Fimmtudagur 29. janúar 2004

29. tbl. 8. árg.

Þ

Þingmenn mættu misjafnlega ferskir til leiks í gær, en höfðu þó margir verið allt of vinnusamir í jólafríinu.

að fór eins og Vefþjóðviljinn óttaðist, þingmenn og ráðherrar sátu ekki auðum höndum í jólafríinu langa. Ef marka má vef Alþingis voru ekki færri en 48 ný þingskjöl lögð fram á fyrsta starfsdegi þingsins eftir jól og þar af ýmis sem benda til þess að þingmenn hefðu betur legið lengur á meltunni. Þingskjölin eru að vísu ekki öll til marks um mikið puð þingmanna að undanförnu, sum eru sennilega frekar til marks um að þingmenn óttast að kjósendur séu farnir að gleyma nöfnunum þeirra. Eða ef til vill frekar að sumir hópar kjósenda séu ekki alveg nógu sannfærðir um að þingmennirnir séu að vinna að sérhagsmunum þeirra. Einn þeirra þingmanna sem ekki vill falla í gleymsku eða lenda í ónáð hjá ákveðnum sérhagsmunahópi er Mörður Árnason þingmaður Samfylkingarinnar. Hann hefur í jólafríinu sett saman nokkrar spurningar til ráðherra og ein þeirra er svohljóðandi: „Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við stækkun gömlu stúkunnar við þjóðarleikvanginn í Laugardal?“ Spurningin er eins og aðrar slíkar að því leyti að hún lætur lítið yfir sér og virðist bara vera almenn fyrirspurn, forvitni eða jafnvel örlítil hnýsni, en málið er ekki alveg svo einfalt eða svo gott. Tilgangur Marðar er að kreista út úr ráðherranum loforð um aukin ríkisútgjöld og fyrir það á hann litlar þakkir skildar.

Önnur fyrirspurn sem hér skal nefnd er frá samflokksmanni Marðar úr Þjóðvaka, Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún lagði fram fyrirspurn í sama tilgangi, þ.e. að vekja á sér athygli og auka ríkisútgjöld. Jóhanna spyr í þremur liðum, sem of langt mál er að rekja hér, en ganga í sem stystu máli út á að fá fram hvort nægu fé sé eytt til að „takast á við sívaxandi ofbeldi í fíkniefnaheiminum“. Lausn Jóhönnu er sem sagt samhljóða lausn allt of margra í þessum efnum, nefnilega að eyða meira skattfé og auka löggæslu til að takast á við fíkniefnabrot og afleiðingar þeirra. Gallinn er hins vegar sá, og því hefði verið ágætt fyrir þingmenn að velta fyrir sér í jólafríinu, að lausnin á fíkniefnavandanum hefur hingað til ekki falist í auknum útgjöldum eða aukinni löggæslu. Og það sem meira er, vandinn mun ekki leysast með þeim hætti. Þetta sýnir reynslan, bæði hér á landi og erlendis. Framboð fíkniefna verður alltaf nægt þegar eftirspurnin er fyrir hendi, því að afleiðingin af hertri löggæslu er hærra verð efnanna og þar með meiri ávinningur þeirra sem eru tilbúnir til að brjóta lögin. Og önnur afleiðing er að þeir sem sækjast eftir efnunum verða að stela og ræna til að standa undir hækkandi verði með aukinni löggæslu. Þar með verða almennir borgarar sem ekkert hafa til saka unnið annað en að eiga geislaspilara í bílnum sínum eða fartölvu á heimilinu sínu, að fórnarlömbum fíkniefnanna.

Mikill munur væri ef þingmenn kæmu aðeins ferskari til starfa að loknu leyfi og hefðu einhverjar nýjar lausnir á gömlum vandamálum í stað þess að tyggja gamlar lummur í leit að athygli og atkvæðum.