Það hefur lengi loðað við að umræða um veiðar og sókn smábáta sé æði lífleg. Á því hefur ekki orðið nein breyting frá því að við hittumst hérna síðast fyrir rétt um einu ári. Það dylst engum að smábátaútgerð hefur stóreflst á undanförnum árum og um leið hefur yfirbragð þessarar útgerðar breyst. Hvern hefði órað fyrir því fyrir einungis nokkrum árum, að trillurnar, bátar undir 6 tonnum, yrðu komnar með vélar að afli yfir 400 hestöfl og gengju meira en 20-30 sjómílur á klukkustund. Og hver hefði trúað því að trillur færu að sækja á svipuð mið og togarar þó það heyri í raun til undantekninga. Enda er hér ekki um að ræða þessar litlu hæggengu en taktföstu trillur sem allir Íslendingar minnast, heldur eitthvað allt annað, sannkallaða ofurbáta. Þó megum við ekki ofmeta þessi skip, hvað öryggi varðar. Þróun þessa sáu fáir eða engir fyrir sem best sést á því að í dagakerfinu eru engar takmarkanir settar á vélastærð. Menn töldu væntanlega að stærð bátanna væri nægilega takmarkandi. Niðurstaðan er hins vegar sú að margir smábátanna, með tvo menn innanborðs fiska jafn mikið magn og gömlu vertíðarbátarnir gerðu áður. Munurinn er bara sá að á þeim voru u.þ.b. fjórfalt fleiri í áhöfn. |
– Úr ræðu Árna M. Mathiesen á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda 16. október 2003. |
Fyrir um áratug mátti víða sjá límmiða í gluggum bíla með áletruninni „Smábátar 3x meiri atvinna“. Lengi vel héldu menn að þarna væru andstæðingar trillukalla að nudda þeim upp úr því að með smábátaútgerð þyrfti þrjá menn til að vinna eins manns verk. Síðar kom í ljós að límmiðarnir voru ætlaðir sem stuðningur við trilluútgerðina og það hlutverk sem hún leikur í sjávarplássunum.
Allir hafa svo sem heyrt þetta: Smábátar skapa meiri atvinnu, koma með verðmesta aflann að landi, eru umhverfisvænustu veiðarnar, lífsbjörg sjávarbyggðanna og hver veit hvað. Og hver vill ekki trúa þessu? Hver ber ekki hlýjan hug til trillukallsins? Enda hefur smábátaútgerðin lengi búið við mun rýmri reglur en önnur útgerð og það hefur leitt til þess að sífellt stærri hluti heildaraflans í þorski, ýsu og steinbít kemur á land með smábátum. Á meðan aðrir hafa verið njörvaðir niður með kvótum hafa smábátar leikið lausum hala, farið langt fram úr þeim afla sem þeir var ætlaður, langt framúr því sem veiðireynsla þeirra segir til um og þar með tekið til sín stærri hluta af kökunni.
Smábátar eiga auðvitað að búa við sömu skilyrði og önnur útgerð. Ef það er rétt sem talsmenn smábátamanna segja að útgerð þeirra sé hagkvæmari en önnur hlýtur hún að geta búið við sömu skilyrði. Með svonefndri línuívilnun sem nú er mjög til umræðu yrði smábátaútgerðinni hins vegar færð enn ein ívilnunin á kostnað annarra útgerða, gefið enn eitt færið til að auka hlut sinn á kostnað annarra. Og hverjar eru þessar útgerðir sem tapa á því að öðrum sé hyglað? Eru það ekki bara sægreifarnir, spyr kannski einhver. Í mörgum tilvikum eru það menn sem keypt hafa aflahlutdeild í góðri trú. Jafnvel menn sem skapa atvinnu í sjávarbyggðunum, koma með verðmætan afla að landi og ganga vel um auðlindina. Hvers vegna á að taka af þeim og afhenda öðrum?
Í þessu ljósi má til dæmis skoða yfirlýsingu sem Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. hefur sent frá sér vegna „línuívilnunarinnar“ en þar segir meðal annars:
Það hlýtur að vera hverjum manni ljóst að ef aflaheimildir einhvers útgerðarflokks eru auknar hlýtur það að koma niður á öðrum sem sækja lífsbjörg í hafið. Fram hefur komið hjá helsta talsmanni línumismununarinnar að fyrirhugaða aflaaukningu línubátanna eigi að taka frá stærri útgerðunum. Ein þeirra útgerða á Vestfjörðum sem fellur undir þá skilgreiningu er Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf.
Hvernig má vera að fólki detti það í hug að það muni styrkja byggð á Ísafirði, Hnífsdal og í Súðavík ef kröfur smábátamanna ná fram að ganga? Ef svo færi þýddi það að tæp þúsund tonn af aflaheimildum Hraðfrystihússins Gunnvarar yrðu teknar af fyrirtækinu og afhentar öðrum útgerðum á sama svæði. Hvernig getur það stuðlað að því að bæta afkomu fólks á þessu svæði? Hvernig samræmist slík sértæk aðgerð stjórnarskrárbundnum réttindum um jafnræði þegnanna? Það er erfitt fyrir mig og starfsfólk mitt að skilja hvaða hvatir liggja að baki því að setja fram kröfur sem lúta að því að skerða atvinnuréttindi okkar með þessum hætti. Þegar Hraðfrystihúsið var stofnað hér árið 1941 var það gert til þess að taka þátt í útgerð og vinnslu hráefnis frá skipunum sem þá voru minni og flest gerð út á línu og dragnót. Síðan, í ljósi reynslunnar bæði hvað varðar öryggi sjómanna og með tilliti til tryggrar hráefnisöflunar, hefur þróunin orðið sú að skipin hafa stækkað til að gera þau hæfari til að þjóna því hlutverki sem þeim er ætlað. Ef litið er til baka hafa komið þeir tímar að ekki hefur verið fiskgegnd á heimamiðum og við þurft að sækja hráefni fyrir landvinnslu okkar austur fyrir land, en það verður ekki gert á smáum skipum jafnvel þótt línan sé beitt í landi. |