Gamlársdagur og nýársdagur eru í sjálfu sér ekki öðru vísi en aðrir dagar. Jarðarbúar hafa þó valið sér – margir hverjir að minnsta kosti – að líta svo á að á mótum þessara daga hefjist ný hringferð og þá sé gott að gera upp þá gömlu og setja sér markmið um þá nýju. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, ritar eins og venja er áramótagrein í miðopnu Morgunblaðsins, þar sem hann lítur yfir farinn veg og horfir um leið fram á við. Hann kemur að þessu sinni inn á kosningabaráttuna síðast liðið vor, meðal annars þau loforð sem flestir flokkar gáfu um skattalækkanir á yfirstandandi kjörtímabili. Það hlýtur að vera áhugamönnum um skattalækkanir ánægjuefni að lesa þann hluta greinarinnar þar sem Davíð fjallar um þessi mál, en þar segir hann að þar sem stjórnarflokkarnir hafi haldið velli sé ljóst að við skattalækkunaráformin verið staðið og að við lok kjörtímabilsins verði skattaumhverfið orðið gjörbreytt. Og hann heldur áfram og rekur það sem gert hefur verið og hvernig umhorfs verður í lok kjörtímabilsins:
Þá ætti að sjást að svokallaður hátekjuskattur er horfinn, eignaskattur er horfinn, matarskattur er aðeins þriðjungur þess sem hann fór hæst (var 24,5% verður 7%), erfðafjárskattur hefur verið lækkaður um helming (og stundum raunar meira) og tekjuskattsprósenta um allt að fjögur prósentustig. Ef við er bætt þeim breytingum sem áður hafa verið gerðar á sköttum fyrirtækja, sem komnir eru úr 50% í 18%, verður ekki ofmælt að segja að bylting til hins betra hafi orðið í íslenskum skattamálum á einum áratug. Tekjuskattar og útsvar sem í upphafi þessa tímabils fóru hæst í 47% verða þá 34% og hefur hlutdeild sveitarfélaganna í þeirri prósentu vaxið en ríkisins minnkað. Það er ánægjuefni að fært skuli vera að hrinda slíkum breytingum í framkvæmd án þess að stefna stöðu ríkissjóðs í óefni. Þvert á móti. Skuldir hans minnka, lánstraust eykst og vaxtakostnaður ríkissjóðs dregst hratt saman af báðum ástæðum. |
Morgunblaðið innti aðra forystumenn stjórnmálaflokka á Alþingi einnig álits á helstu atburðum liðins árs og hvers þeir væntu af þessu ári. Blaðið ræddi við Halldór Ásgrímsson, formann Framsóknarflokksins, sem minnist ánægjulegra ferða til Úganda, Mósambík og Íran. Þá átti hann á nýliðnu ári eftirminnileg samtöl við Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og George Robertson, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, og er með ólíkindum að Halldór skyldi koma öllu þessu í verk á aðeins einu ári.
„Stórsigur“ Samfylkingarinnar var að mati núverandi formanns flokksins, Össurar Skarphéðinssonar, það sem hæst bar á árinu, en sem kunnugt er leiddi sá stórsigur til þess að flokkurinn situr enn utan ríkisstjórnar og forsætisráðherraefni flokksins hvarf til náms erlendis. Össur telur landsfund Samfylkingarinnar, sem haldinn var síðast liðið haust, hafa verið „mikilvægt kennileiti í pólitísku landslagi ársins“ og hann hafi einkennst af „[m]ikilli eindrægni og ótrúlegu fjölmenni“. Fjölmennið var vissulega ótrúlegt, því í kosningum á fundinum tóku þátt mun færri en í kosningum á þingum ungra sjálfstæðismanna, svo eitt dæmi sé tekið úr hinu pólitíska landslagi. Og eindrægnin á landsfundinum var slík, að nauðsynlegt þótti að gera allt sem hægt var til að koma í veg fyrir að kosið yrði milli tveggja arma flokksins um formann framkvæmdastjórnar hans. Armur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur vildi halda Stefáni Jóni Hafstein sem formanni framkvæmdastjórnar, en armur Össurar vildi skipta og koma Margréti Frímannsdóttur að. Á bak við tjöldin – í „bakfylltum reykherbergjum“ eins og varaþingmaður Samfylkingarinnar, Eiríkur Bergmann Einarsson, mundi orða það – var framboð Margrétar stöðvað á síðustu stundu þar sem formaður flokksins laut í lægra haldi í þeirri „miklu eindrægni“ sem ríkti á fundinum.
Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, segir Morgunblaðinu að það hafi verið vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi halda velli eftir kosningarnar í fyrra, og verður þetta að teljast mjög óvænt yfirlýsing hjá Magnúsi Þór. Hann segir flokkinn hafa átt í vandræðum á árinu, til dæmis hafi mál Gunnars Örlygssonar þingmanns verið erfitt, en að „það hafi náð farsælum endi“, og þar á Magnús Þór væntanlega við að Gunnari var sleppt út aftur. Annað hefur að minnsta kosti varla verið mjög farsælt við það mál fyrir Frjálslynda flokkinn. Varaformaður Frjálslynda flokksins segir að „reynsluboltar“ og „pólitískir klækjarefir“ á Alþingi hafi í upphafi platað þingmenn Frjálslynda flokksins til stuðnings við eftirlaunafrumvarpið. Hann segir að þeir verði að passa sig mjög mikið á Alþingi og kennir reynsluleysi þeirra um að þeir studdu í upphafi og skrifuðu upp á frumvarp sem þeir hafi í raun verið á móti. Já, það má með sanni segja að Alþingi er erfiður vinnustaður. Þar virðast menn jafnvel þurfa að gæta sín sérstaklega svo þeir lýsi ekki yfir stuðningi við mál sem þeir vilja ekki greiða atkvæði með. Hvernig eiga nýliðar að átta sig á þessum flóknu vinnubrögðum þingsins?
Loks ræddi Morgunblaðið við Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sem er samur við sig. Hann andmælir hugmyndum um lækkun skatta, sem hann orðar þannig að verið sé að „afsala ríkissjóði tugi milljarða í tekjur“. Þarna kemur fram hin hefðbundna hugsun vinstri manna, að ríkið eigi allt sem hinn almenni maður aflar og það sem hann heldur eftir hafi ríkið „afsalað sér“. Eins og við er að búast er þetta talsvert ólík hugsun þeirri sem fram kom í áramótaávarpi forsætisráðherra í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Þar ítrekaði hann það sem komið hafði fram í Morgunblaðinu og nefnt var hér í upphafi um fyrirhugaðar skattalækkanir á kjörtímabilinu. Hann sagði að stærri hluti þess hagvaxtar sem fyrirsjáanlegur væri ætti að „renna beint til fólksins í landinu án millilendingar í ríkissjóði“. „Því er með öðrum orðum trúað, að fólk fari ekki endilega verr með fjármuni sína en þeir forystumenn sem það kýs á fjögurra ára fresti til að sinna löggjafarstörfum fyrir sína hönd. Í mínum huga er enginn vafi á, að það traust er á gildum rökum reist,“ sagði Davíð Oddsson. Þetta er auðvitað lykilatriði í allri umræðu um skattamál, en vill því miður stundum gleymast þegar alls kyns sérfræðingar finna út með ýmsum aðferðum að betur fari á því að ríkið taki fjármuni fólks en að það haldi þeim fyrir sig. Það sem ræður úrslitum um hvort skattalækkanir ná fram að ganga er annars vegar hvort þeir sem ákvarðanir taka trúi því að fólk fari betur með sitt eigið fé en ríkið mundi gera, og hins vegar hvort þeir þori að halda fram þessari skoðun sinni og berjast fyrir henni.