Mánudagur 3. nóvember 2003

307. tbl. 7. árg.

Þetta var víst alveg nýtt fyrir henni. Að minnsta kosti sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í gær að það væri „skrýtin tilfinning að vera orðin varaformaður með engu greiddu atkvæði“, og frá þessari nýju reynslu hennar sögðu fréttamenn eins og ekkert væri sjálfsagðara. Reyndar virðist litlu skipta hverju Ingibjörg Sólrún heldur fram, aldrei virðast íslenskir fjölmiðlamenn sjá neitt athugavert. Engum virtist detta í hug að gera athugasemd við þetta, fremur en annað sem Ingibjörg Sólrún slær fram. Enginn veltir því fyrir sér hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé ekki einmitt sá stjórnmálamaður sem þrívegis hefur látið velja sig borgarstjóraefni og sest í baráttusæti R-listans án þess að fara í prófkjör eins og aðrir frambjóðendur listans þurfa að gera. Og ekki fremur en áður ræður nokkur einasti fréttamaður við að stynja upp úr sér þeirri spurningu hvaða aðili það hafi verið sem gerði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að „forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar“ síðast liðið vor. Ekki var það landsfundur, flokksstjórn eða þingflokkur. Fékk hún þá vegtyllu ekki líka með engu greiddu atkvæði? Já og fimmta sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, sæti sem hefði sem hægast getað orðið þingsæti, ekki fékk Ingibjörg Sólrún Gísladóttir það í prófkjöri. Fékk hún það ekki eins og annað „með engu greiddu atkvæði“? Hefur nokkur stjórnmálamaður síðari tíma fengið meira með engu greiddu atkvæði?

Nei Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reynir að fá sem allra allra mest með engu greiddu atkvæði. Hún hætti meira að segja við formannsframboð í Samfylkingunni nú í haust eftir að henni varð endanlega ljóst að hún yrði ekki ein í kjöri. Og það er ekki einungis þau embætti, sem Ingibjörg Sólrún hefur augastað á fyrir sjálfa sig, sem endilega þarf að ráðstafa án þess að fleiri framboð komi. Í fyrradag stefndi í að Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, byði sig fram til embættis formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, en þar var fyrir skjólstæðingur Ingibjargar Sólrúnar, Stefán Jón Hafstein, fyrrverandi dagskrárstjóri Rásar 2. Margrét Frímannsdóttir hafði getið þess í fréttum kvöldið áður að það væru „meiri líkur en minni“ á framboði sínu en þá var áróðursvélin ræst út og öllu stillt upp sem svo að með framboði Margrétar kæmu andstæðir armar flokksins upp á yfirborðið og það mætti ekki gerast. Niðurstaðan varð sú að Margrét hætti við framboð og var henni það auðheyrilega óljúft. En Stefán Jón fékk að vera einn um hituna og það þykir þeim Ingibjörgu eflaust fyrir mestu. Nú og svo er Stefán Jón sjálfsagt hinn allra hæfasti maður; að minnsta kosti sagði Margrét Frímannsdóttir að þau Stefán væru bæði „mjög hæfir einstaklingar“ og er varla nokkur ástæða til að draga það hlutlausa álit hennar í efa.