
Harðlínumennirnir á hægri vængnum voru ekki sáttir við þessa afstöðu meirihlutans, sögðu reynsluna af störfum íþróttafulltrúanna góða og ítrekuðu þá skoðun sína að það væri „forgangsmál“ að tryggt yrði að íþróttafulltrúar störfuðu hjá íþróttafélögunum í borginni. Það segir meira en mörg orð um minnihlutann í borgarstjórn ef afstaða hans er sú, að það sé forgangsmál að knýja R-listann til að auka útgjöld og skuldir borgarinnar með því að borgin greiði kostnað af íþróttafulltrúum fyrir íþróttafélögin.