Those who cannot stomach Bush the man might at least show respect for his office: the leadership of a free country which has twice sent its servicemen to their deaths in our defence. Not that the concept of respect will cut much ice with the anarchist tendency, which has more on its agenda than Iraq. The protests are being organised by the same networks responsible for the anti-globalisation riots of the past few years. Theirs is a protest against America in general, and indeed, against anything deemed to be powerful: capitalism, Western governments, democracy itself. President Bush embodies everything they detest about the modern world. For them, and for much of the Left, reasoned assessment about George W. Bush’s presidency has become impossible. |
– The Spectator, 15. nóvember |
Vladimir Pútin og félagar hafa aldeilis látið Tétsenana finna til tevatnsins. Uppreisn þeirra hefur verið bæld niður, almennir borgarar fallið í valinn og grænu húsin þeirra jöfnuð við jörðu. Forseti Rússlands tekur fast á þeim sem hann telur ógna ríki sínu. En Pútín sinnir fleiru en þessu og gerir sér eitt og annað til dægrastyttingar. Fyrir nokkrum mánuðum brá hann sér þannig yfir til Englands, sérstakur gestur drottningar sem þjóðhöfðingi Rússlands. Nokkrum árum áður hafði Róbert Mugabe, forseti þess lands er nú er kallað Zimbabve og áður Ródesía, tekið sér stutt hlé frá ofsóknum sínum gegn hvítu fólki í landinu til að heimsækja Bretland sem gestur drottningar. Þar áður hafði Daniel arap Moi, forseti Kenýu brugðið sér úr spillingunni heima fyrir til að heimsækja Bretland og drottningu þess. Engar þessara heimsókna kölluðu á nein sérstök mótmæli enda kannski fáir á Vesturlöndum sem hafa þessa herramenn og þeirra tiltæki, góð og slæm, á heilanum. En nú er annar þjóðhöfðingi gestkomandi í höllu drottningar. Ákafamenn og aktívistar hvaðanæva að úr Evrópu og jafnvel víðar hafa síðustu daga flykkst til Bretlands til að láta villuljósin skína og fjölmiðlar keppast við að spá „Bretlandsmeti í mótmælum í miðri viku“, nú þegar forseti Bandaríkjanna kemur í fyrsta sinn til Bretlands sem þjóðhöfðingi en ekki sem oddviti ríkisstjórnar.
Ekki eru þó allir fjölmiðlar jafn hrifnir af hinum verðandi mótmælendum. Hið indæla tímarit sem hér var vitnað til, The Spectator, hefur það eftir leiðtoga „Regnhlífarsamtaka gegn Íraksstríði“ að forseti Bandaríkjanna sé „óvelkomnasti gestur í sögu landsins“ og bætir tímaritið því við frá eigin brjósti að í huga þessa manns hafi víkingar níundu aldar greinilega verið meiri aufúsugestir. En það er nú svo mörgu haldið fram og ekki aðeins því að Saddam Hussein hafi ráðið yfir gereyðingarvopnum. Á mánudaginn sagði breska blaðið The Independent þannig frá því að hin virta breska stofnun Medact hefði nú komist að því að allt í allt hefðu á bilinu 7.800 til 9.600 óbreyttir borgarar fallið vegna átakanna. Þetta þykir líklega fáum gott en þeir geta þá huggað sig við það að sama stofnun fullyrti fyrir stríð að á fyrstu þremur mánuðum átaka myndu 260.000 borgarar falla, 200.000 verða fórnarlömb farsótta og hungurs og 20.000 í því borgarastríði sem myndi fylgja. Og ef einhver nennti að fara yfir fullyrðingarnar sem birtust í evrópskum fjölmiðlum vikurnar fram að stríði og fyrstu augnablik þess, þá sæi hann þar linnulitlar fullyrðingar um mörghundruðþúsundmanna mannfall að viðbættri nær ólýsanlegri eymd fyrir þá sem eftir stæðu. Ef marka má málflutning þessara afla þá hefur stríðið að minnsta kosti tekist mun betur en þeir héldu. En þess sér að vísu engan stað í orðum þeirra eða gjörðum nú. Þeir láta bara eins og allt hafi farið eins og þeir höfðu alltaf sagt. Sama er að segja um innrásina í Afganistan. Hún átti nú aldeilis að verða nýtt Indókína. Margra mánaða, ef ekki ára hjá sumum, barátta með gríðarlegu mannfalli á báða bóga. Og allir „sérfræðingarnir í málefnum Mið-Austurlanda“ sem vissu fyrir víst að „milljarður araba mun rísa upp ef ráðist verður inn í Afganistan“ eru sennilega enn í neðanjarðarbyrgjum sínum.
Ekki heyrist oft frá þessum öflum að vera kunni að þeir hafi líka haft að einhverju leyti rangt fyrir sér um Afganistan. Ekkert sem bendir til þess að þeir telji að heimurinn sé skárri staður eftir að ríkisstjórn Talebana hætti að vera opinbert skjól hryðjuverkasamtaka. Ekki frekar en nokkuð bendir til þess að þessum öflum þyki sem nokkuð hafi batnað í heiminum við það að Saddam Hussein hafi verið komið frá völdum. Nei, þessi öfl virðast bara forherðast með tímanum. Þau eru meira að segja sum hver farin að halda því fram að innrásin í Afganistan hafi verið „tilefnislaus“. Það lá nú bara fyrir að stórhættuleg hryðjuverkasamtök sem beina spjótum sínum að saklausum vestrænum borgurum gerðu út frá Afganistan með vitund og vilja stjórnvalda þar. Stjórnvalda sem neituðu að gera nokkuð til að taka fyrir þá starfsemi. Og menn telja það bara „tilefnislaust“ þegar slíkri stjórn er komið frá völdum. En ekkert af þessu kemur nokkurn tíma fram hjá friðarsinnum, nú þegar þeir fara um og velta bílum, brjóta rúður og brenna myndir af George Bush. Enginn hefur að vísu séð þessa friðarsinna fara um og mótmæla herskáum andstæðingum Vesturlanda. Ekki frekar en „friðarhreyfingar“ níunda áratugarins, þessar sem marseruðu um evrópskar stórborgir, sáust mótmæla öðru en vörnum Vesturlanda.