Í nýjasta vefriti fjármálaráðuneytisins er varpað fram þeirri spurningu hvort nægilegt aðhald sé í ríkisfjármálum. Ráðuneytið kemst að þeirri niðurstöðu – sem vekur mikla furðu úr þessari átt – að aðhaldið sé nægilegt. Ef marka má skrif ráðuneytisins er spurningin um aðhald í raun aðeins spurningin um hagstjórn í þröngum skilningi, þ.e. hvort fjárlögin valdi þenslu, slái á hana eða séu hlutlaus, eða eins og segir í vefritinu:
Það sem skiptir hér mestu máli er hvaða áhrif sú stefna sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu hefur á helstu hagstærðir, svo sem verðbólgu, laun, kaupmátt heimila, viðskiptajöfnuð og hagvöxt. Samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins virðast allir þessir mælikvarðar staðfesta ásættanlegt jafnvægi í efnahagsmálum á næstu árum að teknu tilliti til þeirra stórframkvæmda sem framundan eru. Þetta eru hinir raunverulegu mælikvarðar á það hvort aðhaldið í ríkisfjármálum er nægilegt eða ekki. |
Þetta eru „hinir raunverulegu mælikvarðar“ á aðhaldið að mati ráðuneytisins. Vefþjóðviljinn ætlar að leyfa sér að halda því fram að ráðuneytið gleymi mikilvægasta mælikvarðanum, en það er hvort ríkisútgjöld eru of há út frá sjónarhóli skattgreiðenda. Skattgreiðendur mættu að ósekju vera ofar í huga þeirra sem höndla með ríkisfjármál, því þá þætti sá vöxtur, sem verið hefur í ríkisfjármálum á síðustu árum og er áformaður á þeim næstu, ekki benda til nægilegs aðhalds í ríkisfjármálum. Ef hagsmunir skattgreiðenda væru forgangsatriði þyrfti varla að spyrja að því hvort aðhald í ríkisfjármálum sé nægilegt, og svarið við þeirri spurningu væri í öllu falli ekki jákvætt.
Það er gott að fá ferska menn inn á þing til að varpa fram nýjum hugmyndum eða halda hugmyndunum vakandi. Einn slíkur maður er varaþingmaðurinn Guðjón Ólafur Jónsson. Hann hafði tekið eftir því að hugmyndir um 90% húsnæðislán höfðu ekkert verið ræddar á síðustu mánuðum, þannig að þegar hann á dögunum settist í forföllum inn á þing spurði hann félagsmálaráðherra, flokksbróður sinn, tafarlaust eftirfarandi spurningar: „Hvað líður áformum ríkisstjórnarinnar um 90% húsnæðislán til almennings?“ Já, nú þarf að fá þetta fram, því annars er stórkostleg hætta á að heill dagur kunni að líða án þess að 90% húsnæðislánamálið fengi rækilega umfjöllun í fjölmiðlum.