Ég er ósjaldan spurður hvernig ég geti haldið svona lengi áfram að skrifa þætti sem þessa. Því er auðsvarað og fljótsvarað. Aðeins vegna þess að svo margir skrifa mér og hringja til mín, leggja mér lið og uppörva mig. Annars væri þátturinn löngu dauður. Sumir eru svo brennandi í andanum, svo trúir vökumenn á verðinum, að ég hlýt að leggja mig fram og láta ekki deigan síga. |
– Gísli Jónsson, „Íslenskt mál“, 216. þáttur, Morgunblaðinu 5. nóvember 1983. |
Þakklátur var Gísli Jónsson lesendum sínum og baráttubræðrum þegar hann setti saman íslenskuþátt sinn í tvöhundraðogsextánda sinn. Sennilega hefur þakklæti hans svo fremur aukist en hitt, því áður en yfir lauk urðu þættirnir ellefu hundruð þrjátíu og átta, birtust vikulega í Morgunblaðinu frá maí 1979 til desember 2001 og ein mesta prýði þess. Gísla var ákaflega annt um íslenskt mál, talaði það betur en flestir; skilningurinn á tungu, stíl og brag með fádæmum, einstaklega minnugur og fróður. Maður eins og Gísli Jónsson myndi hafa verið flestum líklegri til að ná að standa hjálparlaust vakt eins og þá sem hann stóð í Morgunblaðinu í nær aldarfjórðung, en sjálfur þakkaði hann það ekki sjálfum sér heldur lesendum sínum og hvatningarorðum þeirra. Og því skyldu það ekki hafa verið maklegar þakkir? Að minnsta kosti er Vefþjóðviljanum ljúft að meðganga að sínu leyti að bréf lesenda til blaðsins, hlýjar kveðjur sem kaldar, hafa hvatt blaðið áfram og minnt það á nauðsyn útgáfunnar. Mjög er maklegt að öllum þessum lesendum séu færðar þakkir fyrir, en því er ekki að neita að þeir eru blaðinu ofarlega í huga í dag, en í dag eru sjö ár liðin frá því útgáfa Vefþjóðviljans hófst.
Já, Vefþjóðviljinn þakkar þeim lesendum sem séð hafa af nokkrum orðum til blaðsins, hvort sem það hefur verið til að mæla á einhvern hátt hlýlega til blaðsins, ræða efni þess eða koma því á framfæri hvar aðstandendur þess yrðu best geymdir. Jafnframt er blaðið þakklátt þeim lesendum sem hafa séð ástæðu til að létta því lífið með litlu fjárframlagi, en eins og nefnt hefur verið einhvern tíma áður er allur kostnaður við útgáfuna og önnur tiltæki útgefandans borgaður af slíkum peningum. Þessir lesendur eiga sinn þátt í tilveru Vefþjóðviljans og vill blaðið koma sérstökum þökkum til þessa fólks sem blaðið hefur fæst augum litið eða heyrt getið að öðru leyti en þessu, og hefur í raun enga sönnun fyrir að sé til. Jafnframt býður blaðið fram þakklæti sitt til þeirra sem kunna að vilja bætast í þennan hóp og leyfir sér að vekja kurteislega athygli á því að hægt er að gera slíkar ráðstafanir með því að smella á orðin „frjálst framlag“ hér til vinstri.
En sjö ár eru sem sagt liðin frá því að útgáfa Vefþjóðviljans hófst. Eitt og annað mun hafa breyst í veröldinni á þeim tíma og þótt skemmri væri. Hér heima hefur fjölmargt færst í frjálsræðisátt þó víst hefði Vefþjóðviljinn þegið að sú ferð hefði verið hraðari og útúrdúrafærri; en ef horft er á mál af sanngirni þá blasir þó við að opinber stórfyrirtæki hafa verið einkavædd og skattar lækkaðir töluvert, bæði á fólk og fyrirtæki. Engin ástæða er til að vanþakka slík og önnur framfaraskref sem stigin hafa verið, iðulega reyndar við litla hrifningu stjórnarandstöðunnar, en gjarnan má minnast þess, svo dæmi sé tekið, að ekki var við það komandi að einkavæða ríkisbankana á meðan hinn frjálslyndi jafnaðarmannaflokkur Jóns Baldvins Hannibalssonar sat í ríkisstjórn. Þó stjórnarandstaðan, og þá ekki síst sá hluti hennar sem kallar sig „frjálslynda jafnaðarmenn“ á fjögurra ára fresti þegar hann fer á grímuball, kunni utan bókar margar ræður um nútímann og frjálslyndið þá er það oftast svo að þegar til kastanna kemur verður henni um megn að styðja breytingar sem miða að því að færa mál í frjálsræðisátt.
