Helgarsprokið 25. janúar 2004

25. tbl. 8. árg.

A lþingi kemur saman að nýju að loknu jólaleyfi næstkomandi miðvikudag. Verða þá liðnar rúmar sex vikur frá því haustþingi lauk og er þetta hlé á þingfundum orðið eitt hið lengsta á síðari árum. Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna þetta meinta starfsleysi þingsins og hafa ýmsir fjölmiðlamenn, stjórnmálamenn og aðrir komið fram opinberlega til að lýsa megnustu hneykslun á því að þingmenn skuli skammta sjálfum sér jólafrí, sem er lengra en sumarleyfi æði margra launþega á almennum vinnumarkaði. Umræður af þessu tagi eru auðvitað ekki nýjar af nálinni, en gagnrýni á jólaleyfi þingsins hefur raunar verið árvisst umfjöllunarefni sumra fjölmiðla í landinu lengur en elstu menn muna.

„Í ljósi þessa ætti það að vera mikið hagsmunamál fyrir hinn almenna borgara og skattgreiðanda í landinu að hafa þingið sem lengst í fríi.“

Margt er skondið við umræður af þessu tagi. Fyrst má nefna, að það er óneitanlega broslegt þegar þingmenn, sem lítið sem ekkert kveður að á þingi, hvorki í umræðum né flutningi þingmála, koma fram til að hneykslast á því hve jólaleyfið sé langt. Þingmenn af því tagi virðast bíða óþreyjufullir eftir því að fundir hefjist að nýju í Alþingishúsinu þannig að þeir geti ótrauðir haldið áfram að mæta ekki á þingfundi, taka ekki þátt í umræðum og láta það ógert að flytja þingmál.

Í annan stað vekur það athygli, að jafnt ágætlega upplýstir blaðamenn sem sumir stjórnmálamenn með margra ára reynslu skuli standa í þeirri trú, að eina hlutverk þingmannna sé að mæta á fundi í þinginu og taka þar þátt í umræðum, og að þeir hljóti þar af leiðandi að vera í fríi alla þá daga ársins sem ekki eru notaðir til fundarhalda á Alþingi. Nú er það svo að þingmenn eins og aðrir eru afar misduglegir. Vafalaust eru ýmsir í þeirra hópi sem nota hvert tækifæri til að komast til Kanaríeyja eða í skíðafrí, milli þess sem þeir liggja á meltunni heima sér eða skrifa á spjallþræði á síðkvöldum. Aðrir reyna að nýta tímann milli þingfunda til að undirbúa flutning eigin þingmála, kynna sér málefni sem til umfjöllunar eru í þeim nefndum sem þeir eiga sæti í, hitta kjósendur í kjördæmum sínum og svo má lengi telja. Þingmenn stjórna því með öðrum orðum sjálfir hvort þeir nýta þennan tíma vel eða illa og þurfa síðan við lok kjörtímabilsins að standa kjósendum skil á því hvort þeir náðu einhverjum árangri eða ekki. Þingmenn sem nýta tíma sinn óskynsamlega ættu almennt séð að standa höllum fæti þegar kemur til kosninga.

Í þriðja lagi byggir hneykslun margra á löngu jólafríi þingmanna á þeim grundvallarmisskilningi, að það hljóti að vera þjóðinni fyrir bestu að þingmenn vinni sem mest og þingið sé sem lengst að störfum. Samkvæmt því ætti það að vera í þjóðarhag að þingmenn settu sem flest lög og reglur og hefðu þannig með beinum hætti sem mest áhrif á daglegt líf landsmanna allra. Þessu er auðvitað þveröfugt farið. Lagasetning á Alþingi er því miður miklu oftar til þess fallin að skerða frelsi borgaranna með einhverjum hætti heldur en að auka það. Lagasetning um atvinnulífið leiðir miklu oftar til þess að svigrúm þess minnkar og möguleikar til að auka verðmæti skerðast. Ný lög fela oftar í sér aukningu ríkisútgjalda heldur en sparnað og ráðdeild hjá ríkinu og skapa þannig frekar tilefni til aukningar álaga á borgarana heldur en til skattalækkana.

Í ljósi þessa ætti það að vera mikið hagsmunamál fyrir hinn almenna borgara og skattgreiðanda í landinu að hafa þingið sem lengst í fríi. Þar með væri með ákveðnum hætti dregið úr hættunni á óskynsamlegri lagasetningu og auknum umsvifum hins opinbera. Það má jafnvel segja að það sé ódýrara fyrir landsmenn að hafa þingmenn á launum við að gera ekki neitt heldur en að eiga það á hættu að fá yfir sig ný lög með aukinni reglubyrði og tilheyrandi útgjöldum hins opinbera.