Vefþjóðviljinn hefur frá öndverðu talað máli þeirra viðhorfa að auka beri áhrif borgarans á eigið líf. Blaðið hefur jafnan talið að stjórnvöld eigi að stilla sig sem mest um að reyna að stjórna lífi hins almenna manns og hvetur þá ekki aðeins til þess að fólki verði almennt leyft að taka réttar ákvarðanir um eigin mál, heldur líka rangar. Sumt fólk tekur ákvarðanir sem það sjálft en næstum engir aðrir telja réttar. Einn reykir eins og strompur. Annar borðar óholla fæðu og ekkert annað. Sá þriðji hættir námi og snýr sér að því einu að finna sinn innri mann. Fjórði eyðir hverjum eyri um leið og hann getur og helst fyrr. Maður kvænist léttúðardrós, blindaður á allt nema inndælt útlit hennar. Stúlka tekur saman við mann sem hún sjálf heldur að sé æði en flestir í kringum hana sjá að er í raun sosum ekki neitt neitt nema helst ímynd og umbúðir. Vefþjóðviljinn hefur alla sína daga viljað að hið opinbera sjái þetta fólk í friði. En með því er ekki sagt að blaðið telji ákvarðanir eins og þessar vera skynsamlega eða virðingarverða notkun á einu lífi. Það er bara allt annað mál; fólk á enga heimtingu á því að öðrum þyki það vera að velja rétt. En virðing fyrir öðru fólki felst ekki í því að leyfa því að taka þær ákvarðnir sem menn eru sjálfir samþykkir, heldur öllu fremur í því að banna því ekki að taka þær ákvarðnir sem mönnum þykja jafnvel allt upp í grátlega rangar.
Vefþjóðviljinn þykist vera við það sama heygarðshorn og hann hefur verið öll sín sjö ár og hefur engin áform um að koma sér á skárri stað. Blaðið mun halda áfram að tala máli frjálslyndis gegn stjórnlyndi eftir því sem hyggjuvit þess hrekkur til og að þessu sögðu þarf ekki frekari málalengingar að sinni um ritstjórnarstefnu blaðsins. Nær að tala um eitthvað annað og nýta sér þá kannski það að afmælisbarn hefur jafnvel enn meira rúm en aðrir til að gera og segja það eitt sem því sýnist. Jæja þá. Í upphafi var minnst á Gísla Jónsson menntaskólakennara og hann er ekki óverðugra umræðuefni en margt annað. Gísli var ekki aðeins einn þekktasti íslenskumaður landsins, í Morgunblaði sem Akureyrarskóla, heldur starfaði hann töluvert að stjórnmálum; sat í bæjarstjórn Akureyrar um tæplega þrjátíu ára skeið og um tíma á Alþingi. Gísli hafði sem ungur maður meðal annars verið þingskrifari á þeim örlagadegi, 30. mars 1949, þegar Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu undir grjótkasti kommúnista af Austurvelli. Sá atburður hafði talsverð áhrif á Gísla sem jafnan síðan var eindreginn baráttumaður í sveit þeirra sem efla vildu og standa vörð um varnarviðbúnað lýðræðisríkjanna. Lagði hann oft hönd á plóg í þeirri baráttu, baráttu sem er eitt af því marga sem leiðinlega fáir meta að verðleikum nú á tímum. En fyrst og síðast var Gísli maður íslenskrar tungu og óþreytandi að ráðleggja og leiðbeina þeim sem slíkt vildu þiggja. Og hann var ljómandi skáld sjálfur, þó hann otaði því lítt að öðrum. Kannski að Vefþjóðviljinn ljúki eigin afmæli á dæmi af því og mætti þá alveg eins vera í viðurkenningarskyni við alla þá ágætu menn sem ekki bregðast þegar góður málstaður þarf nokkurs við. Vel veit blaðið að þetta kemur stjórnmálum hversdagsins lítið við en það verður að hafa það. Og þeir sem ekki kunna að meta svonalagað; vildu þeir kannski vera svo vænir að gera betur sjálfir?
Aspirnar stand’ allar ennþá svo skínandi gular,
æðrulausar og skynja í ró að það kular.
Brátt fæst sú hvíld sem þeim náttúran leyfir að neyta
og næsta vor skulu þær laufhaddi grænum sig skreyta.
Þær bera ekki ugg, enda augljós hin geiglausa myndin,
en öðrum mun finnast sem haustljóð sé komið í vindinn
og vita eins og skáldið að villusamt reynist á vegi
og vonlaust að skrúði, sem horfinn er, nýskapast megi.
En hver sem um ævina einhverju hafði að skarta,
á þó á haustdegi þakklæti ríkast í hjarta.
Sem lauf mun hann hóglega í húmkyrru falla til svarðar
í hlýju þess faðmlags sem ól hann til skapandi jarðar.
|